Veldi Salómons
1 Salómon ríkti yfir öllum ríkjum frá fljótinu Efrat til lands Filistea og landamæra Egyptalands. Íbúar þeirra færðu Salómon skatt og voru honum undirgefnir á meðan hann lifði. 2 Salómon þurfti daglega til matar handa mönnum sínum þrjátíu kór[ af hveiti og sextíu kór af grófu mjöli, 3 tíu alinaut, tuttugu hagagengin naut og hundrað fjár, auk hjarta, gasellna, dádýra og alifugla, 4 enda drottnaði hann yfir öllu svæðinu hérna megin við Efrat, frá Tífsa til Gasa. Hann drottnaði yfir öllum konungum hérna megin fljótsins. Hann lifði í friði við alla nágranna sína 5 svo að íbúar Júda og Ísraels bjuggu við öryggi. Frá Dan til Beerseba sat hver maður undir vínviði sínum og fíkjutré á meðan Salómon lifði.
6 Salómon hafði stalla í hesthúsum fyrir fjögur þúsund hesta sem drógu hervagna hans og hann mannaði vagnana með tólf þúsund.
7 Héraðsstjórarnir sáu Salómon konungi og öllum, sem boðnir voru til borðs konungs, fyrir vistum, sinn mánuðinn hver. Létu þeir ekkert skorta. 8 Þeir fluttu bygg og hálm handa hestunum og dráttardýrunum á þann stað sem hverjum þeirra hafði verið gefin skipun um.
Viska Salómons
9 Guð gaf Salómon speki og mikinn skilning og svo víðfeðma þekkingu sem sandur á sjávarströnd. 10 Speki Salómons var meiri en speki allra Austurlandabúa og tók fram allri speki Egypta. 11 Hann var allra manna vitrastur, vitrari en Etan Esrahíti og Heman, Kalkól og Darda Mahólssynir. Nafn hans var þekkt meðal allra nágrannaþjóða. 12 Hann samdi þrjú þúsund spakmæli og kvæði hans voru eitt þúsund og fimm talsins. 13 Hann orti um trén, allt frá sedrustrjánum á Líbanonsfjöllum til ísópsins sem vex á múrveggnum. Hann orti um fénaðinn og fuglana, skriðdýrin og fiskana.
14 Fólk af öllu þjóðerni kom til þess að heyra spakmæli Salómons, sendimenn frá öllum konungum heimsins sem heyrt höfðu af speki hans.
Musterisbygging undirbúin
15 Híram, konungur í Týrus, sendi þjóna sína til Salómons af því að hann hafði frétt að hann hefði verið smurður til konungs í stað föður síns. Híram hafði alltaf verið vinur Davíðs. 16 Salómon sendi til Hírams með þessi skilaboð: 17 „Þú veist að Davíð, faðir minn, gat ekki reist hús handa nafni Drottins, Guðs síns, vegna þess að hann varð að berjast við fjandmenn sína sem umkringdu hann þar til Drottinn lagði þá undir iljar hans. 18 En nú hefur Drottinn, Guð minn, tryggt frið umhverfis mig. Enginn ógnar mér og engin hætta steðjar að. 19 Þess vegna ætla ég að reisa nafni Drottins, Guðs míns, hús eins og Drottinn sagði við Davíð, föður minn: Sonur þinn, sem ég mun setja í hásæti þitt á eftir þér, mun reisa nafni mínu hús. 20 Gefðu því skipun um að sedrustré verði höggvin á Líbanonsfjöllum handa mér. Verkamenn mínir skulu vinna með þínum verkamönnum og ég borga þér það kaup sem þú setur upp fyrir þína verkamenn. Eins og þú veist höfum við engan mann hér sem kann að höggva tré eins og íbúarnir í Sídon.“
21 Þegar Híram heyrði orðsendingu Salómons varð hann mjög glaður og sagði: „Lofaður sé Drottinn sem hefur gefið Davíð vitran son til þess að ríkja yfir þessari fjölmennu þjóð.“ 22 Síðan sendi Híram Salómon þetta svar: „Ég hef heyrt orðsendingu þína. Ég mun gera það við sedrusviðinn og kýprusviðinn sem þú óskaðir. 23 Verkamenn mínir munu flytja viðinn frá Líbanonsfjöllum niður til sjávar. Síðan læt ég fleyta honum þangað sem þú óskar. Þar læt ég leysa viðinn sundur svo að þú getir sótt hann. Í staðinn skaltu uppfylla ósk mína og senda vistir handa hirð minni.“
24 Híram sendi Salómon allan þann sedrusvið og kýprusvið sem hann bað um. 25 Salómon sendi tuttugu þúsund kór af hveiti til matar handa hirð hans og tuttugu þúsund böt af olíu úr pressuðum ólífum. Þetta sendi Salómon til Hírams á hverju ári. 26 Drottinn gaf Salómon speki eins og hann hafði heitið honum. Það fór vel á með Híram og Salómon og þeir gerðu sáttmála sín á milli.
Kvaðavinnan
27 Salómon konungur kallaði menn úr öllum Ísrael til kvaðavinnu og urðu kvaðavinnumennirnir þrjátíu þúsund að tölu. 28 Hann sendi þá til skiptis til Líbanons, tíu þúsund í hverjum mánuði. Þeir voru einn mánuð í Líbanon og tvo mánuði heima. Adóníram stjórnaði kvaðavinnunni. 29 Enn fremur hafði Salómon sjötíu þúsund burðarmenn og áttatíu þúsund steinsmiði í fjöllunum. 30 Auk yfirhéraðsstjóra Salómons voru þrjú þúsund og þrjú hundruð verkstjórar yfir þeim sem verkið unnu. 31 Konungur gaf skipun um að brjóta stóra valda steina til þess að hann gæti gert undirstöðu hússins úr höggnu grjóti. 32 Smiðir Salómons og Hírams ásamt mönnum frá Gebel hjuggu steinana til og gengu frá viðnum og steinunum til byggingarinnar.