Mordekaí biður um hjálp
1 Er Mordekaí frétti hvernig málum var komið reif hann klæði sín og klæddist sekk og ösku, gekk síðan út í miðja borgina, kveinaði hátt og beisklega 2 og gekk að hallarhliðinu. Inn um það mátti enginn fara sem klæddur var hærusekk. 3 Í öllum héruðum varð mikill harmur meðal Gyðinga þegar fregnaðist um boð konungs og tilskipun. Þeir föstuðu, grétu, börðu sér á brjóst og flestir gerðu sér flet úr sekk og ösku.
4 Þegar þernur og geldingar Esterar komu til hennar og sögðu henni frá þessu var drottningu mjög brugðið. Hún lét senda Mordekaí föt svo að hann gæti skipt á þeim og sekknum. En hann neitaði að taka við þeim. 5 Ester kallaði þá til sín Hatak, einn af geldingum konungs sem hann hafði sett til að þjóna henni. Sagði hún honum að fara til Mordekaí og spyrja hvað amaði að honum og hverju það sætti. 6 Hatak gekk út til Mordekaí á torgið fyrir framan hallarhliðið 7 og Mordekaí greindi honum frá öllu sem fyrir hann hafði komið og einnig fjárfúlgunni, sem Haman hafði lofað að leggja í sjóði konungs, yrði honum leyft að tortíma Gyðingum. 8 Hann fékk honum einnig afrit af tilskipuninni um tortímingu Gyðinga sem gefin hafði verið út í Súsa. Bað hann að Ester yrði sýnt bréfið, henni sögð tíðindin og hún beðin að ganga fyrir konung til að grátbæna hann um miskunn og biðja þjóð sinni vægðar.
9 Hatak fór og flutti Ester orð Mordekaí 10 og bað Ester hann þá að flytja Mordekaí þetta svar: 11 „Allir þjónar konungs og þegnar í löndum hans vita að ein lög gilda um hvern mann, karl eða konu, sem gengur fyrir konung inn í innri garð hallarinnar án þess að konungur hafi boðað hann til sín. Hans bíður dauðarefsing nema því aðeins að konungur rétti fram gullsprota sinn til marks um að hann megi halda lífi. Nú eru þrjátíu dagar liðnir síðan ég var síðast kölluð inn til konungs.“
12 Þegar Mordekaí voru flutt orð Esterar 13 bað hann um að þessu svari yrði skilað til hennar: „Þú skalt ekki ætla þér þá dul að þú verðir hólpin, ein allra Gyðinga, þótt þú dveljist í konungshöll. 14 Fari svo að þú þegir nú mun Gyðingum eigi að síður berast hjálp og frelsun úr öðrum stað. En það yrðu endalok þín og ættar föður þíns. Hver veit nema þú hafir orðið drottning nú vegna þessara atburða?“
15 Þá sendi Ester þessi svör til Mordekaí: 16 „Farðu og kallaðu saman alla Gyðinga sem nú er að finna í Súsa. Haldið föstu mín vegna og etið hvorki né drekkið í þrjá sólarhringa, hvorki á nóttu né degi. Eins munum við fasta, ég og þernur mínar. Síðan geng ég fyrir konung enda þótt það sé andstætt lögunum. Ef ég dey þá dey ég.“
17 Mordekaí gekk þá burt og fór að öllu eins og Ester hafði lagt fyrir.