Drottinn birtist Salómon
1 Þegar Salómon hafði reist musteri Drottins og konungshöllina og komið öllu í verk sem hugur hans stóð til, 2 þá birtist Drottinn Salómon öðru sinni eins og hann hafði birst honum í Gíbeon. 3 Drottinn sagði við hann: „Ég hef heyrt ákall þitt og bæn sem þú fluttir fyrir augliti mínu. Ég hef helgað þetta hús sem þú hefur reist til þess að nafn mitt búi þar ævinlega. Augu mín og hjarta munu ætíð vera þar. 4 Ef þú gengur fyrir auglit mitt, eins og Davíð, faðir þinn, gerði af heilum huga og í einlægni, og ef þú gerir allt sem ég hef boðið þér, heldur ákvæði mín og lög, 5 mun ég um aldur og ævi styðja hásæti konungdóms þíns yfir Ísrael eins og ég lofaði Davíð, föður þínum: Niðjar þínir munu ætíð sitja í hásæti Ísraels. 6 En ef þið og synir ykkar snúið frá mér og haldið ekki boð þau og fyrirmæli sem ég hef sett ykkur en farið og þjónið öðrum guðum og sýnið þeim lotningu, 7 mun ég eyða Ísraelsmönnum úr landinu sem ég fékk þeim. Húsið, sem ég hef helgað nafni mínu, mun ég fjarlægja frá augliti mínu og Ísrael mun verða hafður að háði og spotti meðal allra þjóða. 8 Þetta hús skal verða rúst og sérhver, sem gengur þar hjá, mun fyllast skelfingu. Menn munu grípa andann á lofti og spyrja: Hvers vegna hefur Drottinn leikið svo hart þetta land og þetta hús? 9 Og svarið verður: Af því að íbúarnir yfirgáfu Drottin, Guð sinn, sem leiddi forfeður þeirra út úr Egyptalandi. Þeir bundust öðrum guðum, sýndu þeim lotningu og þjónuðu þeim. Þess vegna hefur Drottinn sent allt þetta böl yfir þá.“
Laun Hírams
10 Þegar þau tuttugu ár voru liðin sem Salómon var að reisa bæði húsin, musteri Drottins og höllina, 11 afhenti Salómon konungur Híram tuttugu borgir í Galíleuhéraði því að Híram, konungur í Týrus, hafði séð Salómon fyrir öllum þeim sedrusviði, kýprusviði og gulli sem hann óskaði. 12 Híram kom frá Týrus til þess að skoða borgirnar sem Salómon hafði fengið honum en hann var ekki ánægður með þær. 13 Hann sagði: „Hvers konar borgir eru þetta sem þú hefur fengið mér, bróðir?“ Allt til dagsins í dag hefur héraðið þar sem þær eru verið nefnt Kabúl.[ 14 Híram hafði sent konungi hundrað og tuttugu talentur gulls.
Kvaðavinna
15 Hér verður sagt frá kvaðavinnunni sem Salómon konungur kom á til þess að byggja musteri Drottins og sitt eigið hús, einnig Milló, múra Jerúsalem, Hasór, Megiddó og Geser: 16 Faraó, konungur Egypta, hafði komið og tekið Geser, brennt hana og drepið Kanverjana sem bjuggu í borginni. Síðan hafði hann gefið hana dóttur sinni, eiginkonu Salómons, í heimanmund. 17 Salómon reisti Geser að nýju, einnig neðri Bet Hóron, 18 Baalat og Tamar í óbyggðum landsins. 19 Auk þess reisti Salómon allar birgðaborgirnar, sem hann átti, og borgirnar fyrir hervagna sína og stríðshesta og allt sem hann vildi byggja í Jerúsalem, á Líbanon og hvarvetna í ríki sínu. 20 Salómon lagði kvaðavinnu á alla þá sem eftir voru af Amorítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum og ekki voru Ísraelsmenn. 21 Það voru afkomendur þeirra sem enn höfðu búsetu í landinu og Ísraelsmenn höfðu ekki getað tortímt. Hafa þeir unnið þessa vinnu til þessa dags. 22 En Salómon gerði enga Ísraelsmenn að þrælum. Þeir voru hermenn hans, embættismenn, hershöfðingjar, vagnstjórar og foringjar yfir hervögnum hans og hervagnaliði. 23 Yfir framkvæmdum Salómons voru fimm hundruð og fimmtíu verkstjórar sem heyrðu undir héraðsstjórana og stýrðu þeim sem verkin unnu.
24 Þegar dóttir faraós hafði flutt frá borg Davíðs til húss síns, sem Salómon hafði reist handa henni, byggði hann Milló.
25 Þrisvar á ári færði Salómon brennifórn og heillafórn á altarinu sem hann hafði reist Drottni. Hann lét fórnir sínar líða upp í reyk fyrir augliti Drottins og með því lauk hann við að reisa hús hans. 26 Salómon konungur smíðaði einnig skip í Esjón Geber sem er við Elat á strönd Sefhafsins[ í Edómslandi. 27 Híram sendi menn sína á skipin, reynda sjómenn, ásamt mönnum Salómons. 28 Þeir komu til Ófír, fluttu þaðan gull, fjögur hundruð og tuttugu talentur, og færðu Salómon konungi.