1Ef þú snýrð aftur, Ísrael, segir Drottinn, 
skaltu snúa aftur til mín. 
Ef þú losar þig við viðurstyggilega guði þína 
og ferð ekki lengur villur vega 
þarftu ekki að flýja mig, 
   2ef þú sverð í einlægni, rétt og réttvíslega:
„Svo sannarlega sem Drottinn lifir,“ 
munu þjóðirnar njóta blessunar hans 
og hrósa sér af honum. 
   3Því að svo segir Drottinn 
við Júdamenn og Jerúsalembúa: 
Brjótið nýtt land, 
sáið ekki meðal þyrna. 
   4Umskerið yður fyrir Drottni, 
fjarlægið yfirhúð hjartna yðar, 
þér Júdamenn og Jerúsalembúar. 
Annars brýst reiði mín út sem logandi eldur, 
bál sem enginn getur slökkt, 
sakir illra verka yðar.  
Innrás úr norðri
 5Boðið þetta í Júda, kunngjörið það í Jerúsalem, 
þeytið hafurshorn í landinu, 
hrópið fullum rómi og segið: 
Safnist saman. 
Vér hörfum inn í víggirtar borgirnar. 
   6Reisið hermerkið: Til Síonar. 
Flýið, tefjið ekki. 
Því að ég sendi mikið böl úr norðri, tortímingu.
   7Ljónið er risið upp úr kjarrinu, 
þjóðamorðinginn er lagður af stað. 
Hann er farinn úr landi sínu 
til að gera land þitt að auðn. 
Borgir þínar verða lagðar í rúst, mannlausar. 
   8Gyrðist því hærusekk, grátið og kveinið 
því að glóandi reiði Drottins er ekki horfin frá oss. 
   9Á þeim degi, segir Drottinn, 
mun hugrekki konungsins 
og kjarkur höfðingjanna bresta,
prestarnir verða agndofa af skelfingu, 
spámennirnir stjarfir af ótta.
   10Þeir segja: Æ, Drottinn Guð. 
Illa blekktir þú þetta fólk og Jerúsalem 
er þú sagðir: Yður mun farnast vel,
en vér erum með sverð reitt að hálsi.
   11Á þeim tíma verður sagt við þessa þjóð og við Jerúsalem: 
Glóandi vindur kemur af nöktum hæðum í eyðimörkinni 
yfir dóttur þjóðar minnar, 
ekki vindur til að sáldra korni eða hreinsa,
   12heldur miklu öflugri vindur 
sem kemur samkvæmt skipun minni. 
Nú kveð ég sjálfur upp dóm yfir þeim.
   13Sjá, óvinurinn kemur sem óveðursský, 
stríðsvagnar hans líkjast hvirfilvindi, 
hestarnir eru frárri en ernir. 
Vei oss. Það er úti um oss.
   14Hreinsaðu illskuna af hjarta þér, Jerúsalem, 
svo að þú bjargist.
Hversu lengi eiga gerspilltar hugsanir 
að búa í brjósti þér?
   15Rödd hljómar frá Dan, 
ófarir boðaðar frá Efraímsfjöllum. 
   16Kunngjörið þjóðunum, 
boðið Jerúsalem: 
Úr fjarlægu landi koma fjandmenn,
þeir hrópa heróp gegn borgunum í Júda. 
   17Þeir umkringja borgina eins og þeir sem vaka yfir akri 
því að hún hefur boðið mér birginn, segir Drottinn. 
   18Hegðun þín og háttalag hefur leitt þetta yfir þig. 
Það er þín eigin illska sem gerir þér lífið biturt 
og gengur þér til hjarta.
   19Ég kvelst, ég kvelst hið innra, 
engist sundur og saman. 
Hjartað hamast, berst í brjósti mér, 
ég get ekki þagað 
því að ég heyri lúðurhljóm og heróp 
   20Hrópað er: Hrun á hrun ofan, 
því að herjað er á allt landið. 
Tjöld mín eru eydd á svipstundu, 
tjalddúkarnir í einu vetfangi.
   21Hversu lengi þarf ég að horfa á gunnfána, 
hlusta á lúðurhljóm? 
   22 Þjóð mín er heimsk 
og þekkir mig ekki. 
Þeir eru fávís börn 
sem ekkert skilja. 
Þeir hafa vit til að gera illt 
en kunna ekki gott að gera.  
Sýn um endalok alls
 23 Ég leit yfir jörðina 
og hún var auð og tóm. 
Ég leit til himins og þar var ekkert ljós. 
   24 Ég leit til fjallanna 
og þau skulfu 
og allir hólar nötruðu. 
   25 Ég litaðist um 
en hvergi var mann að sjá 
og allir fuglar himinsins flognir.
   26 Ég litaðist um 
og aldingarðarnir voru orðnir að eyðimörk 
og allar borgirnar höfðu verið jafnaðar við jörðu 
fyrir augliti Drottins, bálandi reiði hans.
   27 Svo segir Drottinn: 
Allt landið verður lagt í auðn, 
þó mun ég ekki gereyða það.
   28 Jörðin syrgir 
og himinninn yfir henni myrkvast 
því að ég hef sagt þetta og mig iðrar þess ekki, 
ég hef ákveðið það og hætti ekki við. 
   29 Við gný riddara og bogmanna
flýja allir íbúar landsins, 
menn skríða inn í kjarrið 
og klifra upp kletta. 
Sérhver borg er yfirgefin, 
þar býr enginn maður. 
   30 En þú sem ert ofurseld eyðingunni,
hvað gerir þú? 
Hvernig getur þú klæðst skarlati, 
skreytt þig með gullskarti 
og farðað augu þín? 
Þú fegrar þig til einskis. 
Þeir sem girntust þig snúa við þér baki, 
þeir sitja um líf þitt. 
   31 Ég heyri vein eins og frá jóðsjúkri konu, 
lík neyðarópum frumbyrju, 
það eru óp dótturinnar Síonar 
sem stendur á öndinni. 
Hún teygir fram hendurnar: 
Vei mér. Það er úti um mig. 
Ég fell fyrir hendi morðingja.  
