Spáð falli Babýlonar
1Stíg niður og sestu í duftið,
mærin Babeldóttir.
Sestu á jörðina, ekki í hásæti,
Kaldeadóttir,
því að þú ert ekki lengur talin viðkvæm og dekruð.
2Taktu kvörn og malaðu mjöl,
fjarlægðu slæðuna,
lyftu klæðisfaldinum, beraðu fótleggina,
vað yfir fljótin.
3Blygðun þín verður beruð
og svívirða þín sýnileg,
ég hefni mín og þyrmi engum.
4Lausnari vor ber nafnið Drottinn allsherjar,
Hinn heilagi Ísraels.
5Sestu hljóð og farðu inn í myrkrið,
Kaldeadóttir,
því að þú verður ekki framar kölluð
drottning konungsríkja.
6Ég reiddist þjóð minni,
vanhelgaði erfðaland mitt,
ég fékk hana þér í hendur.
En þú sýndir henni enga miskunn,
þjakaðir aldraða með þungu oki þínu.
7Þú sagðir: „Ég verð ávallt,
um aldur og ævi, drottning.“
En þú íhugaðir þetta aldrei,
hugsaðir aldrei um endalokin.
8En hlusta nú, sællífa kona,
sem situr áhyggjulaus í hásæti
og hugsar með sjálfri þér:
„Ég og engin önnur.
Ég mun aldrei sitja í ekkjudómi,
aldrei reyna hvað barnleysi er.“
9En hvort tveggja mun yfir þig koma,
óvænt, á einum og sama degi.
Þú verður bæði barnlaus og ekkja,
það mun henda þig í fullum mæli,
þrátt fyrir margvíslega galdra þína
og mátt særinga þinna.
10Þú treystir kunnáttu þinni,
sagðir: „Enginn sér til mín.“
Kunnátta þín og þekking leiddi þig afvega
svo að þú sagðir með sjálfri þér:
„Ég og engin önnur.“
11En yfir þig mun koma ógæfa,
þá kanntu engan varnargaldur,
tortíming dynur yfir þig,
þá getur þú ekki varnað henni með yfirbót,
eyðing, sem þú sérð ekki fyrir,
kemur óvænt yfir þig.
12Gakktu þá fram með særingar þínar
og alla þína galdra
sem þú hefur stundað frá æsku.
Ef til vill getur þú bjargað þér,
ef til vill vakið skelfingu.
13Þú þreyttist á fjölmörgum ráðgjöfum,
þeir gangi nú fram.
Nú skulu stjörnuspekingar koma til liðs,
þeir sem stara á stjörnurnar
og boða þér við nýtt tungl
hvað yfir þig muni koma.
14En þeir eru sem hálmstrá
sem eldur brennir upp
og fá ekki bjargað sjálfum sér úr eldhafinu
sem hvorki er glóð að orna sér við
né eldur að sitja við.
15Þannig reynast galdramenn þínir þér,
sem þú hefur erfiðað með frá æskuárum,
þeir villast hver í sína áttina
og enginn verður þér til hjálpar.