Kveðja
1 Páll, að vilja Guðs postuli Krists Jesú, og Tímóteus, bróðir vor, heilsa 2 þeim í Kólossu sem eru trúuð og helguð systkin[ í Kristi. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum.
Þakkir og fyrirbæn
3 Ég þakka Guði, föður Drottins vors Jesú Krists, ávallt er ég bið fyrir ykkur. 4 Ég hef heyrt um trú ykkar á Krist Jesú og um kærleikann sem þið berið til allra heilagra 5 vegna vonarinnar um það sem þið eigið geymt í himnunum og þið hafið áður heyrt um í orði sannleikans, fagnaðarerindinu. 6 Það er ekki aðeins komið til ykkar heldur alls heimsins og ber ávöxt og vex eins og það hefur líka gert hjá ykkur frá þeim degi er þið heyrðuð það og sannfærðust um náð Guðs. 7 Hið sama hafið þið og numið af Epafrasi, elskuðum samþjóni okkar, sem er trúr þjónn Krists í ykkar þágu.[ 8 Hann hefur og sagt okkur frá kærleika ykkar sem andinn hefur vakið með ykkur.
9 Frá þeim degi, er ég heyrði þetta, hef ég því ekki látið af að biðja fyrir ykkur. Ég bið þess að Guð láti anda sinn auðga ykkur að þekkingu á vilja sínum með allri speki og skilningi 10 svo að þið breytið eins og Guði líkar og þóknist honum á allan hátt, að þið berið ávöxt með hvers kyns góðum verkum og vaxið að þekkingu á Guði. 11 Hann styrki ykkur á allar lundir með dýrðarmætti sínum svo að þið fyllist þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi og getið með gleði 12 þakkað[ föðurnum sem hefur gert ykkur fært að fá arfleifð heilagra í ljósinu. 13 Hann hefur frelsað okkur frá valdi myrkursins og flutt okkur yfir í ríki síns elskaða sonar. 14 Í honum eigum við endurlausnina, fyrirgefningu synda okkar.
Guð í Kristi
15Hann er ímynd hins ósýnilega Guðs,
frumburður allrar sköpunar.
16Enda var allt skapað í honum
í himnunum og á jörðinni,
hið sýnilega og hið ósýnilega,
hásæti og herradómar, tignir og völd.
Allt er skapað fyrir hann og til hans.
17Hann er fyrri en allt og allt á tilveru sína í honum.
18Og hann er höfuð líkamans, kirkjunnar,
hann sem er upphafið, frumburðurinn frá hinum dauðu.
Þannig skyldi hann verða fremstur í öllu.
19Því að í honum þóknaðist Guði að láta alla fyllingu sína búa
20og láta hann koma öllu í sátt við sig,
öllu bæði á jörðu og himnum,
með því að semja frið með blóði sínu úthelltu á krossi.
21 Ykkur, sem voruð áður fráhverf Guði og óvinveitt í huga og vondum verkum, 22 hefur hann nú sætt við sig með dauða Krists í jarðneskum líkama. Hann lætur ykkur koma fram fyrir sig heilög og lýtalaus, óaðfinnanleg, 23 ef þið standið stöðug í trúnni, á föstum grunni og hvikið ekki frá von þess fagnaðarerindis sem þið hafið heyrt og boðað hefur verið öllu sem skapað er í heiminum. Ég, Páll, er orðinn þjónn þess.
Hann boðum við
24 Nú er ég glaður í þjáningum mínum ykkar vegna og uppfylli með þjáningum líkama míns það sem enn vantar á þjáningar Krists til heilla fyrir líkama hans, kirkjuna. 25 Hennar þjónn er ég orðinn og hef það hlutverk að boða Guðs orð óskorað, 26 leyndardóminn sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða en hefur nú verið opinberaður Guðs heilögu. 27 Guð vildi opinbera þeim hvílíkan dýrðarríkdóm heiðnar þjóðir eiga í þessum leyndardómi sem er Kristur meðal ykkar, von dýrðarinnar.
28 Hann boða ég, áminni og fræði hvern mann með allri speki að ég megi leiða alla fram fullkomna í Kristi. 29 Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti sem Kristur lætur kröftuglega verka í mér.