Ester verður drottning Persa
1 Eftir þetta rann konungi reiðin. En við Astin kom hann fram eins og hún væri ekki til enda mundi hann það sem hún hafði sagt og hvernig hann hafði dæmt hana. 2 Þjónar konungsins sögðu við hann: „Það ætti að leita að fögrum og óspjölluðum meyjum fyrir konung. 3 Konungur skal skipa trúnaðarmenn í öllum þorpum ríkisins til að velja ungar meyjar og fagrar ásýndum fyrir kvennabúrið í borginni Súsa. Þær skulu fólgnar geldingi konungs sem gætir kvennabúrsins og þeim skal séð fyrir smyrslum og öðru því sem þær þarfnast. 4 Sú kona sem konungi fellur best í geð skal verða drottning í stað Astin.“ Þetta þótti konungi heillaráð og fór hann eftir því.
5 Í höfuðborginni Súsa bjó Gyðingur, Mardokaí að nafni. Hann var sonur Jaírs Shimisonar Kíssonar af ættkvísl Benjamíns 6 og var einn af föngunum sem Nebúkadnesar Babýloníukonungur hafði herleitt frá Jerúsalem. 7 Hann átti fósturdóttur, Ester að nafni. Var hún dóttir Aminadabs föðurbróður hans. Hafði Mardokaí alið hana upp allt frá því að foreldrar hennar létust og hugðist kvænast henni. Var hún bráðfögur stúlka.
8 Þegar fyrirmæli konungs höfðu verið gerð heyrinkunn voru margar stúlkur fluttar til höfuðborgarinnar Súsa. Voru þær settar í umsjá Gai. Einnig var komið með Ester til Gai sem gætti kvennabúrsins. 9 Stúlkan geðjaðist Gai og varð honum vel til hennar. Hann lét ekki dragast að afhenda henni smyrsli og annað sem henni var ætlað og fékk henni þær sjö stúlkur sem hún átti að fá úr höllinni. Hann gerði sérlega vel við Ester og þernur hennar í kvennabúrinu. 10 Ester skýrði hvorki frá þjóðerni sínu né ættlandi enda hafði Mardokaí sagt henni að láta það ekki uppi. 11 Dag hvern gekk Mardokaí um í garði kvennabúrsins til að fylgjast með því hvernig Ester vegnaði.
12 Tólf mánuði voru stúlkurnar hafðar þar áður en þær gengju inn til konungs. Svo langan tíma tekur fegrunaraðgerðin. Í sex mánuði var stúlkan smurð myrruolíu og í aðra sex með ilmefnum og öðrum fegrunarlyfjum kvenna. 13 Þá gat hún gengið inn til konungs. Var hún þá afhent þeim fylgdarmanni sem falið var að fara með hana frá kvennabúrinu til konungshallarinnar. 14 Að kveldi gengur hún þangað inn en að morgni fer hún í annað kvennabúr sem einnig er gætt af Gai, geldingi konungs. Ekki fer hún síðan aftur til konungs nema hann kalli á hana með nafni.
15 Kom nú að þeim tíma er Ester, dóttir Aminadabs föðurbróður Mardokaí, skyldi ganga inn til konungs. Í engu hafði hún breytt gegn því sem geldingurinn Gai kvennabúrsvörður bauð henni. Allir sem litu Ester hrifust af henni. 16 Í tólfta mánuði ársins, mánuðinum adar, á sjöunda stjórnarári Artaxerxesar, kom Ester inn til hans. 17 Konungur varð ástfanginn af Ester. Hreif hún hann meira en allar hinar meyjarnar og setti hann drottningarkórónuna á höfuð hennar. 18 Konungur hélt öllum vinum sínum og herforingjum veislu, sem stóð í sjö daga, til að halda upp á brúðkaup sitt og Esterar. Einnig veitti hann þegnum sínum skattaívilnanir.
Mardokaí bjargar lífi konungs
19 Mardokaí gegndi þjónustu í höllinni.
20 Ekki skýrði Ester frá ætterni sínu því að það hafði Mardokaí bannað henni og lagt ríkt á við hana að óttast Guð og fara að boðorðum hans eins og hún hafði gert þegar hún bjó hjá honum. Ester breytti ekki hegðun sinni í neinu.
21 En tveir geldingar konungs, sem voru yfir lífverðinum, reiddust vegna frama Mardokaí og gerðu samsæri um að ráða Artaxerxesi bana. 22 Mardokaí komst að raun um þetta og sagði Ester frá og skýrði hún konungi frá samsærinu. 23 Konungurinn yfirheyrði geldingana báða og lét hengja þá. Síðan bauð konungur að skrifa skyldi skýrslu um frábæra þjónustu Mardokaí honum til heiðurs og forða henni frá gleymsku með því að koma henni fyrir í bókasafni konungs.