1 Örk Guðs var nú borin inn og henni komið fyrir í miðju tjaldinu sem Davíð hafði látið setja upp fyrir hana. Því næst voru brennifórnir og heillafórnir færðar frammi fyrir augliti Guðs. 2 Eftir að Davíð hafði fært brennifórnina og heillafórnina blessaði hann fólkið í nafni Drottins. 3 Loks lét hann úthluta öllum Ísraelsmönnum, körlum og konum, hverjum fyrir sig, einum brauðhleif, einni döðluköku og einni rúsínuköku.
Þakkarsálmur Davíðs
4 Davíð skipaði Levíta til þjónustu frammi fyrir örk Drottins til þess að lofa, þakka og vegsama Drottin, Guð Ísraels. 5 Hann skipaði Asaf stjórnanda, Sakaría næstan honum, enn fremur Jeíel, Semíramót, Jehíel, Mattitja, Elíab, Benaja, Óbeð Edóm og Jehíel. Þeir áttu að leika á hljóðfæri, hörpur og gígjur, en Asaf á málmgjöll. 6 Að auki áttu prestarnir Benaja og Jehasíel stöðugt að þeyta lúðra frammi fyrir sáttmálsörk Guðs.
7 Á þessum degi lét Davíð Asaf og embættisbræður hans flytja þessa lofgjörð til Drottins í fyrsta skipti:
8Þakkið Drottni, ákallið nafn hans.
Gerið máttarverk hans kunn meðal þjóðanna.
9Syngið honum lof, leikið fyrir hann,
talið um öll hans máttarverk.
10Hrósið yður af hans heilaga nafni.
Hjarta þeirra, sem leita Drottins, gleðjist.
11Leitið Drottins og máttar hans,
leitið sífellt eftir augliti hans.
12Minnist dásemdarverkanna sem hann vann,
tákna hans og dómanna sem hann kvað upp.
13Þér, niðjar Ísraels, þjóns hans,
synir Jakobs, sem hann útvaldi.
14Hann, Drottinn, er Guð vor,
um víða veröld gilda boð hans.
15Hann minnist að eilífu sáttmála síns,
fyrirheitanna sem hann gaf þúsund kynslóðum,
16sáttmálans sem hann gerði við Abraham
og eiðsins sem hann sór Ísak
17og setti sem lög fyrir Jakob,
ævarandi sáttmála fyrir Ísrael.
18Hann sagði: „Yður fæ ég Kanaansland,
það skal verða erfðahlutur yðar,“
19þegar þér voruð fámennur hópur
og bjugguð þar sem fáliðaðir útlendingar.
20Þeir reikuðu frá einni þjóð til annarrar,
frá einu konungsríki til annars.
21Hann leið engum að kúga þá
en hegndi konungum þeirra vegna.
22 „Snertið eigi mína smurðu
og gerið eigi spámönnum mínum mein.“
23 Syngið Drottni, öll lönd,
kunngjörið hjálpráð hans dag eftir dag.
24 Segið frá dýrð hans meðal þjóðanna,
frá dásemdarverkum hans meðal allra lýða,
25 því að mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
óttalegri en allir guðir.
26 Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir
en Drottinn hefur gert himininn,
27 dýrð og hátign eru frammi fyrir honum,
máttur og gleði á helgistað hans.
28 Tignið Drottin, þér ættbálkar þjóðanna,
tignið Drottin með dýrð og mætti,
29 tignið Drottin, heiðrið nafn hans,
berið fram fórnargjafir, komið fyrir auglit hans,
tilbiðjið Drottin í helgum skrúða.
30 Öll jörðin skjálfi frammi fyrir honum.
Hann hefur fest jörðina, hún riðar ekki.
31 Himinninn gleðjist og jörðin fagni.
Kunngjörið þjóðunum: „Drottinn er konungur.“
32 Hafið drynji og allt sem í því er,
foldin fagni og allt sem á henni er,
33 tré skógarins hrópi af gleði
frammi fyrir augliti Drottins
því að hann kemur til að ríkja á jörðu.
34 Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu,
35 og biðjið: „Hjálpa þú, Guð hjálpræðis vors.
Sameina oss og frelsa undan framandi þjóðum
svo að vér getum lofað þitt heilaga nafn
og fagnandi sungið þér lof:
36 Lofaður sé Drottinn, Ísraels Guð,
frá eilífð til eilífðar.
Allur lýðurinn sagði: „Amen“ og „lof sé Drottni.“
Helgihald í Jerúsalem og Gíbeon
37 Davíð lét Asaf og embættisbræður hans verða eftir frammi fyrir sáttmálsörk Drottins. Þeir áttu stöðugt að annast hina daglegu þjónustu frammi fyrir örkinni. 38 Óbeð Edóm og bræður hans, sextíu og átta menn, voru á meðal þeirra en Óbeð Edóm Jedútúnsson og Hósa voru hliðverðir.
39 Sadók presti og embættisbræðrum hans, prestunum, fól hann þjónustu frammi fyrir bústað Drottins á fórnarhæðinni í Gíbeon. 40 Þeir áttu að færa Drottni brennifórnir á brennifórnaraltarinu kvölds og morgna dag hvern og uppfylla allt sem ritað er í lögmáli Drottins sem hann hefur boðið Ísrael að halda. 41 Á meðal þeirra voru Heman og Jedútún og hinir sem höfðu verið valdir og nefndir með nafni til að þakka Drottni því að miskunn hans varir að eilífu. 42 Heman og Jedútún höfðu lúðra og málmgjöll handa hljóðfæraleikurunum og önnur hljóðfæri fyrir sálma guðsþjónustunnar. Niðjar Jedútúns voru ráðnir til að gæta hliðanna. 43 Því næst hélt allt fólkið aftur heim til sín. Davíð fór einnig heim til þess að heilsa fjölskyldu sinni.