Ísraelsmenn búast til varnar
1 Ísraelsmenn, sem bjuggu í Júdeu, fréttu um allt sem Hólofernes, yfirhershöfðingi Nebúkadnesars Assýríukonungs, hafði gert þjóðunum og hvernig hann hafði rænt og eytt helgidóma þeirra. 2 Urðu þeir yfirkomnir af skelfingu við hann. Óttuðust þeir einnig mjög um Jerúsalem og musteri Drottins Guðs síns.
3 Þeir voru nýlega komnir aftur úr herleiðingunni og fyrir skemmstu höfðu allir Júdeumenn safnast saman er áhöldin, altarið og musterið var vígt eftir vanhelgunina. 4 Nú sendu þeir menn um öll héruð Samaríu og til borganna Kóna, Bet Hóron, Belmaín, Jeríkó, Kóba og Hasor og í Salemdalinn. 5 Þeir komu einnig varðliði fyrir á hæstu fjallshnjúkum, vígbjuggu bæina í grenndinni og komu þar fyrir vistum til að vera undir ófrið búnir en korn var nýskorið á ökrum þeirra.
6 Jóakim æðsti prestur, sem um þessar mundir var í Jerúsalem, sendi íbúum Betúlúu bréf og þeim sem bjuggu í Betómestaím, en þeir staðir eru gegnt Esdrelon við sléttuna nærri Dótan. 7 Bauð hann að þeir skyldu setja varðlið í fjallaskörðin því að leiðin til Júdeu liggur um þau. Þar væri létt að hefta för óvinarins því að skörðin væru svo þröng að um þau gætu aðeins tveir menn gengið samsíða. 8 Ísraelsmenn gerðu eins og Jóakim æðsti prestur hafði boðið og öldungaráð allrar Ísraelsþjóðarinnar, en það kemur saman í Jerúsalem.
Guð ákallaður um hjálp
9 Sérhver Ísraelsmaður hrópaði til Guðs af miklum ákafa og lagði einnig mikil meinlæti á sig. 10 Jafnt karlar, konur sem börn lögðu hærusekk um lendar sér og fénaðar síns. Hið sama gerðu allir útlendingar, daglaunamenn og þrælar sem þeir höfðu keypt. 11 Allir Ísraelsmenn, sem bjuggu í Jerúsalem, karlar, konur og börn féllu fram fyrir musterinu, jusu ösku yfir höfuð sér og breiddu hærusekki sína út frammi fyrir Drottni. 12 Einnig þöktu þeir altarið hærusekk. Þeir ákölluðu Guð Ísraels einum huga og af miklum ákafa um að gefa að börnum þeirra yrði ekki rænt né konur þeirra teknar herfangi eða borgirnar, sem þeir höfðu erft, eyðilagðar, musterið vanhelgað og svívirt heiðingjunum til skemmtunar. 13 Drottinn heyrði ákall þeirra og leit til þeirra í nauðum þeirra. Dögum saman fastaði þjóðin öll um gjörvalla Júdeu og frammi fyrir musteri almáttugs Guðs í Jerúsalem. 14 Jóakim æðsti prestur og prestarnir allir, sem stóðu frammi fyrir Drottni, og aðrir þeir sem þjónuðu Drottni bjuggust hærusekk um lendar sér þegar þeir báru fram hina daglegu brennifórn, áheitafórnir og sjálfviljagjafir lýðsins. 15 Aska var á höfuðbúnaði þeirra og þeir ákölluðu Drottin af öllum mætti sínum og báðu hann að koma allri Ísraelsþjóð til hjálpar.