1 Þá kvaddi Jósúa til sín niðja Rúbens og Gaðs og hálfan ættbálk Manasse 2 og sagði við þá: „Þið hafið fylgt öllu, sem Móse, þjónn Drottins, lagði fyrir ykkur. Þið hafið einnig hlýtt öllu sem ég bauð ykkur. 3 Allan þennan tíma og allt til þessa dags hafið þið ekki brugðist bræðrum ykkar. Þið hafið gætt þess að halda boð Drottins, Guðs ykkar, í einu og öllu. 4 En nú hefur Drottinn, Guð ykkar, veitt bræðrum ykkar öryggi og frið, eins og hann hafði heitið þeim. Snúið því aftur til tjalda ykkar, til ykkar eigin lands sem Móse, þjónn Drottins, fékk ykkur handan Jórdanar. 5 En gætið þess vandlega að halda boð það og lögmál sem Móse, þjónn Drottins, lagði fyrir ykkur, að elska Drottin, Guð ykkar, ganga á öllum vegum hans, halda öll boð hans, bindast honum og þjóna af öllu hjarta og allri sálu.“
6 Að svo mæltu kvaddi Jósúa þá, lét þá fara og héldu þeir til tjalda sinna.
7 Móse hafði fengið öðrum helmingi Manasseættbálks land í Basan en Jósúa fékk hinum helmingnum land hjá bræðrum þeirra vestan við Jórdan. Þegar Jósúa lét þá fara aftur til tjalda sinna og kvaddi þá, 8 sagði hann: „Hverfið nú aftur heim til tjalda ykkar með mikinn auð, stórar hjarðir búfjár, silfur og gull, eir, járn og mikið af klæðnaði. Skiptið með bræðrum ykkar herfanginu sem þið hafið tekið af fjandmönnum ykkar.“
9 Niðjar Rúbens og Gaðs og hálfur ættbálkur Manasse héldu nú frá Ísraelsmönnum í Síló í Kanaanslandi og fóru til Gíleaðs, til síns eigin lands, sem þeir höfðu tekið til eignar samkvæmt fyrirmælum Drottins af munni Móse.
Altari við Jórdan
10 Þegar niðjar Rúbens og Gaðs og hálfur ættbálkur Manasse komu að steinhringjunum við Jórdan í Kanaanslandi reistu þeir þar altari við Jórdan. Var það mikið altari á að líta. 11 Ísraelsmenn fréttu að niðjar Rúbens og Gaðs og hálfur ættbálkur Manasse hefðu reist altari við landamæri Kanaans, við steinhringina nærri Jórdan handan við landsvæði Ísraelsmanna. 12 Þegar Ísraelsmönnum barst þetta til eyrna safnaðist allur söfnuður þeirra saman í Síló til þess að halda hervæddur gegn þeim.
