Júdas Makkabeus fellur
1 Þegar Demetríus frétti að Níkanor væri fallinn í stríðinu ásamt liði sínu sendi hann Bakkídes og Alkímus öðru sinni til Júdeu og með þeim hægri fylkingararm hersins. 2 Héldu þeir veginn til Gilgal, settust um Massalót í Arbela, unnu borgina og tóku fjölda manns af lífi. 3 Í fyrsta mánuði ársins eitt hundrað fimmtíu og tvö slógu þeir síðan upp herbúðum við Jerúsalem. 4 Þaðan tóku þeir sig upp og héldu til Beret með tuttugu þúsund fótgönguliða og tvö þúsund riddara. 5 Júdas hafði sett upp herbúðir í Elasa og hafði þrjú þúsund manna einvalaliði á að skipa. 6 En er menn hans sáu hve óvinaliðið var geysifjölmennt urðu þeir óttaslegnir og margir þeirra komu sér burt úr herbúðunum svo að eftir urðu aðeins átta hundruð manns.
7 Þegar Júdas varð þess var að her hans var brott hlaupinn og ekki hjá bardaga komist missti hann móðinn því að enginn tími var til að safna liði. 8 Vonsvikinn sagði hann við þá sem eftir voru: „Komum og förum gegn óvinum okkar. Hver veit nema við getum staðist þá í orrustu!“ 9 Þeir reyndu að fá hann ofan af þessu og sögðu: „Það er með öllu ófært. Reynum heldur að bjarga lífinu. Síðar skulum við og bræður okkar snúa aftur og berjast við óvinina. Við erum allt of fáir.“ 10 En Júdas svaraði: „Aldrei skal það verða að ég flýi undan þeim. Ef stund okkar er komin þá skulum við deyja hughraustir fyrir bræður okkar og ekki láta eftir flekk á mannorði okkar.“
11 Óvinaherinn kom nú út úr herbúðunum og tók sér stöðu gegnt liði Júdasar. Riddurum óvinanna var skipt í tvær fylkingar og undan liðinu fóru menn með steinslöngvur og bogmenn. Í broddi fylkingar voru allir hraustustu hermennirnir. 12 Bakkídes hélt sig í hægri fylkingararminum.
Með lúðraþyt sóttu fylkingar óvinanna fram úr tveimur áttum. Menn Júdasar þeyttu einnig lúðra sína. 13 Jörðin skalf af hávaða þegar herjunum laust saman og stóð orrustan frá morgni til kvölds. 14 Júdas tók eftir því að Bakkídes og kjarni hers hans var í hægra fylkingararmi. Söfnuðust þá allir til hans sem hugaðir voru 15 og sigruðu Júdas og menn hans hægri fylkinguna og ráku flótta þeirra er hana skipuðu allt að Asotusfjalli. 16 Þegar þeir sem voru í vinstri fylkingararmi sáu að hægri armurinn laut í lægra haldi sneru þeir við og héldu á hæla Júdasi og mönnum hans og réðust að þeim aftan frá. 17 Harðnaði þá bardaginn og féllu margir sárir úr báðum liðum. 18 Einnig féll Júdas og flýðu þá hinir.
19 Jónatan og Símon tóku Júdas bróður sinn og jörðuðu hann í gröf feðra hans í Módein. 20 Þeir grétu hann og allur Ísrael harmaði hann mjög, kveinaði og syrgði dögum saman og sagði:
21 Hvernig má hetjan vera fallin,
frelsari Ísraels? 22 Það sem ósagt er um Júdas, stríð hans og hetjudáðir og stórfengleik er óskráð látið. Þar er af slíkum firnum að taka.
