Sáttmáli við Rómverja
1 Orðstír Rómverja barst Júdasi til eyrna. Var mikill herstyrkur þeirra rómaður og af því látið hve góðgjarnir þeir væru öllum bandamönnum sínum, þeir veittu sérhverjum nauðleitarmanni vináttu sína 2 og að þeir hefðu mjög sterkan her. Var Júdasi skýrt frá styrjöldum þeirra og hetjudáðum í viðureigninni við Galla, sem þeir sigruðu og gerðu skattskylda sér, 3 og frá öllum dáðum þeirra á Spáni, en þar náðu þeir silfur- og gullnámunum á sitt vald. 4 Þótt land það væri æði fjarri heimkynnum Rómverja tókst þeim með ráðsnilld og þolgæði að leggja það allt undir sig. Þeir höfðu borið hærri hlut er konungar frá fjærstu heimshornum gerðu atlögu að þeim, gjörsigrað þá og bakað þeim mikið tjón. Þá sem af komust létu þeir gjalda sér árlegan skatt. 5 Bæði Filippus og Persevs, konung Kitta, og alla aðra er lagt höfðu til atlögu við þá sigruðu þeir í orrustu og lögðu undir sig. 6 Rómverjar höfðu jafnvel sigrað Antíokkus mikla Asíukonung sem hóf stríð gegn þeim með eitt hundrað og tuttugu fíla, riddaralið og vagna og gífurlegan her. 7 Honum náðu þeir lifandi og skuldbundu bæði hann og eftirmenn hans á hásæti að gjalda sér mikinn skatt, afhenda sér gísla og láta af hendi við sig 8 Indland, Medíu og Lýdíu og sum önnur auðugustu lönd sín. Þegar Antíokkus hafði selt þeim löndin í hendur gáfu Rómverjar Evmenesi konungi þau.
9 Júdasi var einnig sagt frá því þegar Grikkir ákváðu að tortíma þeim. 10 Rómverjar komust að þessu og sendu einn einasta hershöfðingja gegn þeim. Barðist hann við þá og féllu margir af Grikkjum sárir til ólífis. Voru bæði konur þeirra og börn tekin herfangi og eigum þeirra rænt og land þeirra lögðu Rómverjar undir sig. Rifu þeir virki landsins og gerðu íbúana þræla sína eins og þeir eru fram á þennan dag.
11 Önnur þau ríki og eyjar sem einhvern tíma risu gegn Rómverjum léku þeir hart og gerðu ánauðug sér. 12 En þeir reyndust traustir vinir vina sinna og þeirra sem leituðu aðstoðar þeirra. Þeir undirokuðu konunga nær og fjær og allir sem heyrðu þeirra getið fengu beyg af þeim. 13 Ef Rómverjar vildu hjálpa einhverjum til ríkis þá settist sá að völdum. En þeir gátu líka steypt hverjum sem var. Þeir voru stórveldi.
14 Þrátt fyrir þetta hafði enginn Rómverji látið krýna sig né heldur skrýðst purpura til að hreykja sér. 15 En þeir höfðu komið sér upp þrjú hundruð og tuttugu manna ráði sem kom saman dag hvern til að ráðgast um almannahag og góða skipan mála þjóðarinnar. 16 Á hverju ári fólu þeir einum manni stjórn ráðsins og landsins alls. Hlýða allir þessum eina því að hvorki gætir hjá þeim öfundar né metings.
Samningur við Róm
17 Þá valdi Júdas Evpólemeus Jóhannesson Akkossonar og Jason Eleasarsson og sendi þá til Rómar til að gera við Rómverja samning um vináttu og stuðning 18 til að létta okinu af þjóðinni enda sáu þeir að ríki Grikkja var að hneppa Ísrael í þrældóm. 19 Þeir héldu til Rómar, en það er afar löng leið, gengu fyrir ráðið og ávörpuðu það: 20 „Júdas, sem nefndur er Makkabeus, og bræður hans og alþjóð Gyðinga sendi okkur til ykkar til að gera við ykkur samning um bandalag og frið og til að fá okkur skráða bandamenn ykkar og vini.“
21 Ráðið tók þessari málaleitan vel. 22 Fer hér á eftir afrit af skjali því sem Rómverjar sendu til Jerúsalem til varðveislu til að staðfesta frið og bandalag. Var það skráð á eirtöflur.
23 „Vel vegni Rómverjum og þjóð Gyðinga til sjós og lands um aldur og ævi. Sverð og óvinir séu þeim fjarri.
24 En beri ófrið fyrr að höndum Rómar eða einhvers bandamanns Rómverja einhvers staðar í ríki þeirra, 25 þá skal þjóð Gyðinga veita afdráttarlausan stuðning eftir því sem aðstæður krefja. 26 Þeim sem halda í hernað skulu ekki fengnar vistir, vopn, fjármunir eða skip samkvæmt ákvörðun Rómar. Gyðingar skulu halda skilmálana án endurgjalds. 27 Hið sama skal gilda ef ófrið ber fyrr að höndum þjóðar Gyðinga. Þá munu Rómverjar veita þeim afdráttarlausan stuðning eftir því sem aðstæður krefja. 28 Þá hefur verið afráðið í Róm að óvinum Gyðinga skuli ekki fengnar vistir, vopn, fjármunir eða skip. Skilmálar þessir skulu haldnir svikalaust.
29 Samkvæmt ofangreindum skilmálum hafa Rómverjar gert samning við Gyðingaþjóð. 30 Ef samningsaðilar koma sér síðar saman um að bæta hér einhverju við eða nema eitthvað á brott skal það heimilt. Hvað svo sem við verður aukið eða brott numið skal gilda. 31 Um rangindin sem Demetríus konungur beitir Gyðinga höfum við sent honum eftirfarandi bréf: Hví hefur þú þjakað vini okkar og bandamenn okkar Gyðinga svo mjög? 32 Ef þeir bera sig oftar upp undan þér þá munum við reka réttar þeirra og herja á þig á sjó og landi.“