Þrekvirki Jónatans
1 Dag nokkurn sagði Jónatan, sonur Sáls, við skjaldsvein sinn: „Komdu, við skulum fara yfir til framvarðarsveitar Filistea sem er þarna hinum megin.“ En hann sagði föður sínum ekki frá þessu.
2 Þegar þetta var hafðist Sál við í útjaðri Gíbeu undir granateplatrénu í Migron. Hann hafði um sex hundruð manna lið með sér. 3 Akía bar þá hökulinn. Hann var sonur Akítúbs, bróður Íkabóðs, sem var sonur Pínehasar Elísonar sem var prestur Drottins í Síló. Enginn tók eftir að Jónatan var farinn.
4 Tveir klettadrangar voru beggja vegna klifsins sem Jónatan reyndi að fara til að ráðast á framvarðarsveit Filistea. Hét annar Bóses en hinn Sene. 5 Annar drangurinn gnæfði norðan megin eins og súla gegnt Mikmas, hinn að sunnanverðu gegnt Geba.
6 Jónatan sagði nú við skjaldsvein sinn: „Komdu, við skulum fara yfir til framvarða þeirra óumskornu. Ef til vill hjálpar Drottinn okkur. Ekkert getur hindrað að Drottinn veiti sigur, hvort heldur það er með mörgum mönnum eða fáum.“ 7 Skjaldsveinninn sagði: „Gerðu það sem þú hefur í huga. Ég stend með þér í einu og öllu.“ 8 Jónatan sagði: „Förum yfir til mannanna og látum þá sjá okkur. 9 Ef þeir segja við okkur: Bíðið þangað til við komum til ykkar, þá stöndum við kyrrir þar sem við erum og förum ekki upp til þeirra. 10 En ef þeir segja: Komið til okkar, þá förum við upp því að það verður okkur tákn þess að Drottinn hefur gefið þá okkur á vald.“
11 Þegar framvarðarsveit Filistea kom auga á þá sögðu Filistearnir: „Sjáið, Hebrearnir eru skriðnir úr holunum sem þeir földu sig í.“ 12 Síðan hrópuðu varðmennirnir til Jónatans og skjaldsveinsins og sögðu: „Komið upp til okkar. Við ætlum að segja ykkur svolítið.“ Þá sagði Jónatan við skjaldsvein sinn: „Komdu upp á eftir mér. Drottinn hefur framselt þá í hendur Ísraels.“
13 Jónatan klifraði síðan upp á höndum og fótum og skjaldsveinninn á eftir honum. Jónatan felldi Filisteana til jarðar og skjaldsveinninn, sem fylgdi honum, hjó þá til bana. 14 Í þessu fyrsta áhlaupi Jónatans og skjaldsveinsins féllu um tuttugu menn á bletti sem var um það bil hálft plógfar á lengd, ein dagslátta.
15 Við þetta greip um sig mikil skelfing í herbúðunum niðri á völlunum. Allur herinn skalf af ótta, bæði framvarðarsveitir og ránsflokkarnir. Og jörðin nötraði því að þessi skelfing var send af Guði.
Filistear sigraðir
16 Varðmenn Sáls í Gíbeu í Benjamín sáu að mikið uppnám og ringulreið varð í herbúðunum. 17 Þá sagði Sál við þá sem með honum voru: „Kannið liðið og athugið hver af okkar mönnum hefur farið frá okkur.“ Þeir könnuðu liðið og þá kom í ljós að Jónatan og skjaldsvein hans vantaði. 18 Þá sagði Sál við Akía: „Komdu með örk Guðs,“ en þá var örk Guðs hjá Ísraelsmönnum. 19 Á meðan Sál var að tala við prestinn jókst uppnámið í herbúðum Filistea sífellt. Þá sagði Sál við prestinn: „Hættu við það.“
20 Sál og allir liðsmenn hans sameinuðust nú og héldu á vígvöllinn. Þar sáu þeir að mikið uppnám var meðal Filistea og að þeir hjuggu hver annan með sverðum. 21 Þeir Hebrear, sem áður höfðu fylgt Filisteum og haldið með þeim til bardaga, yfirgáfu þá og gengu í lið með Ísraelsmönnum sem voru í liði Sáls og Jónatans. 22 Þegar Ísraelsmennirnir, sem höfðu falið sig í fjalllendi Efraíms, fréttu að Filistear væru lagðir á flótta eltu þeir þá uppi og börðust við þá. 23 Þannig bjargaði Drottinn Ísrael á þeim degi.
Bardaginn barst fram hjá Betaven 24 og áttu Ísraelsmenn í vök að verjast þann dag. Þess vegna lét Sál liðið sverja eið sama dag. Hann sagði: „Bölvaður sé hver sá maður sem neytir einhvers áður en kvöldar og áður en ég hef hefnt mín á fjandmönnum mínum.“ Og enginn hermannanna neytti neins.
25 Býflugnabú voru víða á landsvæðinu svo að þar var hunang að hafa. 26 Þegar liðið kom að býflugnabúunum sá það að hunang rann úr þeim en enginn lagði sér það til munns af ótta við eiðinn.
