Bann við kanverskum sorgarsiðum
1 Þið eruð börn Drottins, Guðs ykkar. Þið megið ekki rista á ykkur skinnsprettur og ekki raka á ykkur krúnu yfir enninu eftir framliðinn mann 2 því að þú ert þjóð helguð Drottni, Guði þínum. Drottinn hefur valið þig úr öllum þjóðunum, sem á jörðinni eru, til að vera eignarlýður sinn.
Hrein fæða og óhrein
3 Þú skalt ekki eta neitt viðbjóðslegt. 4 Þetta eru dýrin sem þið megið eta: naut, sauðfé, geitur, 5 hirtir, skógargeitur, dádýr, steingeitur, fjallageitur, antílópur og gemsur.
6 Þið megið eta öll dýr sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra. 7 En þessi dýr, sem jórtra og hafa alklofnar klaufir, megið þið ekki eta: úlfalda, héra og stökkhéra því að þau jórtra að vísu en hafa ekki klaufir. Þau skulu vera ykkur óhrein, 8 einnig villisvínið því að það hefur klaufir en jórtrar ekki. Það skal vera ykkur óhreint. Þið megið hvorki leggja ykkur kjöt þessara dýra til munns né snerta hræ þeirra.
9 Af lagardýrum megið þið neyta alls sem hefur ugga og hreistur. 10 En þið megið ekki eta neitt sem hvorki hefur ugga né hreistur. Það skal vera ykkur óhreint.
11 Alla hreina fugla megið þið eta. 12 En þetta eru fuglarnir sem þið megið ekki eta: örninn, gammurinn, skegggammurinn, 13 gleðan, ýmsar fálkategundir, 14 hrafnakynið, 15 strúturinn, uglan, mávurinn, haukakynið, 16 hornuglan, náttuglan, snæuglan, 17 pelíkaninn, hrægammurinn, súlan, 18 storkurinn, lóukynið, herfuglinn og leðurblakan.
19 Öll vængjuð skordýr skulu vera ykkur óhrein, þau má ekki eta. 20 En alla hreina fugla má eta.
21 Þið megið ekki eta neitt sjálfdautt. Þú mátt gefa það aðkomumanni í borgum þínum að eta eða þú getur selt það aðkomumanni. En þú ert Drottni, Guði þínum, helgaður lýður.
Þú skalt ekki sjóða geitakið í mjólk móður sinnar.
Ákvæði um tíundir og afgjöld
22 Á hverju ári skaltu taka tíund af allri uppskerunni sem akurinn gefur af sáðkorni þínu. 23 Síðan skaltu neyta tíundarinnar af korni þínu, víni og olíu og af frumburðum nauta þinna og sauðfjár frammi fyrir Drottni, Guði þínum, á staðnum sem hann velur til þess að láta nafn sitt búa þar svo að þú lærir að óttast Drottin, Guð þinn, alla daga.
24 Sé staðurinn of langt frá þér sem Drottinn, Guð þinn, hefur valið til að setja nafn sitt á og sé leiðin of löng til þess að þú getir flutt þangað það sem Drottinn, Guð þinn, hefur blessað þig með, 25 þá skaltu koma tíund þinni í peninga. Þú skalt binda um silfrið og taka það með þér til staðarins sem Drottinn, Guð þinn, hefur valið sér. 26 Fyrir silfrið skaltu kaupa hvað sem þig lystir: naut og sauðfé, vín og sterka drykki eða hvað annað sem þig langar í. Þú skalt neyta þess frammi fyrir Drottni, Guði þínum, og gleðjast með fjölskyldu þinni.
27 Þú skalt ekki setja Levítana hjá, sem búa í borg þinni, því að þeir hafa hvorki fengið land né erfðahluti eins og þú.
28 Þriðja hvert ár skalt þú taka til alla tíundina af uppskeru þinni það árið og koma henni fyrir innan borgarhliða þinna. 29 Þá geta Levítarnir, sem hvorki hafa hlotið land né erfðahluti eins og þú, aðkomumennirnir, munaðarleysingjar og ekkjur í borgum þínum komið og etið sig mett svo að Drottinn, Guð þinn, blessi þig í öllu sem þú tekur þér fyrir hendur.