Síðasta ræða Jeremía
1 Orðið sem kom til Jeremía um alla Júdamenn sem bjuggu í Egyptalandi og höfðu sest að í Migdól, Takpanes, Nóf og Patroshéraði: 2 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Þér hafið sjálfir séð alla þá ógæfu sem ég sendi yfir Jerúsalem og allar aðrar borgir í Júda. Þær eru nú í rústum og enginn býr þar. 3 Það er afleiðing illvirkjanna sem þeir unnu. Þeir vöktu reiði mína með því að fara til framandi guða sem hvorki þeir sjálfir, þér né feður yðar þekktu, kveikja fyrir þeim fórnareld og þjóna þeim. 4 Ég sendi þjóna mína, spámennina, hvað eftir annað til yðar til að boða yður: Fremjið ekki þessa svívirðu sem ég hata. 5 En þeir gáfu því hvorki gaum né lögðu við hlustir. Þeir sneru því ekki frá illvirkjum sínum og hættu ekki að kveikja fórnareld fyrir framandi guðum. 6 Þá var heift minni og reiði úthellt, hún brann í borgum Júda og á strætum Jerúsalem svo að þær urðu að rúst, að auðn, og það eru þær enn.
7 En nú segir Drottinn, Guð hersveitanna, Guð Ísraels: Hvers vegna viljið þér baka sjálfum yður mikla ógæfu og uppræta sjálfa yður úr Júda, bæði karla og konur, börn og brjóstmylkinga svo að enginn yðar verði eftir? 8 Þér vekið heift mína með handaverkum yðar og kveikið fórnareld fyrir framandi guðum í Egyptalandi þar sem þér hafið leitað hælis. Þér tortímið sjálfum yður með því og uppskerið formælingar og háð allra þjóða jarðar. 9 Hafið þér gleymt illvirkjunum sem feður yðar, Júdakonungar og konur þeirra, unnu og illvirkjunum sem þér sjálfir og konur yðar unnu í Júda og á strætum Jerúsalem? 10 Hingað til hafa þeir hvorki iðrast né óttast og hvorki fylgt lögum mínum né fyrirmælum sem ég lagði fyrir yður og feður yðar.
11 Þess vegna segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Ég sný augliti mínu gegn yður til að valda bölinu, til að eyða öllum Júda. 12 Ég svipti þeim burt sem eftir eru af Júdamönnum og ákváðu að fara til Egyptalands og leita þar hælis. Þeir munu farast í Egyptalandi, háir og lágir munu falla fyrir sverði eða farast úr hungri. Þeir munu deyja fyrir sverði eða úr hungri og verða efni bölbæna og ímynd skelfingar, formælinga og smánar. 13 Ég mun refsa þeim sem sest hafa að í Egyptalandi eins og ég refsaði Jerúsalembúum, með sverði, hungri og drepsótt. 14 Enginn þeirra Júdamanna, sem eftir eru og hafa leitað hælis í Egyptalandi, mun komast undan og bjargast né snúa aftur til Júda þó að þá langi til að fara aftur þangað og setjast þar að. Það verða aðeins örfáir sem komast undan og snúa aftur heim.
15 Allir karlmenn, sem vissu að konur þeirra kveiktu fórnareld fyrir framandi guðum, og allar konurnar, sem stóðu þarna í stórum hóp, og allir sem bjuggu í Egyptalandi og Patros svöruðu Jeremía og sögðu: 16 „Vér hlustum ekki á þennan boðskap sem þú hefur flutt oss í nafni Drottins. 17 En vér munum fylgja í einu og öllu því sem vér höfum heitið: vér munum kveikja fórnareld fyrir drottningu himins og færa henni dreypifórnir. Það gerðum bæði vér og forfeður vorir, konungar vorir og höfðingjar í borgum Júda og á strætum Jerúsalem. Þá höfðum vér nóg til matar, oss farnaðist vel og vér þurftum ekki að þola neina ógæfu. 18 En síðan vér hættum að kveikja fórnareld fyrir drottningu himins og færa henni dreypifórnir hefur oss skort allt og vér höfum farist fyrir sverði og úr hungri. 19 Þegar vér nú kveikjum fórnareld fyrir drottningu himins og færum henni dreypifórnir getur það þá verið án vilja og vitundar eiginmanna vorra að vér gerum henni fórnarkökur með mynd hennar og færum henni dreypifórnir?“
20 Þá ávarpaði Jeremía allt fólkið, karla og konur og alla aðra sem höfðu svarað honum, og sagði: 21 „Var það ekki fórnareldurinn sem þér kveiktuð í borgum í Júda og á strætunum í Jerúsalem, bæði þér sjálfir og forfeður yðar, konungar yðar og höfðingjar ásamt bændum í byggðum landsins, var það ekki þessi fórnareldur sem Drottinn minntist og hafði í huga? 22 Drottinn gat ekki lengur þolað illvirki yðar og viðurstyggilegt athæfi. Þess vegna var land yðar lagt í rúst og það gereytt, lögð á það bölvun og það varð óbyggð eins og það er enn. 23 Þar sem þér kveiktuð fórnareld og syndguðuð gegn Drottni og hlýdduð ekki boðum Drottins og fylgduð hvorki eftir lögum hans, ákvæðum né fyrirmælum kom þetta böl sem enn varir yfir yður.“
24 Síðan sagði Jeremía við allt fólkið og allar konurnar: „Hlýðið á orð Drottins, allir Júdamenn, sem eruð í Egyptalandi: 25 Svo segir Drottinn hersveitanna, Guð Ísraels: Þér og konur yðar hafið sýnt það í verki sem þér hafið heitið í orði. Þér segið: Vér viljum halda heitið sem vér unnum og kveikja fórnareld fyrir drottningu himins og færa henni dreypifórnir. Haldið þá heit yðar og efnið það sem þér hafið heitið. 26 Hlýðið á orð Drottins, allir Júdamenn sem búið í Egyptalandi: Ég sver við mitt mikla nafn, segir Drottinn: Enginn Júdamanna skal hér eftir nefna nafn mitt neins staðar í Egyptalandi og segja: Svo sannarlega sem Drottinn, Guð lifir. 27 Ég vaki yfir þeim til óheilla en ekki til heilla. Allir Júdamenn í Egyptalandi munu falla fyrir sverði eða farast úr hungri og þeim verður gereytt. 28 Örfáir sem komast undan sverðinu munu halda frá Egyptalandi heim til Júda. Allir sem eftir eru af Júdamönnum og eru komnir til Egyptalands að leita þar hælis munu komast að raun um hvort það er mitt orð eða þeirra sem rætist. 29 Og hafið þetta til marks, segir Drottinn, um að ég mun vitja yðar á þessum stað svo að þér komist að raun um að ógæfan, sem ég hef ógnað yður með, mun áreiðanlega koma yfir yður. 30 Svo segir Drottinn: Ég sel Hofra faraó, konung Egyptalands, fjandmönnum sínum í hendur og í hendur þeim sem sækjast eftir lífi hans, á sama hátt og ég seldi Sedekía Júdakonung í hendur Nebúkadresari, konungi í Babýlon, sem var fjandmaður hans og sóttist eftir lífi hans.“