Eyðimörkin blómgast
1Eyðimörkin og skrælnað landið gleðjist,
öræfin fagni og blómstri.
2Eins og dverglilja skal hún blómgast,
gleðjast, gleðjast og fagna.
Vegsemd Líbanons veitist henni,
skart Karmels og Sarons.
Menn munu sjá dýrð Drottins og vegsemd Guðs vors.
3Styrkið máttvana hendur,
styðjið magnþrota hné,
4segið við þá sem brestur kjark:
„Verið hughraustir, óttist ekki,
sjáið, hér er Guð yðar, hefndin kemur,
endurgjald frá Guði,
hann kemur sjálfur og bjargar yður.“
5Þá munu augu blindra ljúkast upp
og eyru daufra opnast.
6Þá stekkur hinn halti sem hjörtur
og tunga hins mállausa fagnar.
Já, vatnslindir spretta upp í eyðimörkinni
og lækir í auðninni.
7Glóandi sandurinn verður að tjörn
og þyrst jörðin að uppsprettum.
Þar sem sjakalar höfðust við áður
sprettur stör, reyr og sef.
8Þar verður breið braut
sem skal heita Brautin helga.
Enginn óhreinn má hana ganga
því að hún er ætluð lýð Guðs að fara um
og heimskingjar munu ekki villast þar.
9Þar verður ekkert ljón,
ekkert glefsandi rándýr fer þar um,
þar verður þau ekki að finna.
Þar munu aðeins endurleystir ganga.
10Hinir endurkeyptu Drottins hverfa aftur
og koma fagnandi til Síonar,
eilíf gleði fer fyrir þeim,
fögnuður og gleði fylgja þeim
en sorg og mæða flýja.