Jónatan tekur við af Júdasi
23 Þegar Júdas var fallinn frá áræddu lögmálsbrjótar að sýna sig hvarvetna í byggðum Ísraels og öll handbendi ranglætisins að láta til sín taka. 24 Um sömu mundir varð mikil hungursneyð og snerist þjóðin til fylgis við þá. 25 Bakkídes valdi guðlausa menn og gerði þá að ráðamönnum í landinu. 26 Þeir leituðu vini Júdasar uppi og færðu Bakkídesi þá og hann hegndi þeim og auðmýkti þá. 27 Varð þvílík þrenging í Ísrael að ekki hafði önnur slík verið síðan spámaður birtist síðast hjá Ísraelsmönnum.
28 Þá söfnuðust allir vinir Júdasar saman og sögðu við Jónatan: 29 „Frá því Júdas bróðir þinn lést finnst enginn hans líki til að berjast gegn óvinunum og Bakkídesi og þeim löndum okkar sem sýna fjandskap. 30 Þess vegna höfum við í dag kjörið þig foringja okkar í hans stað og leiðtoga í stríði okkar.“ 31 Þann dag tók Jónatan forystu og kom í stað Júdasar bróður síns.
Orrustur Jónatans
32 Bakkídes varð þessa vís og leitaði færis að deyða Jónatan. 33 Að þessu komust Jónatan og Símon bróðir hans og allir liðsmenn þeirra. Flýðu þeir út í auðnina við Tekóa og settu herbúðir við Asfarvatnsbólin. 34 Bakkídes frétti þetta á hvíldardegi og hélt með lið sitt yfir ána Jórdan.
35 Jónatan hafði sent Jóhannes bróður sinn, sem var foringi þeirra sem ekki báru vopn, til vina sinna, Nabatea, til að biðja þá um að geyma farangur þeirra sem var mikill. 36 En Jambrítar komu frá Medeba, gripu Jóhannes og allt sem hann var með og héldu burt með feng sinn.
37 Nokkru eftir þessa atburði bárust Jónatan og Símoni bróður hans þau tíðindi að mikið brúðkaup stæði fyrir dyrum hjá Jambrítum. Færu þeir frá Nadabat með brúðina, sem var dóttir eins fremsta höfðingjans í Kanaan, og væri fylgdarliðið fjölmennt. 38 Þeir höfðu ekki gleymt morði Jóhannesar bróður síns og fóru og földu sig í leyni við fjallið. 39 Þegar þeir lituðust um komu þeir auga á háværan hóp manna sem hafði mikinn farangur meðferðis. Til móts við hann komu brúðguminn, vinir hans og bræður með bumbur, hljóðfæri og mikinn vopnabúnað. 40 Jónatan og menn hans réðust á þá úr launsátrinu, vógu að þeim og féllu margir sárir. Þeir sem af komust flýðu til fjalls. Tóku þeir Jónatan allan farangur þeirra herfangi. 41 Brúðkaupið breyttist í sorg og hljóðfæraleikurinn í harmakvein. 42 En Jónatan og Símon höfðu grimmilega hefnt morðsins á bróður sínum, sneru aftur og héldu út á mýrarnar við Jórdan.
Orrustan við Jórdan
43 Bakkídes frétti um þetta og kom á hvíldardegi með mikinn her að bökkum Jórdanar. 44 Þá sagði Jónatan við menn sína: „Nú verðum við að berjast fyrir lífi okkar en aldrei hefur þunglegar horft. 45 Við megum búast við árás bæði á bak og brjóst. Jórdan er á aðra hlið og á hina mýrar og kjarr. Því er hvergi undanfæri. 46 Hrópið til himins á hjálp svo að við björgumst úr höndum óvina okkar.“
47 Þegar orrustan hófst komst Jónatan í höggfæri við Bakkídes en hann hörfaði undan honum aftur fyrir lið sitt. 48 Þá vörpuðu Jónatan og menn hans sér út í Jórdan og syntu yfir um. Óvinirnir komu ekki yfir fljótið á eftir þeim. 49 Af liði Bakkídesar féllu um þúsund manns þann daginn.