13 Síðan sendu þeir Pínehas, son Eleasars prests, til Gíleaðs til fundar við niðja Rúbens og Gaðs og hálfan ættbálk Manasse. 14 Með honum fóru tíu höfðingjar, einn fyrir hverja fjölskyldu, hvern ættbálk Ísraels, en hver þeirra var höfðingi sinnar ættar meðal þúsunda Ísraels.[ 15 Þeir komu til niðja Rúbens og Gaðs og hálfs ættbálks Manasse í Gíleað og sögðu við þá: 16 „Svo segir allur söfnuður Drottins: Hvílík svik eru þetta? Í dag hafið þið brugðist Guði Ísraels með því að snúa baki við Drottni. Með því að reisa ykkur altari hafið þið nú í dag gert uppreisn gegn Drottni. 17 Nægir ekki sökin við Peór? Enn í dag höfum við ekki hreinsað okkur af henni og sökum hennar kom plága yfir söfnuð Drottins. 18 Nú hafið þið samt horfið frá fylgd við Drottin. Ef þið rísið gegn Drottni í dag kemur reiði hans yfir allan söfnuð Ísraels á morgun. 19 Ef landið, sem þið eigið, er óhreint, komið þá yfir til landsins sem er eign Drottins og þar sem bústaður Drottins er og takið ykkur land á meðal okkar. En rísið ekki gegn Drottni. Komið okkur ekki til að taka þátt í uppreisn með því að reisa annað altari en altari Drottins, Guðs okkar. 20 Þegar Akan Seraksson stal af herfanginu, sem var helgað banni, kom þá ekki reiði Drottins yfir allan söfnuð Ísraels? Og ekki varð hann einn að deyja sökum afbrots síns.“
21 Þá svöruðu niðjar Rúbens og Gaðs og hálfur ættbálkur Manasse og sögðu við foringja meðal þúsunda Ísraels: 22 „Drottinn, Guð guðanna, Drottinn, Guð guðanna, veit og Ísrael skal vita: Ef þetta var uppreisn, ef þetta voru svik við Drottin, þá skal hann ekki hjálpa okkur í dag. 23 Drottinn mun sjálfur kanna hvort við höfum reist okkur altari til þess að hverfa frá fylgd við Drottin[ eða til þess að færa á því brennifórn, kornfórn og sláturfórnir. 24 Nei, við gerðum þetta af því að við höfðum af því áhyggjur að einhvern tíma kynnu niðjar ykkar að spyrja niðja okkar: Hvað kemur ykkur Drottinn, Guð Ísraels, við? 25 Drottinn hefur sett Jórdan sem landamæri milli okkar og ykkar, niðja Rúbens og Gaðs. Þið eigið engan hlut í Drottni. Þannig geta niðjar ykkar hindrað okkur í að sýna Drottni lotningu. 26 Þess vegna hugsuðum við með okkur: Við skulum reisa altari en þó hvorki fyrir brennifórnir né sláturfórnir 27 heldur skal það vera vitni þess fyrir okkur og ykkur og komandi kynslóðir að við munum þjóna Drottni eins og honum ber fyrir augliti hans, með brennifórnum okkar, sláturfórnum og heillafórnum. Þá munu niðjar ykkar ekki segja við niðja okkar í framtíðinni: Þið eigið engan hlut í Drottni. 28 Við hugsuðum með okkur: Ef þeir tala þannig til okkar eða niðja okkar í framtíðinni munum við segja: Lítið á eftirmynd altaris Drottins, sem feður okkar gerðu, en hvorki til brennifórna né sláturfórna heldur til vitnis fyrir okkur og ykkur. 29 Fjarri sé okkur að rísa gegn Drottni og hverfa frá fylgd við hann nú í dag, með því að reisa okkur annað altari fyrir brennifórnir, kornfórnir og sláturfórnir en altari Drottins, Guðs okkar, sem stendur frammi fyrir bústað hans.“
30 Þegar Pínehas prestur og höfðingjar safnaðarins og höfðingjar þúsunda Ísraels, sem með honum voru, höfðu hlustað á ræðuna, sem niðjar Rúbens og Gaðs og hálfur ættbálkur Manasse höfðu flutt, létu þeir sér vel líka. 31 Því næst ávarpaði Pínehas, sonur Eleasars prests, niðja Rúbens og Gaðs og hálfan ættbálk Manasse og sagði: „Nú vitum við að Drottinn er meðal okkar því að þið hafið ekki brugðist Drottni. Þar með hafið þið bjargað Ísrael úr hendi Drottins.“
32 Þá sneru Pínehas, sonur Eleasars prests, og höfðingjarnir frá niðjum Rúbens og Gaðs í Gíleað og héldu heim til Ísraelsmanna í Kanaanslandi og skýrðu þeim frá málalokum. 33 Ísraelsmenn glöddust og lofuðu Guð og hugsuðu ekki framar til þess að halda með hernaði gegn niðjum Rúbens og Gaðs, til þess að eyða landið sem þeir bjuggu í.
34 Niðjar Rúbens og Gaðs nefndu altarið: „Það er vitni okkar um að Drottinn einn er Guð.“