Sólin stendur kyrr
1 Adónísedek, konungur í Jerúsalem, frétti að Jósúa hefði tekið Aí og helgað hana banni. Hann hefði farið með Aí og konung hennar eins og Jeríkóborg og konung hennar og að íbúar Gíbeonborgar hefðu samið frið við Ísrael og byggju meðal þeirra. 2 Hann og þjóð hans urðu skelfingu lostin því að Gíbeon var stór borg, jafnstór og ein af konungsborgunum. Hún var stærri en Aí og allir karlmenn í borginni reyndir hermenn.
3 Adónísedek, konungur í Jerúsalem, sendi því menn til Hóhams, konungs í Hebron, Píreams, konungs í Jarmút, Jafía, konungs í Lakís og til Debírs, konungs í Eglon, með þessi boð: 4 „Komið til mín og hjálpið mér að vinna Gíbeon af því að hún hefur samið frið við Jósúa og Ísraelsmenn.“
5 Þá söfnuðust saman Amorítakonungarnir fimm, konungurinn í Jerúsalem, Hebron, Jarmút, Lakís og Eglon. Þeir og allir herir þeirra héldu upp til Gíbeon, settust um borgina og tóku að herja á hana.
6 Síðan sendu mennirnir í Gíbeon til Jósúa í herbúðunum í Gilgal og létu skila til hans: „Slepptu nú ekki hendinni af þjónum þínum. Skundaðu upp eftir til okkar, bjargaðu okkur og veittu okkur lið því að allir konungar Amoríta frá fjalllendinu hafa gert bandalag gegn okkur.“
7 Jósúa hélt þá upp eftir frá Gilgal með allan herinn og reynda hermenn. 8 Drottinn sagði við Jósúa: „Vertu ekki hræddur við þá því að ég sel þá þér í hendur. Enginn þeirra mun fá staðist fyrir þér.“
9 Jósúa kom að þeim óvörum eftir að hafa haldið för sinni frá Gilgal viðstöðulaust áfram um nóttina. 10 Drottinn olli ringulreið meðal þeirra andspænis Ísrael svo að hann gersigraði þá við Gíbeon og rak flótta þeirra eftir stígnum upp til Bet Hóron og alveg til Aseka og Makkeda og hjó þá niður. 11 Á flóttanum undan Ísrael, er þeir voru á stígnum niður frá Bet Hóron, kastaði Drottinn sjálfur stórum steinum á þá af himni alla leiðina til Aseka og varð það þeirra bani. Haglgrýtið felldi fleiri en Ísraelsmenn felldu með sverði.
12 Á þessum degi, þegar Drottinn framseldi Amoríta fyrir augliti Ísraelsmanna, talaði Jósúa við Drottin og sagði við hann í návist Ísraelsmanna:
Sól, statt þú kyrr yfir Gíbeon
og þú, tungl, yfir Ajalondal.
13Og sólin stóð kyrr
og tunglið stöðvaðist
uns þjóðin hafði hefnt sín á óvinum sínum.
Þetta er skráð í Bók hins réttláta. Sólin stóð kyrr á miðjum himni og nær heill dagur leið þar til hún settist. 14 Aldrei hefur slíkur dagur komið. Hvorki fyrr né síðar hefur Drottinn farið að orðum manns því að Drottinn barðist fyrir Ísrael.
15 Því næst sneri Jósúa ásamt öllum Ísrael aftur til búðanna í Gilgal.
Jósúa sigrar fimm Amorítakonunga
16 En Amorítakonungarnir fimm flýðu og földu sig í hellinum við Makkeda. 17 Þá var Jósúa tilkynnt: „Konungarnir fimm eru fundnir. Þeir földu sig í hellinum við Makkeda.“ 18 Jósúa sagði: „Veltið stórum steinum fyrir munna hellisins og setjið menn á vörð við hellinn til þess að gæta þeirra. 19 En standið ekki aðgerðalausir. Veitið óvinum ykkar eftirför og ráðist á bakverði þeirra. Látið þá ekki komast inn í borgir sínar því að Drottinn, Guð ykkar, hefur selt þá ykkur í hendur.“
20 Þegar Jósúa og Ísraelsmenn höfðu gersigrað óvini sína, svo að þeir guldu afhroð, komust fáeinir flóttamenn undan inn í víggirtu borgirnar. 21 Að því loknu sneri allur herinn aftur til Jósúa í Makkeda heill á húfi en enginn þorði framar að gera Ísraelsmönnum neitt til miska.