50 Bakkídes hélt aftur til Jerúsalem og lét reisa öflug virki í Júdeu: virki við Jeríkó, Emmaus, Bet Hóron, Betel, Tamnat, Faraton og Tefón. Voru þau búin háum múrum, hliðum og slagbröndum. 51 Þar var komið fyrir setuliðum til að fjandskapast við Ísrael. 52 Enn fremur víggirti hann borgirnar Bet Súr og Geser, kom fyrir herliði og vistum í þeim og styrkti virkið í Jerúsalem. 53 Syni fremstu manna landsins tók hann í gíslingu og hneppti þá í varðhald í virkinu í Jerúsalem.
54 Í öðrum mánuði árið eitt hundrað fimmtíu og þrjú[ fyrirskipaði Alkímus að rífa niður múrinn kringum innri forgarð musterisins. Var það verk spámanna sem hann vildi eyðileggja. En um leið og byrjað var að rífa 55 fékk Alkímus slag sem batt enda á athafnir hans. Hann lamaðist, missti málið og gat upp frá því hvorki tjáð sig né ráðstafað eigum sínum. 56 Áður en langt um leið dó Alkímus sárlega kvalinn.
57 Þegar Bakkídes komst að því að Alkímus var látinn fór hann aftur til konungs. Naut Júdea þá friðar í tvö ár.
Bakkídes bíður ósigur og semur frið
58 Allir hinir guðlausu tóku að ráða ráðum sínum. Sögðu þeir: „Jónatan og menn hans sitja nú í náðum og eru grandalausir. Sækjum nú Bakkídes svo að hann geti tekið þá alla á einni nóttu.“ 59 Fóru þeir síðan og ráðguðust við Bakkídes. 60 Hann lagði af stað með mikinn her. Sendi hann einnig bréf á laun til allra bandamanna sinna í Júdeu um að þeir ættu að taka Jónatan og menn hans höndum. En það tókst ekki því að uppvíst varð um ráðagerð þeirra. 61 Menn Jónatans náðu um fimmtíu af þeim mönnum sem í landinu höfðu verið hvatamenn þessa ódæðis og tóku þá af lífi. 62 Jónatan og menn hans og Símon fóru síðan til Bet Basi í auðninni. Endurreistu þeir það sem rifið hafði verið niður í bænum og víggirtu hann.
63 Bakkídes komst að þessu. Safnaði hann öllu liði sínu og kom boðum til manna sinna í Júdeu. 64 Kom hann síðan og settist um Bet Basi, herjaði á borgina dögum saman og kom upp umsátursvélum. 65 En Jónatan skildi Símon bróður sinn eftir í borginni og fór sjálfur út í sveitina með fáeina menn. 66 Hann felldi Ódómera og bræður hans og Fasínoríta í tjaldbúðum þeirra. Þegar Jónatan tók að vegna betur með liði sínu 67 gerðu Símon og menn hans útrás úr borginni og lögðu eld í umsátursvélarnar. 68 Þeir réðust á Bakkídes sem beið fullkominn ósigur fyrir þeim. Gengu þeir mjög hart að honum svo að ráðagerð hans og herför fór út um þúfur. 69 Bakkídes varð ofsareiður guðleysingjunum sem höfðu ráðlagt honum að fara inn í landið, drap marga þeirra og afréð að halda aftur til síns heima.
70 Er Jónatan frétti þetta sendi hann fulltrúa til Bakkídesar til að semja frið við hann og fá stríðsfanga afhenta.
71 Bakkídes tók því vel og fór að tilmælum Jónatans. Hann lagði eið að því að hann mundi aldrei leitast við að gera honum neitt til miska svo lengi sem hann lifði. 72 Afhenti Bakkídes Jónatan þá stríðsfanga sem hann hafði áður tekið í Júdeu. Fór hann síðan aftur til lands síns og sté aldrei framar fæti á landsvæði Gyðinga. 73 Þannig linnti ófriði í Ísrael. Jónatan settist að í Mikmas, gerðist dómari þjóðarinnar og upprætti hina guðlausu úr Ísrael.