Lokasvar Jobs

1 Job svaraði Drottni og sagði:
2Nú skil ég að þú getur allt,
ekkert, sem þú vilt, er þér um megn.
3Hver myrkvar ráðsályktunina án þekkingar?
Ég hef talað af skilningsleysi
um undursamleg kraftaverk.
4Hlustaðu, nú ætla ég að tala,
ég ætla að spyrja, þú skalt svara.
5Ég þekkti þig af afspurn
en nú hefur auga mitt litið þig.
6Þess vegna tek ég orð mín aftur
og iðrast í dufti og ösku.

Eftirmáli

7 Þegar Drottinn hafði mælt þessum orðum til Jobs sagði hann við Elífas frá Teman: „Reiði mín logar gegn þér og báðum vinum þínum því að þér hafið ekki sagt satt um mig eins og Job, þjónn minn. 8 Takið nú sjö naut
og sjö geithafra, farið til Jobs, þjóns míns, og færið brennifórn fyrir yður. Job, þjónn minn, mun biðja fyrir yður. Hans vegna mun ég hlífa yður við smán því að þér sögðuð ekki satt um mig eins og Job, þjónn minn.“
9 Þá fóru Elífas frá Teman, Bildad frá Súa og Sófar frá Naama og gerðu það sem Drottinn hafði boðið og Drottinn bænheyrði Job. 10 Drottinn sneri við högum Jobs því að hann hafði beðið fyrir vinum sínum, og Drottinn gaf Job tvöfalt það sem hann hafði áður átt.
11 Síðan komu allir bræður Jobs og systur og allir kunningjar hans frá fyrri tíð og snæddu með honum í húsi hans, sýndu honum samúð vegna alls þess böls sem Drottinn hafði látið koma yfir hann. Þau hugguðu hann og sérhvert þeirra gaf honum einn kesíta og nefhring úr gulli.
12 Drottinn blessaði síðari æviár Jobs meira en hin fyrri. Hann eignaðist fjórtán þúsund fjár, sex þúsund úlfalda, þúsund sameyki nauta og þúsund ösnur. 13 Hann eignaðist einnig sjö syni og þrjár dætur. 14 Hann gaf þeirri fyrstu nafnið Jemíma, annarri Kesía og þeirri þriðju Keren Happúk. 15 Fegurri konur en dætur Jobs fundust hvergi í öllu landinu og faðir þeirra fékk þeim erfðahlut með bræðrum þeirra.
16 Eftir þetta lifði Job í hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn í fjóra ættliði. 17 Og Job dó gamall og saddur lífdaga.