Hvatning og viðvörun

1 Hlýðið nú, Ísraelsmenn, á lögin og ákvæðin sem ég kenni ykkur. Fylgið þeim svo að þið haldið lífi og komist inn í landið sem Drottinn, Guð feðra ykkar, fær ykkur til eignar.
2 Engu megið þið bæta við það sem ég býð ykkur og engu sleppa heldur skuluð þið halda boð Drottins, Guðs ykkar, sem ég set ykkur.
3 Þið hafið séð með eigin augum hvað Drottinn gerði vegna Baal Peórs. Drottinn, Guð ykkar, upprætti hvern þann úr samfélagi ykkar sem fylgdi Baal Peór. 4 En þið sem hélduð ykkur fast við Drottin, Guð ykkar, eruð öll á lífi enn í dag.
5 Sjá! Eins og Drottinn, Guð hefur falið mér kenni ég ykkur lög og ákvæði sem þið skuluð fara eftir í landinu sem þið eruð að halda inn í og taka til eignar. 6 Haldið þau og fylgið þeim því að það mun sýna öðrum þjóðum visku ykkar og skilning en þær munu segja þegar þær heyra um öll þessi lög: „Þessi mikla þjóð er sannarlega vitur og vel að sér.“ 7 Hver er sú stórþjóð að hún hafi guði jafnnærri sér og Drottinn, Guð okkar, er nærri okkur þegar við áköllum hann? 8 Og hvaða stórþjóð hefur ákvæði og lög sem jafnast á við það lögmál sem ég legg fyrir ykkur í dag?
9 En vertu varkár og gættu þín vel svo að þú gleymir ekki þeim atburðum sem þú hefur séð með eigin augum. Láttu þá ekki líða þér úr minni meðan þú lifir og þú skalt segja börnum þínum og barnabörnum frá þeim.
10 Gleymdu ekki deginum þegar þú stóðst frammi fyrir augliti Drottins, Guðs þíns, við Hóreb þegar Drottinn sagði við mig: „Stefndu fólkinu saman svo að það heyri orð mín og læri að óttast mig meðan það lifir í landinu og kenni það einnig börnum sínum.“
11 Þið komuð og námuð staðar undir fjallinu. Fjallið stóð í björtu báli og eldtungurnar teygðu sig til himins, upp í sorta, ský og myrkur. 12 Þá ávarpaði Drottinn ykkur úr eldinum. Þið heyrðuð þrumuraustina en sáuð ekki mynd neins, þið heyrðuð aðeins hljóminn.
13 Drottinn birti ykkur sáttmála sinn sem hann bauð ykkur að fylgja, boðorðin tíu. Hann skráði þau á tvær steintöflur. 14 Þá bauð Drottinn mér að kenna ykkur lög og ákvæði til að fylgja í landinu sem þið haldið nú inn í til að slá eign ykkar á.
15 En gætið ykkar vel því að líf ykkar liggur við. Þið sáuð ekki mynd neins daginn sem Drottinn ávarpaði ykkur úr eldinum við Hóreb. 16 Steypið ykkur því ekki í glötun með því að gera ykkur skurðgoð í einhverri mynd, hvorki í mynd karls né konu. 17 Gerið enga mynd í líki nokkurs dýrs á jörðu eða í líki nokkurs vængjaðs fugls sem um loftið flýgur 18 eða í líki nokkurs kvikindis sem skríður á jörðu eða í líki nokkurs fisks í vatninu undir jörðinni. 19 Þegar þú hefur augu þín til himins og sérð sólina, tunglið, stjörnurnar, allan himinsins her, láttu þá ekki blekkjast til að sýna þeim lotningu og þjóna þeim. Drottinn, Guð þinn, hefur veitt öllum þjóðum undir himninum hlutdeild í þeim.
20 En ykkur hefur Drottinn tekið að sér og leitt ykkur út úr járnbræðsluofninum, út úr Egyptalandi, til þess að þið yrðuð eignarþjóð hans eins og þið eruð í dag. 21 Drottinn reiddist mér að vísu vegna ykkar. Hann sór að ég skyldi ekki fara yfir Jórdan, að ég skyldi ekki komast inn í landið góða sem Drottinn, Guð ykkar, gefur þér að erfðahlut. 22 Ég verð að deyja í þessu landi, ég fer ekki yfir Jórdan. En þið farið yfir hana og takið þetta góða land til eignar.
23 Gætið ykkar og gleymið ekki sáttmálanum sem Drottinn, Guð ykkar, gerði við ykkur. Þið megið ekki gera ykkur skurðgoð í líki neins þess sem Drottinn, Guð þinn, hefur bannað þér, 24 því að Drottinn, Guð þinn, er eyðandi eldur, afbrýðisamur Guð.
25 Þegar þú hefur eignast börn og barnabörn og þið hafið sest að í landinu, steypið ykkur þá ekki í glötun með því að gera skurðgoð í einhverri mynd. Með því gerið þið það sem illt er í augum Drottins, Guðs ykkar, og vekið heift hans. 26 Nú í dag kalla ég himin og jörð til vitnis gegn ykkur um að ykkur verður þá brátt eytt úr landinu sem þið eruð á leiðinni til þegar þið farið yfir Jórdan til að taka það til eignar. Þá munuð þið ekki búa þar lengi heldur verður ykkur eytt. 27 Drottinn mun dreifa ykkur meðal framandi þjóða og aðeins örfáir ykkar munu komast af meðal þjóðanna sem Drottinn flytur ykkur til. 28 Þar munuð þið þjóna guðum, handaverkum manna, stokkum og steinum sem hvorki sjá né heyra, eta né finna lykt. 29 Þar munt þú leita Drottins, Guðs þíns, og þú munt finna hann ef þú leitar hans af öllu hjarta þínu og allri sálu þinni.
30 Í neyð þinni mun allur þessi boðskapur ná eyrum þínum, á komandi tímum munt þú snúa aftur til Drottins, Guðs þíns, og hlýða boðum hans. 31 Því að Drottinn, Guð þinn, er miskunnsamur Guð. Hann bregst þér ekki og lætur þig ekki farast. Hann gleymir ekki sáttmálanum við feður þína sem hann staðfesti með eiði.
32 Spyrðu um fyrri tíma, sem voru fyrir þína tíð, allt frá þeim degi að Guð skapaði manninn á jörðinni, kannaðu heimskauta á milli: Hefur nokkru sinni orðið jafnstórfenglegur atburður og þessi eða heyrst um nokkuð þessu líkt? 33 Hefur nokkur þjóð heyrt Guð tala hátt úr eldi, á sama hátt og þú heyrðir, og þó haldið lífi? 34 Eða hefur nokkur guð reynt að sækja sér þjóð frá annarri þjóð með máttarverkum, táknum og undrum og með stríði, sterkri hendi og útréttum armi og miklum skelfingum eins og Drottinn, Guð ykkar, gerði fyrir augum ykkar í Egyptalandi? 35 Þér var leyft að sjá þetta svo að þú játaðir að Drottinn er Guð og enginn annar en hann. 36 Af himni lét hann þig heyra raust sína til þess að leiðbeina þér. Á jörðu sýndi hann þér sinn mikla eld og úr eldinum heyrðir þú orð hans. 37 Af því að hann elskaði forfeður þína valdi hann niðja þeirra. Hann leiddi þig sjálfur út úr Egyptalandi með sínum mikla mætti. 38 Hann ruddi úr vegi þínum þjóðum, sem voru fjölmennari og voldugri en þú, til þess að fara með þig inn í land þeirra og gefa þér það að erfðalandi eins og nú er orðið.
39 Í dag skalt þú játa og festa þér í huga að Drottinn er Guð á himnum uppi og á jörðu niðri og enginn annar. 40 Haltu því lög hans og ákvæði sem ég set þér nú í dag svo að þér vegni vel og síðan niðjum þínum og þú lifir lengi í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér til ævarandi eignar.

