Sál ofsækir Davíð
1 Sál talaði við Jónatan, son sinn, og alla þjóna sína um að drepa Davíð. En Jónatan, syni Sáls, þótti mjög vænt um Davíð. 2 Jónatan skýrði því Davíð frá þessu og sagði: „Sál, faðir minn, ætlar að drepa þig. Gættu þín vel í fyrramálið. Feldu þig og haltu kyrru fyrir. 3 Sjálfur ætla ég að fara út og vera hjá föður mínum á akrinum þar sem þú ert. Ég mun tala um þig við föður minn og verði ég nokkurs vísari segi ég þér frá því.“
4 Jónatan talaði síðan máli Davíðs við Sál, föður sinn, og sagði við hann: „Konungurinn ætti ekki að drýgja slíkan glæp á Davíð, þjóni sínum. Hann hefur ekkert illt gert þér, heldur hafa verk hans reynst þér mjög gagnleg. 5 Hann hætti lífi sínu þegar hann drap Filisteann og með því veitti Drottinn öllum Ísrael mikinn sigur. Þú sást það sjálfur og gladdist. Hvers vegna viltu drýgja glæp og úthella saklausu blóði með því að drepa Davíð að ástæðulausu?“
6 Sál hlustaði á það sem Jónatan sagði og sór síðan: „Svo sannarlega sem Drottinn lifir verður Davíð ekki drepinn!“ 7 Þá kallaði Jónatan á Davíð og sagði honum allt af létta. Síðan fór Jónatan með Davíð til Sáls og þjónaði hann konungi eins og áður.
8 Stríðið hélt áfram og Davíð fór aftur að heiman í leiðangur og barðist við Filisteana. Þeir guldu mikið afhroð fyrir honum og flýðu undan honum.
9 Einhverju sinni kom illur andi frá Guði á ný yfir Sál þegar hann sat í húsi sínu með spjót í hendi en Davíð lék á hörpuna. 10 Sál reyndi að reka Davíð í gegn og festa hann við vegginn með spjóti sínu en hann gat vikið sér undan svo að Sál lagði spjótinu í vegginn. Þá flýði Davíð og tókst að komast undan þessa sömu nótt. 11 Þá sendi Sál menn til húss Davíðs til að sitja um hann og drepa morguninn eftir. En Míkal, kona Davíðs, varaði hann við og sagði: „Ef þú bjargar ekki lífi þínu í nótt verður þú drepinn í fyrramálið.“ 12 Síðan lét Míkal Davíð síga út um glugga og komst hann þannig undan á flótta. 13 Míkal tók því næst húsgoðið og lagði það í rúmið. Á höfuð þess setti hún geitarhársflóka og breiddi ábreiðu yfir. 14 Þegar Sál sendi síðan menn til að grípa Davíð sagði hún: „Hann er veikur.“ 15 Þá sendi Sál menn að nýju til að vitja Davíðs og skipaði þeim: „Færið mér hann í rúminu svo að ég geti drepið hann.“
16 Þegar sendimennirnir komu fundu þeir húsgoðið í rúminu með geitarhársflóka á höfði. 17 Þá sagði Sál við Míkal: „Hvers vegna hefur þú blekkt mig svona og hjálpað fjandmanni mínum að komast undan?“ Míkal svaraði: „Hann sagði við mig: Komdu mér undan, annars drep ég þig.“
18 Þegar Davíð hafði flúið og komist undan fór hann til Samúels í Rama og sagði honum frá öllu sem Sál hafði gert honum. Síðan fóru þeir Samúel og voru um kyrrt í Najót. 19 Sál var skýrt frá því að Davíð væri í Najót í Rama. 20 Hann sendi þá menn til að grípa Davíð. Þegar þeir sáu spámannahóp í spámannlegri leiðslu með Samúel í broddi fylkingar kom andi Guðs yfir sendimenn Sáls svo að þeir komust einnig í spámannlega leiðslu. 21 Þegar Sál var tilkynnt þetta sendi hann aðra menn sem féllu líka í leiðslu. Þá sendi Sál menn í þriðja skiptið en þeir féllu einnig í leiðslu. 22 Þá hélt hann sjálfur til Rama. Þegar hann kom að stóra brunninum í Sekó spurði hann: „Hvar eru Samúel og Davíð?“ „Í húsi spámannanna í Rama,“ var honum sagt. 23 Á leiðinni þangað kom andi Guðs einnig yfir hann og var hann í spámannlegri leiðslu alla leiðina til Najót í Rama. 24 Hann reif meira að segja af sér fötin og var í spámannlegri leiðslu frammi fyrir Samúel. Hann lá nakinn allan þann dag og alla nóttina. Þess vegna er sagt: „Er Sál einnig í hópi spámannanna?“