Símon gerist leiðtogi Gyðinga
1 Símon frétti að Trýfon hafði safnað miklu liði til farar gegn Júdeu til að leggja landið í auðn. 2 Þar sem hann sá einnig að þjóðin var hrædd og óttaslegin fór hann upp til Jerúsalem og stefndi lýðnum saman. 3 Hann mælti hughreystingarorð og sagði: „Þið vitið sjálfir um allt sem ég, bræður mínir og öll mín föðurætt hefur gert í þágu lögmálsins og helgidómsins. Þið vitið um stríðin og þrengingarnar sem við höfum þolað. 4 Sökum þessa létu allir bræður mínir lífið fyrir Ísrael og er ég sá eini sem eftir er. 5 En fjarri sé mér að reyna að sleppa við lífsháska hvenær svo sem þrengir að. Ekki er mér vandara um en bræðrum mínum. 6 Ég skal hefna þjóðar minnar, helgidóms, kvenna ykkar og barna, engu síður en þeir, en allir heiðingjarnir hata okkur og hafa sameinast um að útrýma okkur.“
7 Við ræðu þessa svall þjóðinni móður að nýju 8 og fólkið svaraði hástöfum: „Þú ert foringi okkar í stað Júdasar og Jónatans bróður þíns. 9 Þú skalt heyja orrustur okkar en við munum breyta í öllu eins og þú býður!“
10 Þá safnaði Símon öllum vopnfærum mönnum og hraðaði sér að ljúka við múra Jerúsalem svo að borgin var rammlega varin á allar hliðar. 11 Hann sendi Jónatan Absalonsson einnig til Joppe með mikið herlið. Rak Jónatan íbúana úr borginni og settist þar sjálfur að.
Jónatan líflátinn
12 Trýfon fór frá Ptólemais með mikinn her til að ráðast inn í Júdeu. Hafði hann Jónatan með sér í böndum. 13 Símon kom her sínum fyrir við Hadíd í útjaðri sléttunnar. 14 Þegar Trýfon varð þess vísari að Símon væri tekinn við af bróður sínum og væri í þann veginn að leggja til orrustu við sig sendi hann fulltrúa til hans með þessi boð: 15 „Við höfum Jónatan bróður þinn í haldi vegna fjár sem hann skuldar konungssjóði fyrir embætti sem hann hefur haft á hendi. 16 Við skulum láta hann lausan ef þú sendir eitt hundrað talentur silfurs og tvo syni hans að gíslum svo að Jónatan rísi ekki gegn okkur þegar honum verður sleppt.“
17 Símoni var ljóst að hugur fylgdi ekki máli en lét samt sækja féð og sveinana til að vekja ekki úlfúð í sinn garð með þjóðinni 18 sem kynni að segja: „Því var Jónatan deyddur að Símon sendi hvorki féð né drengina.“ 19 Hann sendi drengina og talenturnar hundrað en Trýfon gekk á heit sín og lét Jónatan ekki lausan.
20 Eftir þetta kom Trýfon til að ráðast inn í landið og leggja það í auðn. Tók hann á sig krók og fór veginn til Adóra en Símon og her hans kom honum í opna skjöldu hvert sem hann fór.
21 Setuliðið í virkinu í Jerúsalem sendi fulltrúa til Trýfons til að fá hann til að koma sem skjótast til sín yfir auðnina og færa sér vistir. 22 Trýfon bjó allt riddaralið sitt til farar en um nóttina kyngdi niður snjó svo að þeir komust hvergi sökum ófærðar. Hélt hann þess í stað til Gíleaðs. 23 Í nánd við Baskama lét hann taka Jónatan af lífi og var hann grafinn þar. 24 Sneri Trýfon síðan aftur og fór til heimalands síns.
Minnismerkið í Módein
25 Símon sendi menn til að sækja bein Jónatans bróður síns og lagði þau til hvíldar í Módein, borg feðra hans. 26 Allur Ísrael söng harmljóð mikil eftir hann og syrgði hann langa hríð.
27 Yfir legstað föður síns og bræðra reisti Símon háan bauta sem sást víða að. Var slípaður steinn bæði bak og fyrir á minnismerkinu. 28 Lét hann og reisa sjö pýramída hvern gegnt öðrum til minningar um föður sinn, móður og fjóra bræður. 29 Þá kom hann upp umbúnaði umhverfis pýramídana. Voru þar miklar súlur og á þeim lágmyndir af vopnabúnaði til ævarandi minningar um sigursæld þeirra. Til hliðar við myndirnar af vopnabúnaðinum voru myndir af skipum, öllum sæfarendum til augnayndis. 30 Legstað þennan lét hann reisa í Módein og stendur hann enn í dag.
