Daríus styður musterisbygginguna
1 Þá gaf Daríus konungur skipun um að leitað skyldi í fjárhirslunni þar sem skjöl voru geymd í Babýlon. 2 Fannst þá bókfell í virkisborginni Ahmeta í skattlandinu Medíu þar sem skrifað stóð: „Yfirlýsing: 3 Á fyrsta stjórnarári Kýrusar konungs gaf Kýrus konungur svohljóðandi fyrirmæli: Hvað hús Guðs í Jerúsalem snertir þá skal það endurreist svo að þar verði staður til fórna. Byggt skal á gamla grunninum. Húsið skal verða sextíu álnir á hæð og sextíu álnir á breidd. 4 Það skal reist úr þremur lögum af stórum steinum og einu af viði. Kostnaðurinn skal greiddur úr fjárhirslu konungs. 5 Enn fremur skal gull- og silfuráhöldum úr húsi Guðs skilað en þau tók Nebúkadnesar úr musterinu í Jerúsalem og flutti til Babýlonar. Þau skal flytja á sinn fyrri stað í musterinu í Jerúsalem og koma fyrir í húsi Guðs.“
6 „Því skuluð þið Tatnaí, landstjóri skattlandsins handan fljóts, og Setar Bosnaí og félagar ykkar, embættismennirnir handan fljóts, láta af afskiptum ykkar. 7 Vinna við hús Guðs haldi áfram. Landstjóra Gyðinga og öldungum er heimilt að endurreisa húsið á sínum fyrri stað. 8 Hér með gef ég fyrirmæli um hvernig þið eigið að hjálpa öldungum Gyðinga við byggingu þessa húss Guðs. Þessum mönnum skal greiða kostnaðinn að fullu af tekjum konungs frá skattlandinu handan fljóts svo að verkið tefjist ekki. 9 Á hverjum degi skal undanbragðalaust færa þeim eins mörg ungneyti, hrúta og lömb og þarf til að færa Guði himinsins að brennifórn og prestarnir í Jerúsalem mæla fyrir um. Auk þess skal láta þeim í té hveiti, salt, vín og olíu 10 svo að þeir megi færa Guði himinsins þekkar fórnir og biðja fyrir lífi konungs og sona hans. 11 Loks gef ég þessi fyrirmæli: Hver sá maður, sem breytir gegn þessari tilskipun, skal negldur á bjálka sem rifinn hefur verið úr hans eigin húsi og hús hans skal lagt í rúst vegna þessa afbrots. 12 En sá Guð, sem lætur nafn sitt búa á þessum stað, steypi hverjum þeim konungi og þjóð sem tekur sér fyrir hendur að breyta gegn þessu boði og eyða þessu húsi Guðs í Jerúsalem. Ég, Daríus, hef gefið þessa skipun, henni skal gaumgæfilega framfylgt.“
Vígsluhátíð musterisins
13 Þeir Tatnaí, landstjóri handan fljóts, Setar Bosnaí og félagar þeirra fóru í einu og öllu eftir tilskipun Daríusar konungs sem hann hafði sent þeim. 14 Öldungar Gyðinga héldu byggingunni áfram og sóttist verkið vel vegna spámannsstarfs Haggaí spámanns og Sakaría Iddósonar. Tókst þeim að ljúka byggingunni samkvæmt fyrirmælum frá Guði Ísraels og tilskipunum Kýrusar og Daríusar og Artaxerxesar Persakonunga. 15 Húsið var fullgert á þriðja degi adarmánaðar á sjötta stjórnarári Daríusar konungs.
16 Ísraelsmenn, það er prestarnir, Levítarnir og aðrir, sem komnir voru heim úr útlegðinni, héldu vígsluhátíð húss Guðs með fögnuði. 17 Við vígslu húss Guðs fórnuðu þeir hundrað nautum, tvö hundruð hrútum og fjögur hundruð lömbum. Að auki færðu þeir tólf geithafra í syndafórn fyrir allan Ísrael, jafnmarga ættbálkum Ísraels. 18 Þá settu þeir presta í flokka og Levíta í deildir til þjónustu við Guð í Jerúsalem eins og ritað er í bók Móse.
Páskar og hátíð hinna ósýrðu brauða
19 Þeir sem komnir voru heim úr útlegðinni héldu páska á fjórtánda degi fyrsta mánaðarins. 20 Prestarnir og Levítarnir höfðu hreinsað sig, allir sem einn. Allir voru þeir nú hreinir og slátruðu því páskalambinu fyrir alla sem voru komnir, fyrir embættisbræður sína, prestana, og sjálfa sig. 21 Síðan neyttu allir Ísraelsmenn, sem voru komnir heim úr útlegðinni, páskalambsins ásamt öllum sem höfðu greint sig frá óhreinleika þjóðanna í landinu og gengið til liðs við Ísraelsmenn til þess að leita Drottins, Guðs Ísraels. 22 Þeir héldu einnig hátíð hinna ósýrðu brauða í sjö daga með fögnuði því að Drottinn hafði glatt þá með því að snúa hug Assýríukonungs til þeirra svo að hann studdi starf þeirra að húsi Guðs, Ísraels Guðs.