Gegn Egyptalandi
1 Boðskapur um Egyptaland:
Sjá, Drottinn ríður á hraðfara skýi
og kemur til Egyptalands.
Goð Egyptalands skjálfa frammi fyrir honum
og hjörtu Egypta bráðna í brjóstum þeirra.
2„Ég ætla að egna Egypta gegn Egypta
og þeir munu berjast hver við annan,
bróðir við bróður, vinur við vin,
borg við borg og ríki við ríki.
3Egyptar munu ekki vita sitt rjúkandi ráð
því að ég spilli áformum þeirra
svo að þeir leita ráða hjá goðum og vofum,
miðlum og spásagnamönnum.
4Ég mun selja Egypta hörðum húsbónda í hendur,
voldugur konungur mun ríkja yfir þeim,“
segir Guð, Drottinn allsherjar.
5Þá mun vatnið í Níl þorna,
fljótið mikla verða vatnslaust og þurrt,
6áveituskurðirnir fúlna,
kvíslarnar í óshólmunum þverra og þorna,
reyr og sef rotna.
7Gróðurinn við mynni fljótsins
og sáðland á Nílarbökkum skrælnar,
feykist burt og hverfur.
8Þá munu fiskimennirnir kvarta
og allir sem renna öngli í fljótið kveina
og þeir sem leggja net í vatnið örvænta.
9Þeir sem vinna hör verða ráðþrota,
þeir sem kemba og vefa blikna.
10Línvefararnir verða miður sín,
allir launamenn örvilnast.
11Höfðingjarnir í Sóan eru flón,
spökustu ráðgjafar faraós gefa heimskuleg ráð.
Hvernig getið þér sagt við faraó:
„Ég er sonur vitringa,
kominn af fornkonungum“?
12Hvar eru nú spekingar þínir?
Þeir ættu að segja þér
og skýra þér frá
hvað Drottinn allsherjar hefur ákveðið gegn Egyptalandi.
13Höfðingjarnir í Sóan eru flón,
höfðingjarnir í Nóf blekktir,
héraðsstjórarnir leiða Egyptaland afvega.
14Drottinn hefur fyllt þá anda sem ruglar þá
svo að þeir gera Egypta reikula
í öllu sem þeir fást við,
eins og drukkinn mann sem skjögrar í spýju sinni.
15Hvorki haus né hali,
pálmakvistur né hálmstrá
vinna Egyptalandi neitt.
Sinnaskipti Egypta
16 Á þeim degi verða Egyptar sem konur og skjálfa af ótta frammi fyrir hendi Drottins allsherjar þegar hann reiðir hana gegn þeim. 17 Júdaland mun skjóta Egyptum skelk í bringu. Í hvert sinn, sem það er nefnt við þá, munu þeir skelfast vegna fyrirætlana Drottins allsherjar gegn þeim.
18 Á þeim degi verður kanversk tunga töluð í fimm borgum í Egyptalandi og þær munu sverja Drottni allsherjar hollustu. Ein þeirra mun nefnd Sólarborg. 19 Á þeim degi verður altari handa Drottni í Egyptalandi miðju og minningarsteinn Drottins við landamæri þess. 20 Hann skal vera tákn og vitni Drottins allsherjar í Egyptalandi: Þegar þeir hrópa til Drottins undan kúgurum sínum mun hann senda þeim bjargvætt sem mun berjast og bjarga þeim. 21 Drottinn mun birtast Egyptum og þeir munu viðurkenna hann á þeim degi. Þeir munu þjóna honum með sláturfórnum og kornfórnum og vinna Drottni heit og halda þau. 22 Drottinn mun ljósta Egypta og síðan lækna. Þeir munu því snúa sér til Drottins og hann mun bænheyra og lækna þá.
23 Á þeim degi liggur breið braut frá Egyptalandi til Assýríu. Assýringar munu koma til Egyptalands og Egyptar til Assýríu og Egyptar og Assýringar munu þjóna Drottni saman.
24 Á þeim degi verða Ísraelsmenn þriðja þjóðin sem ásamt Egyptum og Assýringum verða blessun á jörðinni miðri.
25 Drottinn allsherjar mun blessa þær og segja:
„Blessuð sé þjóð mín, Egyptar,
og verk handa minna, Assýringar,
og arfleifð mín, Ísrael.“