Andsvar Guðs: Hinn réttláti mun lifa fyrir trú
 1En ég held varðstöðu minni 
og dvelst í varðturninum, 
bíð átekta uns ég sé hvað hann boðar mér 
og hvernig hann svarar umkvörtunum mínum. 
   2Drottinn svaraði mér og sagði: 
Skrá þú þessa vitrun. 
Skrá hana á töflur svo skýrt 
að hana megi lesa á hlaupum 
   3því að spáð er fyrir um ákveðinn tíma,
traustur vitnisburður gefinn um ókomna tíð.
Þótt töf verði á skaltu bíða engu að síður 
því að þetta rætist vissulega og án tafar. 
   4Hugur hans hefur reigt sig um of 
og horfið af réttri braut, 
en hinn réttláti mun lifa fyrir trú sína. [ 
   5Hins vegar verður hinum guðlausa hrokagikk refsað,
sem hefur þanið svelg sinn sem heljardjúpin,
er óseðjandi eins og sjálfur dauðinn, 
hefur sópað að sér öllum lýðum 
og safnað undir sig öllum þjóðum. 
   6Sannarlega munu þær allar hafa hann 
að háði og spotti í hálfkveðnum vísum. 
Þær munu segja: 
Vei þeim sem rakar að sér eigum annarra. 
Hve miklu lengur verður svo? 
Æ þyngri verður skuldabyrði hans. 
   7Óvænt munu lánardrottnar þínir vitja þín. 
Og þeir sem innheimta hrella þig 
og svipta þig öllum eigum. 
   8Sjálfur hefurðu rænt margar þjóðir. 
Þær sem eftir verða taka eigur þínar herfangi 
fyrir manndrápin og ofbeldið sem landið sætti, 
borgin og allir íbúar hennar. 
   9Vei þeim sem aflar húsi sínu illfengins gróða
svo að hann geti hreykt sér í hreiðri sínu 
og gengið hinu illa úr greipum. 
   10Smán hefurðu bakað húsi þínu 
með eyðingu margra þjóða,
og fyrirgert lífi þínu. 
   11Steinninn mun þá hrópa úr múrveggnum 
og tréð í burðarásunum taka undir. 
   12Vei þeim sem reisir borg á manndrápum 
og stofnar byggð með rangindum. 
   13Er það ekki Drottinn allsherjar 
sem veldur því að strit lýðsins fuðrar upp í eldi 
og þjóðirnar erfiða til einskis? 
   14En heimsbyggðin mun mettast af þekkingu á dýrð Drottins 
eins og vatnið fyllir höfin.
   15Vei þér sem gerir aðra ofurölvi 
og blandar heift þinni í drykkinn 
til þess að sjá nekt þeirra. 
   16Smánin mun metta þig, ekki sæmdin. 
Sjálfur skaltu drekka og verða reikull á fótum. 
Bikarinn í hægri hendi Drottins kemur einnig til þín 
og spýjan yfir vegsemd þína. 
   17Ódæðin gegn Líbanonsfjalli 
munu koma yfir þig 
og dráp búsmalans 
reynast þér dýrkeypt 
vegna mannvíganna og ofbeldisins sem landið sætti, 
borgin og allir íbúar hennar. 
   18Hvað hefur skurðgoð gagnað? 
Það er maður sem hefur skorið það út. 
Hvaða gagn er að steyptu líkneski, lygafræðara? 
Hvernig getur smiðurinn treyst á mállaust goðið sem hann hefur mótað?
   19Vei þér sem segir „vaknaðu“ við tré 
eða „rístu upp“ við lífvana stein. 
Veitir hann fræðslu? 
Vissulega er hann prýddur gulli og silfri
en andinn er enginn. 
   20En Drottinn er í sínu heilaga musteri. 
Öll jörðin veri hljóð frammi fyrir honum.  
