Sáttmálinn endurnýjaður
1Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins
og þér sem ekkert fé eigið, komið,
komið, kaupið korn og etið,
komið, þiggið korn án silfurs
og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk.
2Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð
og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður?
Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu
og endurnærist af feitmeti.
3Leggið við hlustir og komið til mín,
hlustið, þá munuð þér lifa.
Ég ætla að gera við yður ævarandi sáttmála
og miskunn mín við Davíð mun stöðug standa.
4Ég gerði hann að vitni fyrir þjóðirnar,
að höfðingja og stjórnanda þjóðanna.
5Sjá, þú munt kveðja til þjóðir sem þú þekkir ekki
og þjóðir, sem ekki þekkja þig, munu skunda til þín
vegna Drottins, Guðs þíns, Hins heilaga Ísraels,
því að hann hefur gert þig vegsamlegan.
6Leitið Drottins meðan hann er að finna,
ákallið hann meðan hann er nálægur.
7Hinn guðlausi láti af breytni sinni
og illmennið af vélráðum sínum
og snúi sér til Drottins svo að hann miskunni honum,
til Guðs vors því að hann fyrirgefur ríkulega.
8Mínar hugsanir eru ekki yðar hugsanir
og yðar vegir ekki mínir vegir, segir Drottinn.
9Eins og himinninn er hátt yfir jörðinni
eru mínir vegir hærri yðar vegum
og mínar hugsanir hærri yðar hugsunum.
10Eins og regn og snjór fellur af himni
og hverfur ekki þangað aftur
fyrr en það hefur vökvað jörðina,
gert hana frjósama og gróandi,
gefið sáðkorn þeim sem sáir
og brauð þeim er eta,
11eins er því farið með orð mitt sem kemur af munni mínum,
það hverfur ekki aftur til mín við svo búið
heldur kemur því til leiðar sem mér þóknast
og framkvæmir það sem ég fel því.
12Já, þér skuluð fara burt fagnandi
og örugg verðið þér leidd af stað.
Fjöll og hæðir ljósta upp fagnaðarópi frammi fyrir yður
og öll tré á sléttunni klappa saman lófum.
13Í stað þyrnirunna skal kýprusviður vaxa
og myrtusviður í staðinn fyrir netlur.
Þetta verður Drottni til dýrðar,
ævarandi tákn sem aldrei skal afmáð.