Vegsemd nýs musteris
1 Á tuttugasta og fyrsta degi hins sjöunda mánaðar á öðru stjórnarári Daríusar konungs kom orð Drottins af munni Haggaí spámanns: 2 Segðu við Serúbabel Sealtíelsson, landstjóra í Júda, Jósúa Jósadaksson, æðsta prest, og þá sem eftir eru af þjóðinni:
3 Hver er nú eftir meðal ykkar sem hefur séð þetta hús í fyrri vegsemd sinni? Hvernig virðist ykkur það nú? Er það ekki einskis vert að sjá? 4 En hertu upp hugann, Serúbabel, segir Drottinn, hertu upp hugann, Jósúa Jósadaksson, æðsti prestur. Hertu upp hugann, landslýður, segir Drottinn. Vinnið, því að ég er með ykkur, segir Drottinn allsherjar, 5 samkvæmt sáttmálanum sem ég gerði við ykkur þegar þið fóruð frá Egyptalandi. Andi minn er enn meðal ykkar. Óttist ekki. 6 Því að svo mælir Drottinn allsherjar: Eftir skamma hríð mun ég hræra bæði himin og jörð, hafið og þurrlendið. 7 Ég mun hræra allar þjóðir svo að þær munu flytja fjársjóði sína hingað, ég mun fylla hús þetta dýrð, segir Drottinn allsherjar. 8 Mitt er silfrið, mitt er gullið, segir Drottinn allsherjar. 9 Vegsemd þessa húss verður meiri en hins fyrra, segir Drottinn allsherjar. Á þessum stað mun ég veita heill, segir Drottinn allsherjar.
10 Á tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar á öðru stjórnarári Daríusar konungs kom orð Drottins til Haggaí spámanns:
11 Svo mælir Drottinn allsherjar: Leitaðu úrskurðar prestanna um þetta: 12 Beri maður fórnarkjöt í klæðisfaldi sínum og snerti faldurinn brauð, soðinn mat, vín, olíu eða eitthvað annað matarkyns, verður það þá heilagt af því?
Prestarnir svöruðu neitandi.
13 Enn spurði Haggaí: Snerti maður lík og verði óhreinn af þeim sökum og snerti síðan eitthvað af þessu, verður það þá óhreint? Því svöruðu prestarnir játandi.
14 Þá sagði Haggaí: Eins virðist mér um þennan lýð og þessa þjóð, segir Drottinn, og svo er um öll verk handa þeirra. Allt sem þeir færa mér að fórn er óhreint. 15 Hyggið nú að hvernig ykkur farnast nú og eftirleiðis. Áður en steinn var lagður á stein í musteri Drottins, hvernig farnaðist ykkur þá? 16 Kæmi maður að kornbing sem nema skyldi tuttugu efum, þá reyndust þær tíu. Kæmi maður að vínþró og hygðist ausa úr henni fimmtíu böt reyndust þau aðeins tuttugu. 17 Ég hef lostið ykkur og öll verk handa ykkar með korndrjóla, drepi og hagli en þið sneruð ykkur ekki til mín, segir Drottinn. 18 Hyggið að hvernig ykkur farnast nú og eftirleiðis, frá tuttugasta og fjórða degi hins níunda mánaðar, frá þeim degi er grundvöllur musterisins var lagður. Hyggið að því 19 meðan enn er sáðkorn[ í hlöðunni og vínviðurinn, fíkjutréð, granateplatréð og ólífutréð hafa enn ekki borið ávöxt. Frá og með þessum degi mun ég veita blessun.
Serúbabel, hinn útvaldi Guðs
20 Enn kom orð Drottins til Haggaí spámanns á tuttugasta og fjórða degi mánaðarins: 21 Segðu við Serúbabel, landstjóra í Júda: Ég mun hræra himin og jörð.
22 Ég steypi hásætum konungdæmanna
og kollvarpa stórveldum þjóðanna.
Ég velti stríðsvögnunum og eklum þeirra um koll,
hestar skulu hnjóta og reiðmenn falla
hver fyrir annars sverði.
23 Á þeim degi, segir Drottinn allsherjar, tek ég þig, þjónn minn, Serúbabel Sealtíelsson, segir Drottinn, og geri þig sem innsiglishring minn því að þig hef ég valið, segir Drottinn allsherjar.