Jóhannes hálshöggvinn
1 Um þessar mundir spyr Heródes fjórðungsstjóri tíðindin af Jesú. 2 Og hann segir við sveina sína: „Þetta er Jóhannes skírari, hann er risinn frá dauðum, þess vegna gerir hann þessi kraftaverk.“
3 En Heródes hafði látið taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar, bróður síns, 4 því Jóhannes hafði sagt við hann: „Þú mátt ekki eiga hana.“ 5 Heródes vildi deyða hann en óttaðist fólkið þar eð menn töldu hann vera spámann.
6 En á afmælisdegi Heródesar sté dóttir Heródíasar dans frammi fyrir gestunum og hreif Heródes svo 7 að hann sór þess eið að veita henni hvað sem hún bæði um.
8 Að undirlagi móður sinnar segir hún: „Gef mér hér á fati höfuð Jóhannesar skírara.“
9 Konungur varð hryggur við en vegna eiðsins og gesta sinna bauð hann að veita henni þetta. 10 Hann sendi böðla í fangelsið og lét hálshöggva Jóhannes þar. 11 Höfuð hans var borið inn á fati og fengið stúlkunni en hún færði móður sinni.
12 Lærisveinar Jóhannesar komu, tóku líkið og greftruðu, fóru síðan og sögðu Jesú.
Jesús mettar með fimm brauðum
13 Þegar Jesús heyrði þetta fór hann þaðan á báti á óbyggðan stað og vildi vera einn. En fólkið frétti það og fór gangandi á eftir honum úr borgunum. 14 Þegar Jesús steig á land sá hann þar margt manna, hann kenndi í brjósti um þá og læknaði þá er sjúkir voru.
15 Um kvöldið komu lærisveinarnir að máli við Jesú og sögðu: „Hér er engin mannabyggð og dagur liðinn. Lát nú fólkið fara svo að það geti náð til þorpanna og keypt sér vistir.“
16 Jesús svaraði þeim: „Fólkið þarf ekki að fara, gefið því sjálfir mat.“
17 Þeir svara honum: „Við höfum hér ekki nema fimm brauð og tvo fiska.“
18 Hann segir: „Færið mér það hingað.“ 19 Og hann bauð fólkinu að setjast í grasið. Þá tók hann brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum en þeir fólkinu. 20 Og allir neyttu og urðu mettir. Og þeir tóku saman brauðbitana er af gengu, tólf körfur fullar. 21 En þeir sem neytt höfðu voru um fimm þúsundir karlmanna, auk kvenna og barna.
Það er ég
22 Tafarlaust knúði Jesús lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan sér yfir um meðan hann sendi fólkið brott. 23 Og er hann hafði látið fólkið fara gekk hann til fjalls að biðjast fyrir í einrúmi. Þegar kvöld var komið var hann þar einn. 24 En báturinn var þegar kominn langt frá landi og lá undir áföllum því að vindur var á móti.
25 En er langt var liðið nætur[ kom Jesús til þeirra, gangandi á vatninu. 26 Þegar lærisveinarnir sáu hann ganga á vatninu varð þeim bilt við. Þeir sögðu: „Þetta er vofa,“ og æptu af hræðslu.
27 En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: „Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir.“
28 Pétur svaraði honum: „Ef það ert þú, Drottinn, þá bjóð mér að koma til þín á vatninu.“
29 Jesús svaraði: „Kom þú!“ Og Pétur sté úr bátnum og gekk á vatninu til hans. 30 En er hann sá ofviðrið varð hann hræddur og tók að sökkva. Þá kallaði hann: „Drottinn, bjarga þú mér!“
31 Jesús rétti þegar út höndina, tók í hann og sagði: „Trúlitli maður, hví efaðist þú?“
32 Þeir stigu í bátinn og þá lægði vindinn. 33 En þeir sem í bátnum voru féllu fram fyrir honum og sögðu: „Sannarlega ert þú sonur Guðs.“
Urðu alheilir
34 Þegar þeir höfðu náð yfir um komu þeir að landi við Genesaret. 35 Fólkið á þeim stað þekkti Jesú og sendi boð um allt nágrennið og menn færðu til hans alla þá er sjúkir voru. 36 Þeir báðu hann að mega rétt snerta fald klæða hans og allir, sem snertu hann, urðu alheilir.