Vildu freista hans
1 Þá komu farísear og saddúkear, vildu freista Jesú og báðu hann að sýna sér tákn af himni. 2 Jesús svaraði þeim: „Að kvöldi segið þið: Það verður góðviðri því að roði er á lofti. 3 Og að morgni: Illviðri í dag, himinninn er rauður og þungbúinn. Útlit loftsins kunnið þið að ráða en ekki tákn tímanna.[ 4 Vond og ótrú kynslóð heimtar tákn en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar.“
Síðan skildi hann við þá og fór.
Varasamt súrdeig
5 Þegar lærisveinarnir fóru yfir um vatnið höfðu þeir gleymt að taka með sér brauð. 6 Jesús sagði við þá: „Gætið ykkar, varist súrdeig farísea og saddúkea.“
7 En lærisveinarnir ræddu sín á milli að þeir hefðu ekki tekið brauð.
8 Jesús varð þess vís og sagði: „Hvað eruð þið að tala um það, trúlitlir menn, að þið hafið ekki brauð? 9 Skynjið þið ekki enn? Minnist þið ekki brauðanna fimm handa fimm þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? 10 Eða brauðanna sjö handa fjórum þúsundum og hve margar körfur þið tókuð saman? 11 Hvernig má það vera að þið skynjið ekki að ég var ekki að tala um brauð við ykkur? Varist súrdeig farísea og saddúkea.“
12 Þá skildu þeir að hann hafði ekki talað um að varast súrdeig í brauði heldur kenningu farísea og saddúkea.
Játning Péturs
13 Þegar Jesús kom í byggðir Sesareu Filippí spurði hann lærisveina sína: „Hvern segja menn Mannssoninn vera?“
14 Þeir svöruðu: „Sumir Jóhannes skírara, aðrir Elía og enn aðrir Jeremía eða einn af spámönnunum.“
15 Hann spyr: „En þið, hvern segið þið mig vera?“
16 Símon Pétur svarar: „Þú ert Kristur, sonur hins lifanda Guðs.“
17 Þá segir Jesús við hann: „Sæll ert þú, Símon Jónasson! Enginn maður[ hefur opinberað þér þetta heldur faðir minn í himninum. 18 Og ég segi þér: Þú ert Pétur, kletturinn, og á þessum kletti mun ég byggja kirkju mína og máttur heljar mun ekki á henni sigrast. 19 Ég mun fá þér lykla himnaríkis og hvað sem þú bindur á jörðu mun bundið á himnum og hvað sem þú leysir á jörðu mun leyst á himnum.“
20 Þá lagði hann ríkt á við lærisveinana að segja engum að hann væri Kristur.
Dauði og upprisa
21 Upp frá þessu tók Jesús að skýra lærisveinum sínum frá því að hann ætti að fara til Jerúsalem og líða þar mikið af völdum öldunga, æðstu presta og fræðimanna og verða líflátinn en rísa upp á þriðja degi.
22 En Pétur tók hann á einmæli og fór að átelja hann: „Guð forði þér frá því, Drottinn, þetta má aldrei fyrir þig koma.“
23 Jesús sneri sér við og mælti til Péturs: „Vík frá mér, Satan, þú vilt bregða fæti fyrir mig, þú hugsar ekki um það sem Guðs er heldur það sem manna er.“
24 Þá mælti Jesús við lærisveina sína: „Hver sem vill fylgja mér afneiti sjálfum sér, taki kross sinn og fylgi mér. 25 Því að hver sem vill bjarga lífi sínu mun týna því og hver sem týnir lífi sínu mín vegna mun finna það. 26 Hvað stoðar það manninn að eignast allan heiminn og glata sálu sinni? Eða hvað gæti maður látið til endurgjalds fyrir sálu sína? 27 Mannssonurinn mun koma í dýrð föður síns með englum sínum og þá mun hann gjalda sérhverjum eftir breytni hans. 28 Sannlega segi ég ykkur: Nokkrir þeirra sem hér standa munu ekki mæta dauða sínum fyrr en þeir sjá Mannssoninn koma í ríki sínu.“