1Hinn réttláti ferst
en enginn tekur það nærri sér,
hinum guðhræddu er svipt burt
en enginn gefur því gaum.
Vegna illskunnar
er hinum réttláta svipt burt,
2hann gengur inn til friðarins.
Þeir munu liggja á hvílum sínum
sem gengu beina braut.
Gegn skurðgoðadýrkun
3En þér, seiðkonusynir,
komið hingað,
börn hórkarls og skækju.
4Að hverjum skopist þér,
gegn hverjum glennið þér upp ginið
og rekið út tunguna?
Eruð þér ekki afsprengi syndarinnar,
afkvæmi lyginnar?
5Þér brennið af girnd við eikurnar,
undir hverju laufguðu tré,
slátrið börnum í dölunum,
niðri í klettagjánum.
6Með sléttum steinum í árfarvegi áttu hlut,
þeir, já, þeir eru hlutskipti þitt.
Þú dreyptir þeim dreypifórnir,
færðir þeim kornfórn.
Á ég að una þessu?
7Á háu og gnæfandi fjalli
bjóstu hvílu þína,
þangað hélstu upp
til að færa sláturfórn.
8Á bak við hurð og dyrastaf
settir þú tákn þitt,
fráhverf mér flettir þú ofan af hvílunni, steigst upp í
og rýmkaðir þar til.
Þú keyptir þér hvílunauta sem þú girntist,
horfðir á nekt þeirra.
9Þú fórst með olíu til Meleks [
og smurðir þig ríkulega með ilmsmyrslum,
þú sendir sendiboða þína langar leiðir,
allt niður til heljar.
10Þú þreyttist af mörgum ferðum þínum
en sagðir þó ekki: „Ég gefst upp.“
Þú fannst að hönd þín styrktist,
þess vegna örmagnaðist þú ekki.
11Hver vakti þér beyg, hver ugg
þar sem þú brást mér,
mundir ekki eftir mér
og hirtir ekki um mig?
Þagði ég ekki í óratíma
en þú óttaðist mig ekki?
12Ég skal segja frá réttlæti þínu og verkum
en þau verða þér ekki að liði.
13Lát skurðgoðaflokk þinn bjarga þér
þegar þú hrópar á hjálp.
Stormurinn ber hann burt,
vindurinn tekur hann
en sá sem leitar hælis hjá mér
mun erfa landið
og taka mitt heilaga fjall til eignar.
Friður veitist auðmjúkum
14Einhver segir:
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
15Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.
16Ég þreyti ekki deilur eilíflega
og reiðist ekki ævinlega,
annars mundi kjarkur þeirra bila frammi fyrir mér
og lífsandinn sem ég skapaði.
17Ég reiddist sökum syndsamlegrar græðgi þeirra,
sló þá, huldi mig og var reiður
en þeir voru mér fráhverfir
og héldu þann veg sem þá lysti.
18Ég sá hvaða veg þeir gengu
en vildi lækna þá og leiða
og veita syrgjendum þeirra huggun.
19Ég skapa ávöxt varanna:
Friður, friður þeim sem er fjarri
og þeim sem er nærri, segir Drottinn.
Ég lækna þá.
20En óguðlegir eru sem ólgusjór
því að enginn lægir hann
og öldur hans róta upp aur og leðju,
21óguðlegir hljóta engan frið,
segir Guð minn.