22 Þá skipaði Jósúa: „Opnið hellismunnann og færið mér konungana fimm úr hellinum.“
23 Það var gert og konungarnir fimm, konungurinn í Jerúsalem, konungurinn í Hebron, konungurinn í Jarmút, konungurinn í Lakís og konungurinn í Eglon voru færðir til hans úr hellinum. 24 Þegar konungarnir höfðu verið leiddir fyrir Jósúa kallaði hann alla Ísraelsmenn saman og gaf foringjum hermannanna, sem farið höfðu með honum, þessi fyrirmæli: „Gangið fram og stígið fæti á háls þessara konunga.“ Þeir gengu þá fram og stigu fæti sínum á háls þeirra. 25 Þá sagði Jósúa við þá: „Óttist ekki og látið ekki hugfallast. Verið hraustir og djarfir. Þannig mun Drottinn fara með alla fjandmenn ykkar sem þið munuð berjast við.“ 26 Því næst hjó Jósúa konungana banahögg og lét hengja þá upp í fimm tré. Þeir héngu í trjánum til kvölds. 27 Um sólarlagsbil gaf Jósúa skipun um að taka þá ofan úr trjánum og fleygja þeim inn í hellinn sem þeir höfðu falið sig í. Því næst var stórum steinum komið fyrir í hellismunnanum og þar hafa þeir verið allt til þessa dags.
Sex kanverskar borgir unnar
28 Þennan sama dag vann Jósúa Makkeda. Hann hjó íbúa hennar og konung með sverðseggjum. Hann helgaði borgina banni og allt lifandi í henni. Hann lét engan flóttamann sleppa og fór með konunginn í Makkeda eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó.
29 Því næst hélt Jósúa ásamt öllum Ísrael frá Makkeda til Líbna og herjaði á borgina. 30 Þá borg og konung hennar seldi Drottinn einnig Ísrael í hendur. Jósúa hjó niður alla sem í henni bjuggu, allt kvikt, með sverðseggjum. Hann lét engan flóttamann sleppa og fór með konung hennar eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó.
31 Að því loknu hélt Jósúa ásamt öllum Ísrael frá Líbna til Lakís, settist um borgina og herjaði á hana. 32 Drottinn seldi Lakís Ísrael í hendur og vann Jósúa borgina á öðrum degi. Hann hjó alla íbúa borgarinnar með sverðseggjum og allt kvikt og fór með hana á sama hátt og hann hafði farið með Líbna. 33 Hóram, konungur í Geser, hafði komið upp eftir til að veita Lakís lið en Jósúa felldi hann og allan her hans og lét engan flóttamann sleppa.
34 Síðan hélt Jósúa ásamt öllum Ísrael frá Lakís til Eglon, settist um borgina, herjaði á hana 35 og vann hana sama dag. Þeir felldu alla íbúa hennar með sverði og Jósúa helgaði allt lifandi í henni banni og fór með hana eins og hann hafði farið með Lakís.
36 Að því loknu fór Jósúa ásamt öllum Ísrael frá Eglon til Hebron og herjuðu þeir á borgina 37 og unnu hana. Jósúa felldi með sverðseggjum alla íbúa borgarinnar og konung hennar, allt lifandi í henni og í borgunum umhverfis Hebron, engan flóttamann létu þeir sleppa. Jósúa fór eins með borgina og hann hafði farið með Eglon, helgaði hana banni og alla sem í henni voru.
38 Því næst sneri Jósúa ásamt öllum Ísrael til Debír, herjaði á borgina 39 og vann hana og konung borgarinnar og allar borgirnar umhverfis. Hann felldi alla borgarbúa með sverðseggjum og helgaði alla sem í henni voru banni, allt lifandi í henni, og lét engan flóttamann komast undan. Jósúa fór með Debír og konung hennar eins og hann hafði farið með Hebron og konung hennar og Líbna og konung hennar.
40 Þannig lagði Jósúa allt landið undir sig, bæði fjalllendið og Suðurlandið Negeb, láglendið og hlíðarnar, og alla konunga þar. Hann lét engan flóttamann komast undan og helgaði allt lifandi banni, eins og Drottinn, Guð Ísraels, hafði boðið. 41 Jósúa lagði undir sig landið frá Kades Barnea til Gasa og allt Gósenland til Gíbeon. 42 Jósúa vann öll þessi lönd og konunga þeirra í einni atrennu því að Drottinn, Guð Ísraels, barðist fyrir Ísrael.
43 Því næst sneri Jósúa og allur Ísrael til búðanna í Gilgal.