Blessun yfir Ísrael
1Hlýð þú á, Jakob, þjónn minn,
og Ísrael sem ég hef útvalið.
2Svo segir Drottinn sem skapaði þig,
mótaði þig í móðurlífi og hjálpar þér:
Óttast ekki, Jakob, þjónn minn,
Jesjúrún sem ég hef útvalið
3því að ég helli vatni yfir hið þyrsta land
og veiti ám um þurrlendið.
Ég úthelli anda mínum yfir niðja þína
og blessun minni yfir börn þín.
4Þau munu dafna eins og sef við vatn,
eins og pílviðir á lækjarbökkum.
5Eitt þeirra mun segja: „Ég heyri Drottni til,“
annað mun nefna sig nafni Jakobs,
enn annað rita á hönd sér: „Eign Drottins“,
og taka sér sæmdarheitið Ísrael.
Guð er einn
6Svo segir Drottinn, konungur Ísraels,
lausnarinn, Drottinn allsherjar:
Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti.
Enginn Guð er nema ég.
7Hver er sem ég?
Hann gangi fram og tali
og lýsi því yfir,
skýri mér frá því.
Hver sagði fyrir um framtíðina í upphafi?
8Skelfist ekki og látið ekki hugfallast.
Lét ég yður ekki heyra þetta,
boðaði það frá öndverðu?
Þér eruð vitni mín.
Er nokkur annar Guð en ég?
Enginn annar klettur er til það ég veit.
Háðsyrði um hjáguðadýrkun
9Þeir sem gera skurðgoð eru einskis nýtir
og guðirnir, sem þeir elska, eru fánýti
og vitni þeirra sjá ekkert,
vita ekkert og verða sér til skammar.
10Hver gerir skurðgoð eða steypir líkneski
nema til þess að hafa gagn af því?
11Allir sem reiða sig á það verða sér til skammar.
Smiðirnir eru aðeins menn,
þeir ættu að safnast saman og taka sér stöðu, [
þeir mundu allir skelfast og verða sér til skammar.
12Járnsmiður vinnur verk sitt við glóðir, [
slær smíði sína til með hamri
og mótar hana með sterkum armi.
Þegar hann hungrar missir hann máttinn,
fái hann ekki vatn að drekka þreytist hann.
13Trésmiður mælir með þræði,
dregur upp útlínur með krít,
sker út viðinn með hnífi sínum,
markar fyrir með sirkli
og gerir mannsmynd,
fríðleiksmann sem á að búa í húsi.
14Hann fellir sedrustré, velur sér steineik eða aðra eik,
lætur trén vaxa innan um önnur skógartré.
Hann gróðursetur ask sem regnið veitir vöxt
15svo að hann nýtist mönnum til eldiviðar.
Hann tekur nokkuð af viðnum og ornar sér,
kveikir eld við hluta hans og bakar brauð,
úr nokkru gerir hann guð og fellur fram fyrir honum,
mótar hann sem líkneski og krýpur fyrir því.
16Helminginn af viðnum brennir hann í eldi,
á glóðinni steikir hann kjöt,
etur steik og verður saddur,
hlýjar sér og segir:
„Nú er mér vel heitt, ég nýt eldsins.“
17Úr því sem gengur af gerir hann sér guð,
skurðgoð sem hann krýpur fyrir, tilbiður og segir:
„Hjálpa mér því að þú ert guð minn.“
18Þeir skynja hvorki né skilja
því að augu þeirra eru lokuð
svo að þeir sjá ekki,
og hjörtu þeirra einnig
svo að þeir skilja ekki.
19Hann [ hugsar ekki neitt,
hefur hvorki skyn né skilning til að segja:
„Ég brenndi helming viðarins í eldi
og bakaði brauð við glæðurnar,
steikti á þeim kjöt og neytti
en úr því sem eftir var gerði ég mér viðurstyggð
og ég kraup fyrir trjádrumbi.“
20Þann mann, sem sækist eftir ösku,
hefur táldregið hjarta blekkt
og hann bjargar ekki lífi sínu
og segir: „Er það ekki tál
sem ég hef í hægri hendi?“
Drottinn skapar og endurleysir
21Minnstu þess, Jakob, og þú, Ísrael,
að þú ert þjónn minn.
Ég skapaði þig, þú ert þjónn minn,
Ísrael, þér gleymi ég ekki.
22 Ég feykti burt afbrotum þínum eins og skýi,
syndum þínum líkt og þoku.
Hverf aftur til mín því að ég hef endurleyst þig.
23 Fagnaðu, himinn, því að Drottinn hefur gert þetta,
gleðjist, undirdjúp jarðar.
Hefjið fagnaðaróp, þér fjöll,
skógurinn og öll tré í honum,
því að Drottinn hefur endurleyst Jakob
og birt dýrð sína í Ísrael.
24 Svo segir Drottinn, lausnari þinn,
sá sem myndaði þig í móðurlífi:
Ég er Drottinn sem skapaði allt,
ég einn þandi út himininn
og breiddi út jörðina hjálparlaust,
25 ég ónýti tákn spápresta
og geri spásagnamenn að fíflum
og vitringa afturreka
og visku þeirra að heimsku.
26 Ég læt orð þjóna minna rætast
og geri það sem sendimenn mínir boða.
27 Ég segi við Jerúsalem: „Þú verður byggð aftur,“
og við borgirnar í Júda: „Þér verðið endurreistar,“
ég reisi þær aftur úr rústum.
Ég segi við hafið: „Þorna þú upp,
ég þurrka upp ár þínar.“
28 Ég segi við Kýrus: „Þú ert hirðir minn,“
allt, sem mér þóknast, framkvæmir hann
með því að segja við Jerúsalem: „Þú verður endurreist
og grunnur musterisins lagður.“