Fyrirmæli um sáttmálshátíð

Altarið á Ebalfjalli

1 Móse og öldungar Ísraels gáfu fólkinu eftirfarandi fyrirmæli:
„Haldið öll þau fyrirmæli sem ég set ykkur í dag. 2 Þegar þið eruð komin yfir Jórdan og inn í landið sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér þá skalt þú reisa nokkra stóra steina. Þú skalt kalka þá að utan 3 og skrifa á þá öll ákvæði þessa lögmáls þegar þú ert kominn yfir ána, svo að þú komist inn í landið sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér, land sem flýtur í mjólk og hunangi, eins og Drottinn, Guð feðra þinna, hefur heitið þér.
4 Þegar þið eruð komin yfir Jórdan skuluð þið reisa þessa steina á Ebalfjalli, sem ég hef gefið ykkur fyrirmæli um í dag, og kalka þá. 5 Þar skaltu einnig reisa Drottni, Guði þínum, altari. Steinana máttu ekki höggva með járnverkfærum. 6 Úr óhöggnum steinum skaltu reisa altari Drottins, Guðs þíns. Á því skaltu færa Drottni, Guði þínum, brennifórnir. 7 Þú skalt slátra á því dýrum til heillafórnar og matast þar og gleðjast frammi fyrir Drottni, Guði þínum. 8 Á steinana skaltu skrifa öll ákvæði þessa lögmáls með skýru letri.“
9 Móse og Levítaprestarnir ávörpuðu allan Ísrael og sögðu: „Ver hljóður og hlýð á, Ísrael! Í dag ertu orðinn lýður Drottins, Guðs þíns. 10 Þú átt að hlýða rödd Drottins, Guðs þíns, og fylgja boðum hans og lögum sem ég set þér í dag.“ 11 Sama dag gaf Móse fólkinu eftirfarandi fyrirmæli: 12 „Þessir ættbálkar eiga að standa á Garísímfjalli til að blessa fólkið þegar þið eruð komin yfir Jórdan: Símeon, Leví, Júda, Íssakar, Jósef og Benjamín. 13 En þessir ættbálkar eiga að standa á Ebalfjalli og lýsa yfir bölvun: Rúben, Gað, Asser, Sebúlon, Dan og Naftalí.

Bölvanir

14 Síðan eiga Levítarnir að ávarpa alla Ísraelsmenn og hrópa hárri röddu:
15 Bölvaður er sá maður sem gerir skurðgoð eða steypt líkneski sem er Drottni viðurstyggð, handaverk smiðs, og reisir það á laun. Allt fólkið skal svara og segja: Amen.
16 Bölvaður er sá sem óvirðir föður sinn eða móður. Allt fólkið skal segja: Amen.
17 Bölvaður er sá sem færir landamerki nágranna síns úr stað. Allt fólkið skal segja: Amen.
18 Bölvaður er sá sem leiðir blindan mann af réttri leið. Allt fólkið skal segja: Amen.
19 Bölvaður er sá sem hallar rétti aðkomumanns, munaðarleysingja eða ekkju. Allt fólkið skal segja: Amen.
20 Bölvaður er sá sem leggst með konu föður síns því að hann hefur flett upp ábreiðu föður síns. Allt fólkið skal segja: Amen.
21 Bölvaður er sá sem hefur samræði við nokkra skepnu. Allt fólkið skal segja: Amen.
22 Bölvaður er sá sem leggst með systur sinni, hvort heldur hún er dóttir föður hans eða móður. Allt fólkið skal segja: Amen.
23 Bölvaður er sá sem leggst með tengdamóður sinni. Allt fólkið skal segja: Amen.
24 Bölvaður er sá sem vegur náunga sinn á laun. Allt fólkið skal segja: Amen.
25 Bölvaður er sá sem lætur múta sér til að vega saklausan mann. Allt fólkið skal segja: Amen.
26 Bölvaður er sá sem ekki virðir ákvæði þessara laga með því að fylgja þeim. Allt fólkið skal segja: Amen.“