Bæn um miskunn
1Minnstu þess, Drottinn, hvað hefur á oss dunið,
lít þú á og sjá smán vora.
2Arfleifð vor er komin í hendur framandi manna,
húsin í hendur útlendinga.
3Vér erum orðin munaðarlaus, föðurlaus,
mæður vorar orðnar sem ekkjur.
4Vatnið sem vér drekkum verðum vér að kaupa,
viðinn fáum vér aðeins gegn borgun.
5Ofsækjendur eru á hælum vorum,
örþreytt fáum vér enga hvíld.
6Vér gengum í bandalag við Egyptaland
og Assýríu [ til þess að fá matbjörg.
7Feður vorir syndguðu, þeir eru eigi framar til
en vér berum sekt þeirra.
8Þrælar drottna yfir oss,
enginn hrífur oss úr höndum þeirra.
9Vér hættum lífinu við að afla fæðu
sökum sverðsins í eyðimörkinni.
10Hörund vort er heitt eins og ofn
af hungurbruna.
11Konum er nauðgað í Síon,
meyjum í borgum Júda,
12höfðingjar gripnir og hengdir,
öldungum engin virðing sýnd.
13Æskumennirnir verða að þræla við kvörnina
og sveinarnir hrasa undir viðarbyrðunum.
14Öldungarnir eru horfnir úr borgarhliðunum,
æskumennirnir frá strengleikum.
15Fögnuður hjartna vorra er horfinn,
gleðidans vor snúinn í sorg.
16Kórónan er fallin af höfði voru,
vei oss, því að vér höfum syndgað.
17Sökum þessa er hjarta vort sjúkt
og vegna þessa eru augu vor döpur,
18vegna Síonarfjalls sem er í eyði
og refir hlaupa nú um.
19Þú, Drottinn, ríkir að eilífu,
hásæti þitt stendur frá kyni til kyns.
20Hví hefur þú gleymt oss með öllu,
yfirgefið oss svo lengi?
21Snú þú oss til þín, Drottinn, þá snúum vér aftur,
endurnýja daga vora eins og til forna.
22 Eða hefur þú hafnað oss fyrir fullt og allt
og ert oss reiður úr öllu hófi?