Guðrækni og hamingja Jobs

1 Einu sinni var maður í Úslandi sem Job hét. Hann var ráðvandur og réttlátur, óttaðist Guð og forðaðist illt. 2 Hann eignaðist sjö syni og þrjár dætur. 3 Hann átti sjö þúsund fjár, þrjú þúsund úlfalda, fimm hundruð sameyki nauta, fimm hundruð ösnur og fjölda þræla. Þessi maður var öllum öðrum auðugri í löndunum fyrir austan.
4 Synir hans höfðu þá venju að efna til veislu heima hjá sér, hver þeirra á ákveðnum degi. Þá buðu þeir systrum sínum þremur að eta og drekka með sér. 5 Þegar veisludagarnir voru liðnir sendi Job eftir þeim og helgaði þau. Þann morgun fór Job snemma á fætur og færði brennifórnir fyrir hvert þeirra því að hann hugsaði: „Ef til vill hafa börn mín syndgað og formælt Guði í hjarta sér.“ Þetta gerði Job í hvert skipti.

Fyrri prófraun Jobs

6 Dag nokkurn bar svo til að synir Guðs komu og gengu fyrir Drottin og var Satan á meðal þeirra. 7 Drottinn spurði Satan: „Hvaðan kemur þú?“ Satan svaraði Drottni og sagði: „Ég hef verið á ferðalagi hingað og þangað um jörðina.“ 8 Þá spurði Drottinn Satan: „Veittir þú athygli þjóni mínum, Job? Enginn maður á jörðinni er jafnráðvandur og réttlátur og hann. Hann óttast Guð og forðast illt.“ 9 Satan svaraði Drottni og sagði: „Er Job guðhræddur að ástæðulausu? Hefur þú ekki verndað hann, hús hans og eignir á alla lund? 10 Þú hefur blessað störf hans og fénaður hans hefur dreift sér um landið. 11 En réttu út hönd þína og snertu allt sem hann á, þá mun hann vissulega formæla þér upp í opið geðið.“ 12 Drottinn sagði við Satan: „Allar eigur hans eru á þínu valdi en gegn honum sjálfum máttu ekki rétta hönd þína.“
Síðan fór Satan frá augliti Drottins.
13 Nú bar svo til einn daginn þegar synir hans og dætur átu og drukku vín heima hjá elsta bróður sínum 14 að sendiboði kom til Jobs og sagði: „Nautin voru að draga plóginn og asnarnir á beit í grenndinni 15 þegar Sabear gerðu árás og tóku þau með sér en felldu piltana með sverðseggjum. Ég komst einn undan og get flutt þér tíðindin.“
16 Áður en hann hafði lokið máli sínu kom annar og sagði: „Eldur Guðs féll af himni, kveikti í sauðunum og piltunum og gleypti þá. Ég komst einn undan og get flutt þér tíðindin.“
17 Áður en hann hafði lokið máli sínu kom enn annar og sagði: „Kaldear fylktu þremur flokkum, réðust á úlfaldana og tóku þá með sér en felldu piltana með sverðseggjum. Ég komst einn undan og get flutt þér tíðindin.“
18 Áður en hann hafði lokið máli sínu kom enn einn sendiboði og sagði: „Synir þínir og dætur átu og drukku vín heima hjá elsta bróðurnum 19 þegar mikill stormur úr eyðimörkinni skall yfir og braut niður öll fjögur horn hússins. Það hrundi yfir ungmennin og þau létu lífið.“
20 Þá reis Job á fætur, reif klæði sín og skar hár sitt. 21 Því næst lét hann fallast á jörðina og baðst fyrir með þessum orðum:
Nakinn kom ég af móðurskauti
og nakinn hverf ég þangað aftur,
Drottinn gaf og Drottinn tók,
lofað veri nafn Drottins.

22 Þrátt fyrir allt þetta syndgaði Job ekki og álasaði Guði ekki.