Davíð í helgidóminum í Nób
1 Davíð gekk síðan leiðar sinnar en Jónatan sneri aftur til borgarinnar.
2 Davíð hélt til Nób til Ahímeleks prests. Ahímelek gekk skjálfandi af hræðslu á móti honum og spurði: „Hvers vegna ert þú einn á ferð og enginn með þér?“ 3 Davíð svaraði Ahímelek presti: „Konungur fól mér ákveðið erindi og bauð að enginn mætti vita neitt um sendiför mína eða erindið sem hann fól mér. Þess vegna hef ég stefnt mönnum mínum saman á ákveðinn stað. 4 En hvað ertu með, ef til vill fimm brauð? Gefðu mér þau eða eitthvað annað.“
5 Presturinn svaraði Davíð og sagði: „Ég hef ekkert venjulegt brauð tiltækt, aðeins heilagt brauð. En hafa fylgdarmenn þínir haldið sig frá konum?“ 6 Davíð svaraði prestinum og sagði: „Okkur hefur verið meinað að hafa samneyti við konur undanfarið. Þegar ég hélt af stað voru vopn fylgdarmanna minna áreiðanlega heilög þó að þetta sé aðeins venjuleg ferð. Hversu miklu fremur verða þeir þá helgaðir í dag ásamt vopnum sínum?“ 7 Þá gaf presturinn honum heilagt brauð því að þarna voru aðeins til skoðunarbrauð, sem höfðu verið tekin frá augliti Drottins, en volg brauð lögð fram í þeirra stað.
8 Þennan dag var einn af þjónum Sáls lokaður þarna inni frammi fyrir augliti Drottins. Hann hét Dóeg og var frá Edóm og var yfir fjárhirðum Sáls.
9 Síðan spurði Davíð Ahímelek: „Hefurðu ekki spjót eða sverð við höndina? Ég gat hvorki tekið sverð mitt né annað vopn með mér því að erindi konungs bar svo brátt að.“ 10 Presturinn svaraði: „Sverð Filisteans Golíats, sem þú felldir í Eikadalnum, er hér. Það er vafið í klæði á bak við hökulinn. Ef þú vilt nota það skaltu taka það. Hér er ekkert annað að hafa.“ Davíð sagði: „Það er sverða best. Fá þú mér það.“
Davíð hjá Filisteum
11 Sama dag lagði Davíð á flótta undan Sál og fór til Akíss, konungs í Gat. 12 Þá spurðu hirðmenn Akíss: „Er þetta ekki Davíð, konungur landsins? Er það ekki hann sem sungið var um í dansinum:
Sál felldi sín þúsund
en Davíð sín tíu þúsund?“
13 Davíð lagði þessi orð á minnið en varð mjög hræddur við Akís, konung í Gat. 14 Hann gerði sér því upp vitfirringu frammi fyrir mönnum hans og lét sem óður væri þegar þeir reyndu að hemja hann, lamdi á hurðir borgarhliðsins og slefaði í skegg sér. 15 Þá sagði Akís við menn sína: „Þið sjáið að maðurinn er vitstola. Hvers vegna komið þið með hann til mín? Er ekki nóg af vitfirringum hér þó að þið komið ekki með hann til að angra mig með æði sínu? Hvað hefur hann að gera í mitt hús?“