Sáttmálinn rofinn

1 Orðið sem kom til Jeremía frá Drottni: 2 Heyr ákvæði þessa sáttmála og flyttu þau Júdamönnum og Jerúsalembúum. 3 Segðu við þá: Svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Bölvaður er sá maður sem ekki hlustar á ákvæði þessa sáttmála 4 sem ég setti feðrum yðar daginn sem ég leiddi þá út úr Egyptalandi, út úr járnbræðsluofninum, og sagði: Hlýðið á boð mín sem ég setti yður og framfylgið þeim nákvæmlega. Þá verðið þér mín þjóð og ég yðar Guð. 5 Þannig mun ég halda eiðinn sem ég sór feðrum yðar, að gefa þeim land sem flýtur í mjólk og hunangi, landið sem þér eigið enn í dag.
Ég svaraði og sagði: Svo skal verða, Drottinn.
6 Því næst sagði Drottinn við mig: Boðaðu öll þessi ákvæði í borgum í Júda og á götum Jerúsalem: Hlustið á ákvæði þessa sáttmála og framfylgið þeim. 7 Frá þeim degi er ég leiddi feður yðar frá Egyptalandi og til þessa dags hef ég hvað eftir annað brýnt fyrir yður: Hlustið á boð mín. 8 En þeir hlýddu hvorki né hlustuðu heldur fylgdi hver og einn þverúð síns illa hjarta. Þess vegna hlaut ég að láta rætast á þeim öll ákvæði þessa sáttmála, sem ég hafði boðið þeim að framfylgja en þeir gerðu ekki.
9 Drottinn sagði við mig: Júdamenn og Jerúsalembúar hafa gert samsæri. 10 Þeir hafa snúið aftur til synda feðra sinna sem ekki vildu hlusta á boð mín. Þeir elta framandi guði og þjóna þeim. Ættbálkar Ísraels og Júda hafa rofið sáttmála minn, sáttmálann sem ég gerði við feður þeirra.
11 Þess vegna segir Drottinn: Ég mun senda ógæfu yfir þá, sem þeir komast ekki undan. Þegar þeir hrópa til mín mun ég ekki hlusta á þá. 12 Íbúarnir í borgum Júda og Jerúsalem munu fara og hrópa til guðanna sem þeir færa brennifórnir en þeir munu sannarlega ekki hjálpa þeim þegar ógæfan kemur yfir þá. 13 Því að guðir þínir, Júda, eru jafnmargir og borgir þínar og þér hafið reist svívirðingunni jafnmörg ölturu og göturnar eru í Jerúsalem þar sem þér kveikið fórnareld handa Baal.
14 Þú skalt ekki biðja fyrir þessu fólki og ekki hefja upp harmakvein eða fyrirbæn, því að ég mun ekki hlusta þegar það hrópar til mín vegna ógæfunnar.

Röng fórnarþjónusta

15Hvað vill ástvinur minn í hús mitt?
Hann hefur svikið mig.
Geta loforð og heilagt fórnarkjöt
bægt frá þér bölinu
svo að þú getir fagnað?
16Drottinn kallaði þig ólífutré,
laufgað og fagurt.
Nú kviknar eldur í laufi þess með miklum gný
og eyðir greinum þess.

17 Drottinn hersveitanna, sem gróðursetti þig, ógnaði þér með ógæfu vegna þeirrar illsku sem kynkvíslir Ísraels og Júda sýndu þegar þær vöktu reiði mína með því að kveikja fórnareld fyrir Baal.

Jeremía í lífshættu í Anatót

18 Drottinn skýrði mér frá því svo að ég vissi það. Þú gerðir mér ljóst hvað þeir höfðu fyrir stafni. 19 Sjálfur var ég eins og grunlaust lamb sem er leitt til slátrunar. Ég skildi ekki að þeir brugguðu ráð gegn mér: „Vér skulum eyða trénu í blóma þess. Vér skulum eyða honum úr landi lifenda svo að nafns hans verði ekki minnst framar.“
20Drottinn hersveitanna, réttláti dómari,
þú sem rannsakar hjarta og nýru,
sýndu mér hefnd þína á þeim.
Ég fel þér málefni mitt.

21 Því boðar Drottinn þetta gegn Anatótbúum sem sækjast eftir lífi mínu og segja: „Þú mátt ekki starfa sem spámaður í nafni Drottins, þá muntu deyja fyrir hendi vorri.“ 22 Þess vegna segir Drottinn hersveitanna: Nú dreg ég yður til ábyrgðar. Ungir menn munu falla fyrir sverði, synir þeirra og dætur munu deyja úr hungri. 23 Enginn þeirra verður eftir því að ég sendi ógæfu yfir Anatótbúa árið sem þeir verða dregnir til ábyrgðar.