Símon leiðir Júdeu til sigurs
31 Trýfon beitti hinn unga konung, Antíokkus, svikum og lét deyða hann. 32 Tók hann við völdum og var krýndur konungur Asíu og olli miklu böli í landinu.
33 En Símon byggði upp virki Júdeu og kom háum turnum fyrir á rammbyggðum múrum með hliðum sem voru búin slagbröndum og lét koma fyrir vistum í virkjunum. 34 Símon valdi síðan nokkra menn til að ganga á fund Demetríusar konungs og leita eftirgjafar á álögum á landið því að aðgerðir Trýfons voru rán ein. 35 Demetríus konungur svaraði honum með svohljóðandi bréfi:
36 „Demetríus konungur sendir Símoni, æðsta presti og vini konunga, öldungaráðinu og Gyðingaþjóð kveðju. 37 Gullsveiginn og pálmakvistinn, sem þið senduð, höfum vér fengið og erum tilbúnir til að semja endanlegan frið við ykkur og gefa embættismönnum vorum skrifleg fyrirmæli um skattaívilnanir ykkur til handa. 38 Allt sem vér sömdum um áður skal vera í gildi og virkin sem þið reistuð skulu ykkar eign. 39 Enn fremur veitum vér ykkur uppgjöf allra yfirsjóna og saka til þessa dags. Þið þurfið ekki hér eftir að inna af hendi greiðslu á neinu sem krafist hefur verið í Jerúsalem og sömuleiðis skal það sem þið skuldið af kórónuskattinum fellt niður. 40 Ef einhverjir ykkar eru til þess hæfir að skrá sig í lífvörð vorn þá skulu þeir skrásettir og megi friður ríkja millum vor.“
41 Árið eitt hundrað og sjötíu[ var oki heiðingja létt af Ísrael. 42 Tóku Ísraelsmenn þá að rita í bréf og samninga: „Á fyrsta ári Símonar, hins mikla æðsta prests, hershöfðingja og foringja Ísraels.“
Símon tekur Geser og virkið í Jerúsalem
43 Um þessar mundir settist Símon um Geser og umkringdi her hans borgina. Hann lét smíða áhlaupsturn, sem ekið var að borginni, ráðast að einum virkisturnanna og var hann tekinn. 44 Stukku þeir sem í áhlaupsturninum voru inn í borgina og varð þar mikið öngþveiti. 45 Borgarbúar, konur þeirra og börn klifu upp á borgarmúrana, rifu klæði sín og hrópuðu hástöfum til Símonar bænir um grið. 46 „Breyt þú ekki við okkur eins og við eigum skilið fyrir illskuna,“ hrópuðu þeir, „heldur eins og miskunnsemi þín býður!“ 47 Símon varð við óskum þeirra og hætti að herja á borgina. En hann rak íbúana úr bænum og hreinsaði hús þau sem skurðgoðamyndir fundust í. Hélt hann síðan inn í borgina með sálmasöng og lofgjörð. 48 Allt sem óhreint var hrakti hann úr borginni og byggði hana mönnum sem trúir voru lögmálinu. Hann víggirti Geser og byggði sér þar bústað.
49 Setuliði virkisins í Jerúsalem var með öllu varnað þess að komast út á land til að kaupa og selja. Svarf sultur að og létust nokkrir af setuliðinu úr hungri. 50 Liðið ákallaði Símon um grið og varð hann við því, rak liðið úr virkinu og hreinsaði það af saurgun. 51 Símon hélt inn í virkið tuttugasta og þriðja daginn í öðrum mánuði árið eitt hundrað sjötíu og eitt við fagnandi þakkargjörð. Menn báru pálmagreinar og leikið var á hörpur, bumbur og gígjur undir sálmasöng og lofsöngvum, enda var mikill óvinur hrakinn frá Ísrael. 52 Símon skipaði svo fyrir að þessa dags skyldi árlega minnst með fögnuði. Hann styrkti víggirðingarnar á musterisfjallinu við virkið og settist þar að með fjölskyldu sinni. 53 Þar sem hann sá að Jóhannes sonur hans hafði náð fullum þroska gerði Símon hann foringja alls hersins. Bjó Jóhannes í Geser.