Musterisbygging hafin að nýju
1 Haggaí spámaður og Sakaría Iddóson spámaður fluttu nú Gyðingum í Júda og Jerúsalem spámannlegan boðskap í nafni Guðs Ísraels sem var yfir þeim. 2 Þá hófu Serúbabel Sealtíelsson og Jesúa Jósadaksson að nýju að reisa hús Guðs í Jerúsalem. Spámenn Guðs voru með þeim og veittu þeim fulltingi.
3 Um sama leyti komu Tatnaí, landstjóri handan fljóts, og Setar Bosnaí og félagar þeirra til Gyðinganna og spurðu: „Hver skipaði ykkur að endurreisa þetta hús og þilja það innan?“ 4 Enn fremur spurðu þeir: „Hvað heita mennirnir sem eru að reisa þessa byggingu?“ 5 En auga Guðs þeirra vakti yfir öldungum Gyðinga sem voru því látnir óáreittir þar til Daríusi hafði verið send skýrsla og skriflegt svar komið við henni.
6 Þetta er afrit af bréfinu sem Tatnaí, landstjóri handan fljóts, og Setar Bosnaí ásamt félögum sínum, embættismönnum handan fljóts, sendu Daríusi konungi. 7 Þeir sendu honum skýrslu sem í stóð:
„Bestu heillaóskir til Daríusar konungs. 8 Hér með tilkynnist konungi að við höfum farið til Júdahéraðs, til húss hins mikla Guðs. Verið er að byggja það úr stórum steinum og borðviður er lagður á veggina. Unnið er sleitulaust og verkið vel af hendi leyst.
9 Þá spurðum við öldungana á þessa leið: Hver hefur skipað ykkur að endurreisa þetta hús og þilja það innan? 10 Við spurðum þá einnig að nafni til þess að við gætum tilkynnt þér nöfn forystumannanna skriflega. 11 Þeir gáfu þessa skýringu: Við erum þjónar Guðs himins og jarðar og erum að endurreisa það hús sem stóð hér fullgert í mörg ár. Mikill konungur í Ísrael reisti það og fullgerði. 12 En sökum þess að forfeður okkar reittu Guð himinsins til reiði seldi hann Kaldeanum Nebúkadnesari Babýloníukonungi þá í hendur. Hann braut niður þetta hús og flutti fólkið í útlegð til Babýlonar. 13 En á fyrsta stjórnarári Kýrusar Babýloníukonungs gaf Kýrus konungur fyrirmæli um að endurreisa þetta hús Guðs.
14 Lét Kýrus konungur sækja gull- og silfuráhöld húss Guðs, musterisins í Jerúsalem, sem Nebúkadnesar hafði tekið og flutt í musterið í Babýlon. Kýrus fékk þau manni nokkrum, Sesbasar að nafni, sem hann hafði gert að landstjóra, 15 og sagði við hann: Taktu þessi áhöld og farðu með þau í musterið í Jerúsalem því að hús Guðs skal endurreist á sínum fyrri stað. 16 Síðan kom Sesbasar þessi og lagði grunn að húsi Guðs í Jerúsalem. Þaðan í frá og fram á þennan dag hefur verið unnið að smíði hússins og er henni ekki enn lokið.
17 Þóknist konungi má leita í hinum konunglegu fjárhirslum í Babýlon hvort til er heimild með fyrirmælum Kýrusar konungs um að endurreisa þetta hús Guðs í Jerúsalem. Konungur ætti síðan að senda greinargerð um vilja sinn í þessu máli.“