Fall Rabba
1 Um áramót, þegar konunga er siður að halda í hernað, fór Jóab með allan herinn í leiðangur. Hann eyddi land Ammóníta, settist um Rabba, en Davíð hélt kyrru fyrir í Jerúsalem. Jóab vann Rabba og reif hana niður. 2 Því næst tók Davíð kórónu Ammónítakonungs af höfði hans og reyndist hún vera ein talenta gulls að þyngd, skreytt gimsteini, og var hún sett á höfuð Davíðs. Hann tók mjög mikið herfang úr borginni 3 og flutti borgarbúa burt og lét þá vinna með steinsögum, járnhökum og járnöxum. Þannig fór hann með allar aðrar borgir Ammóníta. Því næst sneri Davíð ásamt öllum hernum heim til Jerúsalem.
Fall Refaíta
4 Eftir þetta kom til ófriðar við Filistea við Geser. Þá drap Sibbekaí frá Húsa Sippaí, sem var af ætt Refaíta, og voru þeir ofurliði bornir.
5 Enn á ný kom til bardaga við Filistea. Elkana Jaírsson drap þá Lahmí, bróður Golíats frá Gat, en spjótskaft hans var eins og vefjarrifur í vefstól.
6 Þá varð enn bardagi við Gat. Þar var risavaxinn maður sem hafði tólf fingur og tólf tær. Einnig hann var af ætt Refa. 7 Er hann hæddist að Ísrael drap Jónatan hann en hann var sonur Símea, bróður Davíðs.
8 Þessir menn voru afkomendur Refa frá Gat. Þeir féllu allir fyrir hendi Davíðs og manna hans.