Lofsöngur Júdítar
1 Og Júdít söng:
Syngið Guði mínum lof með bumbuslætti,
vegsamið Drottin með skálabumbum.
Látið sálma og lofgjörð hljóma honum til heiðurs.
Vegsamið og ákallið nafn hans.
2Guð er Drottinn sem bindur enda á styrjaldir.
Hann bjargaði mér í herbúðir lýðs síns
úr höndum þeirra er ofsóttu mig.
3Assýríumenn komu frá fjöllunum í norðri,
mergð hermanna þeirra kom.
Fjöldi hermannanna fyllti árfarvegina,
riddaraliðið huldi hæðirnar.
4Þeir hótuðu að brenna byggðir mínar,
deyða æskumenn mína með sverði,
slá brjóstmylkingum mínum við jörðu,
taka börn mín að herfangi
og ræna ungmeyjum mínum.
5Almáttugur Drottinn gerði ráðagerð þeirra að engu
með kvenmannshendi.
6Kappi þeirra var hvorki felldur af æskumönnum
né vógu hann risar
og eigi lögðu jötnar hann að velli.
Nei. Það var Júdít Meraridóttir
sem lamaði hann með fegurð sinni.
7Hún afklæddist ekkjubúningi sínum
til að hefja þjakaða í Ísrael til vegs.
Andlit sitt smurði hún með ilmsmyrslum.
8Hár sitt batt hún undir motri,
klæddist línklæðum til að ginna hann.
9Ilskór hennar heilluðu auga hans,
hann varð hugfanginn af fegurð hennar.
Sverðið sneið háls hans.
10Persa hryllti við hugdirfð hennar,
áræði hennar gerði Meda agndofa.
11Þá lét mín auðmýkta þjóð kveða við siguróp
en óvinirnir skelfdust.
Þeir ráku upp óp og flýðu.
12Synir ungra mæðra stungu óvinina í gegn,
særðu þá líkt og strokuþræla.
Hersveitir Drottins míns grönduðu þeim.
13Ég vil syngja Guði mínum nýjan söng.
Drottinn, mikill ert þú og vegsamlegur,
undursamlegur að mætti og ósigrandi.
14Þér skyldi allt, sem er skapað, þjóna
því að þú talaðir og það varð.
Þú sendir anda þinn og hann byggði upp sköpun þína.
Gegn raust þinni fær enginn staðist.
15Fjöll munu nötra til róta og höfin æða,
björgin bráðna sem vax undan tilliti þínu,
en þeim sem þig óttast ert þú náðugur.
16En allar ilmfórnir eru smávægi,
hégómi öll feiti sem brennd er þér til fórnar.
En sá sem óttast Drottin er ævinlega mikill.
17Vei heiðingjunum sem rísa gegn þjóð minni.
Almáttugur Drottinn mun refsa þeim á degi dómsins.
Hann mun senda eld og orma í líkama þeirra.
Þeir munu veina af kvöl um eilífð.
Sigurhátíð í Jerúsalem
18 Þegar fólkið kom til Jerúsalem tilbað það Guð og eftir að það hafði hreinsað sig bar það fram brennifórn sína, sjálfviljafórnir og gjafir. 19 Júdít helgaði Guði alla muni Hólofernesar sem fólkið hafði fengið henni til eignar. Flugnanetið, sem hún hafði sjálf tekið úr svefnhýsi hans, gaf hún Guði sem heitgjöf. 20 Í þrjá mánuði fagnaði fólkið fyrir utan musterið í Jerúsalem og dvaldist Júdít meðal þess.
21 Að þeim tíma liðnum hélt hver til síns heima. Fór Júdít heim til Betúlúu. Hún sat að sínu og naut mikils álits um land allt alla ævidaga sína. 22 Margir urðu til að biðja hennar en allt frá þeim degi að Manasse maður hennar dó og safnaðist til feðra sinna og á meðan hún lifði kenndi hennar enginn maður. 23 Hún bjó til hárrar elli í húsi manns síns og náði hundrað og fimm ára aldri. Þernu sinni gaf hún frelsi. Þegar Júdít lést í Betúlúu var hún lögð til grafar í grafhýsi Manasse manns síns. 24 Ísraelsmenn hörmuðu hana í sjö daga. Fyrir andlát sitt skipti hún eigum sínum milli allra ástvina Manasse manns síns og milli sinna nánustu ættingja.
25 Meðan Júdít lifði ógnaði enginn Ísraelsmönnum og ekki langa hríð eftir að hún hvarf af heimi.