1En nú hlæja þeir að mér
sem eru mér yngri að árum,
mér þóttu feður þeirra ekki verðir þess
að vera með fjárhundum mínum.
2Að hvaða gagni kom mér kraftur þeirra?
Þróttur þeirra var þorrinn,
3örmagna af skorti og aðþrengdir af hungri
nöguðu þeir skrælþurrt landið
sem í gær var auðn og eyðimörk.
4Þeir söfnuðu hrímblöðku við þyrnirunna
og höfðu rætur til matar,
5voru flæmdir úr samfélaginu
og á eftir þeim var hrópað eins og þjófum.
6Í hlíðum fjallanna hírast þeir
í holum og hellum.
7Þeir kveina milli runnanna,
hópast saman undir þistlunum.
8Þetta er ærulaust fólk, nafnlaust fólk,
sem var hrakið út úr landinu.
9En nú kveður það um mig níðvísur
og fleiprar um mig.
10Það hefur óbeit á mér, forðast mig,
hikar ekki við að hrækja framan í mig.
11Þar sem Guð losaði bogastreng minn og niðurlægði mig
sleppti það fram af sér beislinu frammi fyrir mér.
12Frá hægri reis skari gegn mér,
kippti undan mér fótunum og lagði gegn mér óheillabrautir sínar.
13Þeir rufu stíg minn, unnu að falli mínu
og enginn aftraði þeim,
14þeir komu eins og gegnum breitt múrskarð
og byltust sem öldur innan um rústirnar.
15Skelfingar hafa snúist gegn mér,
virðingu minni var feykt burt eins og í stormi
og gæfa mín hvarf eins og ský.
16Nú fjarar líf mitt út,
dagar eymdarinnar hremma mig,
17um nætur nístast bein mín sundur,
nagandi kvölunum linnir ekki.
18Guð þreif í klæði mín af öllu afli,
herti að mér eins og hálsmál kyrtils,
19kastaði mér niður í eðjuna
og ég varð eins og mold og aska.
20Ég hrópa til þín en þú svarar ekki,
ég stend kyrr en þú verður mín ekki var.
21Þú ert orðinn grimmur við mig,
ræðst gegn mér af alefli,
22 þú setur mig á bak vindinum
og lætur hann bera mig burt.
23 Ég veit að þú sendir mig í dauðann,
á ákvörðunarstað allra sem lifa.
24 En rétta menn ekki út höndina þegar allt hrynur,
hrópa menn ekki á hjálp í neyð sinni?
25 Grét ég ekki yfir þeim sem áttu illa ævi,
hafði ég ekki meðaumkun með fátæklingum?
26 Þegar ég bjóst við góðu kom illt,
ég vænti ljóss en þá kom myrkur.
27 Innyfli mín ólga linnulaust,
eymdardagar bíða mín.
28 Ég geng um svartur en þó ekki sviðinn af sól,
ég rís á fætur í söfnuðinum og hrópa á hjálp.
29 Ég verð bróðir sjakala,
félagi strútsins.
30 Hörund mitt er orðið svart
og beinin glóandi af sótthita.
31 Hörpuleikur minn varð að sorgarljóði,
flautuleikurinn harmakvein.
Jobsbók 30. kafliHið íslenska biblíufélag2024-06-27T02:38:43+00:00
Jobsbók 30. kafli
Hægt er að nálgast texta þessa kafla í öðrum íslenskum þýðingum með því að smella á nafn þýðingarinnar hér fyrir neðan. Þýðingin opnast í nýjum glugga.