1 Þegar deila rís milli manna og þeir fara fyrir rétt og dómur er kveðinn upp yfir þeim á þann veg að sá saklausi er sýknaður en sá seki sakfelldur 2 og hefur verið dæmdur til hýðingar, skal dómarinn láta leggja hann niður og hýða í viðurvist sinni, jafnmörgum höggum og sök hans hæfir. 3 Hann má láta hýða hann fjörutíu vandarhögg, ekki fleiri. Yrði hann hýddur umfram það kynni þessi bróðir þinn að verða lítillækkaður í augum þínum.
4 Þú skalt ekki múlbinda uxann er hann þreskir.

Mágskyldan

5 Þegar bræður búa saman og annar þeirra deyr án þess að hafa eignast son skal ekkja hins látna ekki giftast neinum utan fjölskyldunnar heldur skal mágur hennar ganga inn til hennar, taka hana sér fyrir konu og gegna mágskyldunni við hana. 6 Fyrsti sonurinn, sem hún fæðir, skal bera nafn hins látna svo að nafn hans afmáist ekki úr Ísrael. [ 7 Vilji maðurinn ekki kvænast mágkonu sinni skal hún ganga til öldunganna á þingstaðnum í borgarhliðinu og segja: „Mágur minn hefur neitað að halda við nafni bróður síns í Ísrael. Hann vill ekki gegna mágskyldunni við mig.“ 8 Þá skulu öldungar í borg hans kalla hann fyrir sig og tala við hann. Reynist hann ósveigjanlegur og segi: „Ég vil ekki kvænast henni,“ 9 skal mágkona hans ganga til hans frammi fyrir öldungunum, draga skóinn af fæti hans, hrækja framan í hann, taka til máls og segja: „Þannig skal farið með hvern þann sem ekki vill reisa við ætt bróður síns. 10 Hvarvetna í Ísrael skal ætt hans nefnd Berfótarætt.“

Ýmis lagaákvæði

11 Þegar tveir menn lenda í áflogum og kona annars þeirra kemur til þeirra til að bjarga manni sínum úr greipum andstæðingsins og hún réttir út höndina og grípur um hreðjar honum, 12 skaltu höggva af henni höndina og ekki sýna henni neina miskunn.
13 Þú skalt ekki hafa tvenns konar vogarsteina í poka þínum, léttan og þungan. 14 Þú skalt ekki hafa tvenns konar efu í húsi þínu, langa og stutta. 15 Þú skalt hafa nákvæma og rétta vogarsteina og þú skalt hafa nákvæma og rétta efu svo að þú lifir lengi í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér. 16 Því að hver sem þetta gerir, sérhver svikari, er Drottni, Guði þínum, viðurstyggð.
17 Minnstu þess hvernig Amalek lék þig á leiðinni þegar þið fóruð frá Egyptalandi. 18 Án þess að óttast Guð réðst hann á þig á leiðinni, þegar þú varst þreyttur og uppgefinn, og vann á öllum sem voru orðnir örmagna og höfðu dregist aftur úr. 19 Þess vegna skalt þú afmá allt undir himninum sem minnir á Amalek. Gleymdu því ekki þegar Drottinn, Guð þinn, hefur veitt þér frið fyrir öllum óvinum þínum kringum þig í landinu sem Drottinn, Guð þinn, fær þér að erfðahlut og þú tekur til eignar.