Davíð þyrmir lífi Sáls
1 Þaðan hélt Davíð upp til fjallavirkjanna í Engedí og var þar um kyrrt.
2 Sál sneri nú heim úr herförinni gegn Filisteum og var honum sagt: „Davíð er í Engedíeyðimörk.“ 3 Sál fór þá með þrjú þúsund manna einvalalið úr öllum Ísrael til þess að leita að Davíð og mönnum hans austan við Steingeitarhamra 4 og kom að fjárréttinni sem er við veginn. Þar var hellir og gekk Sál inn í hann erinda sinna. En innst í hellinum voru Davíð og menn hans.
5 Þá sögðu menn Davíðs við hann: „Nú er dagurinn kominn sem Drottinn talaði um þegar hann sagði við þig: Ég mun selja fjandmann þinn í hendur þér svo að þú getir gert við hann það sem þér þóknast.“ Davíð reis á fætur og skar bút af skikkjunni sem Sál bar, án þess að nokkur yrði þess var. 6 Á eftir angraði samviskan Davíð vegna þess að hann hafði skorið bút af skikkju Sáls 7 og sagði hann við menn sína: „Drottinn forði mér frá því að gera annað eins og þetta gegn herra mínum, Drottins smurða. Drottinn forði mér frá því að leggja hendur á hann því að hann er Drottins smurði.“ 8 Þá ávítaði Davíð menn sína harðlega og leyfði þeim ekki að ráðast á Sál.
Sál hélt síðan á brott úr hellinum og fór leiðar sinnar. 9 Þá reis Davíð á fætur, gekk út úr hellinum og kallaði á eftir Sál: „Herra minn, konungur.“ Þegar Sál leit við hneigði Davíð sig til jarðar, varpaði sér niður fyrir honum 10 og sagði: „Hvers vegna hlustar þú á mál þeirra manna sem segja: Gættu þín, Davíð vill þér illt. 11 Þú hefur nú séð með eigin augum að Drottinn seldi þig í hendur mínar í hellinum í dag. Ég var hvattur til að drepa þig en ég þyrmdi þér og sagði: Ég legg ekki hendur á húsbónda minn því að hann er Drottins smurði. 12 Sjáðu, faðir minn, líttu á. Ég held á bút af skikkju þinni í hendi mér. Af því að ég skar bút af skikkju þinni en drap þig ekki getur þú séð og skilið að ég hef hvorki uppreisn í huga né neitt illt og að ég hef ekki gerst brotlegur gegn þér. Það ert þú sem sækist eftir lífi mínu. 13 Drottinn skal vera dómari og dæma milli mín og þín. Drottinn hefni mín á þér en ekki skal ég leggja hendur á þig 14 eins og segir í hinu gamla máltæki: Ills er af illum von, en ég legg ekki hendur á þig. 15 Hvern eltir konungur Ísraels? Hvern ofsækir þú? Dauðan hund, eina fló. 16 Drottinn sé dómari og dæmi milli mín og þín. Hann sér þetta og hann mun reka réttar míns og dæma mér í vil.“
17 Þegar Davíð hafði sagt þetta við Sál svaraði hann: „Er þetta rödd þín, Davíð, sonur minn?“ Síðan brast Sál í grát 18 og sagði við Davíð: „Þú ert réttlátari en ég. Þú hefur reynst mér vel en ég hef reynst þér illa. 19 Í dag sýndir þú að þú vilt mér vel þegar Drottinn seldi mig í hendur þér en þú deyddir mig ekki. 20 Lætur nokkur andstæðing sinn fara óáreittan leiðar sinnar ef hann verður á vegi hans? Drottinn launi þér það með góðu sem þú hefur gert mér í dag. 21 Nú veit ég að þú verður konungur og að konungdómurinn yfir Ísrael verður stöðugur í hendi þér. 22 Vinn mér því þann eið við Drottin að þú munir ekki tortíma niðjum mínum og ekki afmá nafn mitt úr ætt minni.“ 23 Davíð vann Sál eið að þessu og fór Sál heim en Davíð og menn hans upp í fjallavígið.