Drottinn agar
1 Fyrst við erum umkringd slíkum fjölda votta léttum þá af okkur allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóð það skeið sem við eigum fram undan. 2 Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs. 3 Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast.
4 Enn sem komið er hefur barátta ykkar við syndina ekki kostað ykkur lífið. 5 Hafið þið gleymt hvernig Guð hvetur ykkur eins og börn sín:[
Barnið mitt, [ lítilsvirð ekki aga Drottins
og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig.
6Því að Drottinn agar þann sem hann elskar
og hirtir harðlega hvert það barn [ er hann tekur að sér.
7 Þolið aga. Guð fer með ykkur eins og börn sín.[ Öll börn búa við aga. 8 Ef Guð agar ykkur ekki þá eruð þið ekki börn hans heldur þrælborin. 9 Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? 10 Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. 11 Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.
12 Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. 13 Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.
Hvatningar og fyrirmæli
14 Stundið frið við alla menn og heilagt líferni því að án þess fær enginn litið Drottin. 15 Hafið gát á að enginn missi af náð Guðs, að engin beiskjurót renni upp sem truflun valdi og margir saurgist af. 16 Gætið þess að eigi sé neinn hórkarl eða vanheilagur eins og Esaú sem fyrir einn málsverð lét af hendi frumburðarrétt sinn. 17 Þið vitið að það fór líka svo fyrir honum að hann var rækur ger þegar hann síðar vildi öðlast blessunina þó að hann grátbændi um hana. Hann fékk ekki færi á að iðrast.
18 Þið eruð ekki komin til fjalls sem á verður þreifað, ekki til brennandi elds og sorta, myrkurs, ofviðris 19 og básúnuhljóms og raustar sem talaði svo að þeir sem hana heyrðu báðust undan því að meira væri til sín talað. 20 Því að þeir þoldu ekki það sem fyrir var skipað: „Þó að það sé ekki nema skepna, sem snertir fjallið, skal hún grýtt verða.“ 21 Svo ógurlegt var það sem fyrir augu bar að Móse sagði: „Ég er mjög hræddur og skelfdur.“
22 Nei, þið eruð komin til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla, til hátíðarsamkomu og 23 safnaðar frumgetinna, sem á himnum eru skráðir, til Guðs, sem dæmir alla, og til anda réttlátra manna, sem fullkomnir eru orðnir, 24 og til Jesú, meðalgangara nýs sáttmála, og til blóðsins sem hreinsar og talar kröftuglegar en blóð Abels.
25 Gætið þess að þið hafnið ekki þeim sem talar. Þeir sem höfnuðu þeim er gaf guðlega bendingu á jörðu komust ekki undan. Miklu síður munum við komast undan ef við gerumst fráhverf honum er gefur guðlega bendingu frá himnum. 26 Raust hans lét jörðina bifast fyrrum. En nú hefur hann lofað: „Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina heldur og himininn.“ 27 Orðin: „Enn einu sinni“ sýna að það sem bifast er skapað og hverfur til þess að það standi stöðugt sem eigi bifast.
28 Þar sem við því fáum ríki, sem ekki getur bifast, skulum við þakka það og þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta. 29 Því að okkar Guð er eyðandi eldur.