Griðaborgir austan við Jórdan

41 Þá veitti Móse þremur borgum austan við Jórdan sérstöðu. 42 Til þeirra gat hver sá flúið og haldið lífi sem án ásetnings varð manni að bana og hafði ekki sýnt honum fjandskap áður. 43 Borgirnar voru Beser á hásléttunni í eyðimörkinni fyrir niðja Rúbens, Ramót í Gíleað fyrir Gað og Gólan í Basan fyrir Manasse.

Boðun lögmálsins

Inngangur

44 Þetta er lögmálið sem Móse lagði fyrir Ísraelsmenn. 45 Þetta eru þau fyrirmæli, lög og ákvæði sem Móse boðaði Ísraelsmönnum þegar þeir fóru út úr Egyptalandi 46 og voru handan Jórdanar í dalnum gegnt Bet Peór, í landi Síhons Amorítakonungs sem ríkti í Hesbon. Móse og Ísraelsmenn höfðu fellt hann þegar þeir fóru út úr Egyptalandi. 47 Þá höfðu þeir tekið land hans til eignar ásamt landi Ógs, konungs í Basan. Þeir höfðu slegið eign sinni á land hans og land Ógs, konungs í Basan, land beggja konunga Amoríta austan við Jórdan, 48 landið frá Aróer, sem liggur í jaðri Arnondalsins, allt að Síonarfjalllendi, það er Hermon, 49 og allt Arabaláglendið austan við Jórdan, að Arabavatninu undir Pisgahlíðum.