27 En Jónatan hafði ekki heyrt að faðir hans hafði látið liðið vinna eið. Hann stakk þá endanum á stafnum, sem hann hélt á, inn í eitt býflugnabúið og dýfði honum í hunangskökuna, tók hunangið, stakk því í munn sér með hendinni og ljómuðu þá augu hans aftur. 28 Þá sagði maður nokkur úr liðinu: „Faðir þinn lét liðið sverja og sagði: Bölvaður sé sá maður sem neytir einhvers í dag. Þess vegna er liðið dauðþreytt.“ 29 Jónatan svaraði: „Faðir minn leiðir ógæfu yfir landið. Sjáið hve augu mín ljóma af því að ég bragðaði aðeins á hunanginu. 30 Vissulega hefði ósigur Filistea orðið enn meiri ef liðið hefði etið af herfanginu sem það tók af fjandmönnum sínum.“
31 Þennan dag sigruðu Ísraelsmenn Filistea á svæðinu milli Mikmas og Ajalon. Var þá mjög af liðinu dregið 32 og köstuðu menn sér yfir herfangið. Þeir tóku bæði sauðfé, naut og kálfa, slátruðu þeim á jörðinni og neyttu kjötsins með blóðinu í.
33 Þá var Sál sagt svo frá: „Fólkið syndgar gegn Drottni. Það neytir kjötsins með blóðinu í.“ Hann svaraði: „Þið hafið brotið af ykkur. Veltið þegar í stað stórum steini hingað til mín.“ 34 Síðan gaf Sál þessi fyrirmæli: „Farið út meðal fólksins og segið: Hver og einn skal koma hingað með naut sín og lömb. Slátrið þeim hér og etið svo að þið syndgið ekki gegn Drottni með því að neyta kjöts með blóðinu í.“ Um nóttina kom allt liðið með það búfé sem það hafði og slátraði því þar. 35 Og Sál reisti Drottni altari. Það var fyrsta altarið sem hann reisti Drottni.
36 Síðan sagði Sál: „Við skulum veita Filisteum eftirför í nótt og ræna þá þar til birtir. Enginn þeirra skal sleppa.“ Allir svöruðu: „Gerðu það sem þú telur rétt.“ En presturinn sagði: „Fyrst skulum við ganga fram fyrir Guð.“
37 Þá leitaði Sál svara hjá Guði og spurði: „Á ég að veita Filisteum eftirför? Muntu framselja þá Ísrael í hendur?“ En Guð svaraði honum ekki þann dag. 38 Þá sagði Sál: „Komið hingað, allir leiðtogar þjóðarinnar, og komist að því hver hefur drýgt synd í dag. 39 Því að svo sannarlega sem Drottinn, frelsari Ísraels, lifir þá skal sá seki deyja, jafnvel þótt það sé Jónatan, sonur minn.“ En enginn svaraði honum. 40 Síðan ávarpaði hann allan Ísrael: „Þið skuluð standa öðrum megin en við Jónatan, sonur minn, hinum megin.“ Fólkið svaraði Sál: „Gerðu það sem þú telur rétt.“
41 Þá sagði Sál við Drottin, Guð Ísraels: „Veittu okkur fullvissu.“ Kom þá upp hlutur Jónatans og Sáls en fólkið gekk leiðar sinnar. 42 Sál sagði: „Kastið nú hlutkesti milli mín og Jónatans, sonar míns.“ Hlutur Jónatans kom upp. 43 Þá sagði Sál við Jónatan: „Segðu mér hvað þú hefur gert.“ Jónatan svaraði honum og sagði: „Ég bragðaði aðeins á hunanginu á enda stafsins sem ég hélt á. Ég er reiðubúinn að deyja.“ 44 Sál sagði: „Drottinn geri við mig það sem hann vill: Jónatan, þú verður að deyja.“ 45 Þá sagði fólkið við hann: „Á Jónatan að láta lífið, hann sem hefur unnið slíkan sigur fyrir Ísrael? Það skal aldrei verða. Svo sannarlega sem Drottinn lifir þá skal ekki hár skert á höfði hans því að í dag sigraði hann með hjálp Guðs.“ Þannig leysti fólkið líf Jónatans. 46 Sál hélt nú heim og hætti að elta Filistea sem fóru til landsvæða sinna.
Konungdómur Sáls og ættfólk hans
47 Þegar Sál hafði tekið við konungdómi yfir Ísrael tók hann að berjast gegn öllum fjandmönnum sínum umhverfis: gegn Móab, Ammónítum, Edóm, konungunum í Sóba og Filisteum. Hann sigraði alla þá sem hann átti í höggi við. 48 Hann drýgði hetjudáðir, sigraði Amalek og frelsaði Ísrael úr hendi ránsmanna.
49 Synir Sáls voru Jónatan, Jisví og Malkísúa. Hann átti tvær dætur og hét sú eldri Merab en sú yngri Míkal. 50 Kona Sáls hét Ahínóam Ahímasdóttir. Hershöfðingi hans hét Abner, sonur Ners, föðurbróður Sáls. 51 Kís, faðir Sáls, og Ner, faðir Abners, voru synir Abíels.
52 Hið harða stríð gegn Filisteum stóð á meðan Sál lifði. Sál tók í þjónustu sína hvern kappa eða hraustmenni sem hann sá.