Óheimil sambúð leyst upp
1 Esra flutti bæn sína og játningu grátandi og liggjandi á hnjánum frammi fyrir húsi Guðs. Á meðan safnaðist að honum mjög mikill söfnuður Ísraelsmanna, karlar, konur og börn. Og fólkið grét hástöfum. 2 Þá tók Sekanja Jekíelsson, afkomandi Elams, til máls og sagði við Esra: „Við höfum brugðist Guði okkar með því að búa með konum af framandi þjóðerni, afkomendum þjóðanna í landinu. Þó er ekki öll von úti fyrir Ísrael. 3 Nú skulum við gera sáttmála við Guð okkar og skuldbinda okkur til að senda frá okkur allar þessar konur og börnin sem þær hafa fætt, samkvæmt ráði herra míns og allra sem óttast boð Guðs okkar. Eftir lögmálinu skal breytt. 4 Rístu á fætur því að mál þetta er í þínum höndum. Við stöndum með þér, vertu djarfur og gakktu til verks.“
5 Þá reis Esra á fætur og tók eið af leiðtogum prestanna, Levítunum og öllum Ísrael um að framfylgja þessu. Þegar þeir höfðu svarið eiðinn 6 fór Esra þaðan sem hann hafði verið frammi fyrir húsi Guðs og gekk til herbergis Jóhanans Eljasíbssonar. Þar var hann um nóttina og neytti hvorki matar né drykkjar því að hann syrgði enn vegna svika þeirra sem höfðu snúið heim úr útlegðinni.
7 Nú var boð látið ganga til allra í Júda og Jerúsalem, sem heim höfðu snúið, og þeim stefnt saman í Jerúsalem. 8 Hver sem ekki kæmi innan þriggja daga skyldi útilokaður frá söfnuði þeirra sem heim höfðu snúið og allar eignir hans helgaðar banni samkvæmt ákvörðun leiðtoganna og öldunganna. 9 Á þriðja degi þaðan í frá, tuttugasta dag níunda mánaðar, söfnuðust allir karlmenn í Júda og Benjamín saman í Jerúsalem. Allt fólkið settist niður á torginu við hús Guðs, skjálfandi vegna þessa máls og af því að það rigndi. 10 Þá reis Esra prestur á fætur, ávarpaði þá og sagði: „Þið hafið svikið með því að taka til ykkar útlendar konur og með því aukið sekt Ísraels. 11 Játið nú syndir ykkar fyrir Drottni, Guði feðra ykkar, og gerið vilja hans. Greinið ykkur frá þjóðunum í landinu og hinum útlendu konum.“
12 Þá svaraði allur söfnuðurinn og sagði hárri röddu: „Okkur ber að breyta eins og þú hefur boðið. 13 En fólkið er margt og nú er regntíminn svo að ófært er að vera utan dyra. Auk þess verður ekki gert út um þetta mál á einum eða tveimur dögum því að margir okkar hafa brotið af sér í þessu efni. 14 Foringjar okkar skulu því koma fram fyrir hönd alls safnaðarins. Allir borgarbúar, sem hafa tekið sér útlendar konur, skulu koma á tilteknum tíma, og ásamt þeim öldungar og dómarar hverrar borgar, til þess að við getum beint frá okkur brennandi reiði Guðs okkar vegna þessa.“
15 Aðeins Jónatan Asahelsson og Jahseja Tikvason lögðust gegn þessari tillögu og Mesúllam og Sabtaí Levíti fylgdu þeim að málum. 16 En þeir sem höfðu snúið heim úr útlegðinni gerðu eins og lagt var til.
Esra prestur valdi nú með nafnakalli einn ættarhöfðingja frá hverri ætt. Þeir komu saman fyrsta dag tíunda mánaðarins til að rannsaka málavexti. 17 Fyrsta dag fyrsta mánaðarins gengu þeir frá málum allra þeirra manna sem höfðu tekið til sín útlendar konur.
Skrá yfir þá sem áttu útlendar konur
18 Af niðjum prestanna reyndust eftirtaldir hafa gengið að eiga framandi konur:
Af niðjum Jesúa Jósadakssonar og bræðra hans þeir Maaseja, Elíeser, Jaríb og Gedalja. 19 Þeir staðfestu með handsali að reka frá sér konur sínar og að fórna hrúti í sektarfórn vegna sektar sinnar.
20 Af niðjum Immers þeir Hananí og Sebadía.
21 Af niðjum Haríms þeir Maaseja, Elía, Semaja, Jehíel og Úsía.
22 Af niðjum Pashúrs þeir Eljóenaí, Maaseja, Ísmael, Netaneel, Jósabad og Elasa.
23 Af Levítum þeir Jósabad, Símeí og Kelaja, það er Kelíta, Petahja, Júda og Elíeser.
24 Af söngvurunum Eljasíb.
Af hliðvörðunum þeir Sallúm, Telem og Úrí.
25 Af Ísraelsmönnum voru eftirtaldir:
Af niðjum Paró þeir Ramja, Jisía, Malkía, Míjamín, Eleasar, Malkía og Benaja.
26 Af niðjum Elams þeir Mattanja, Sakaría, Jehíel, Abdí, Jeremót og Elía.
27 Af niðjum Sattú þeir Eljóenaí, Eljasíb, Mattanja, Jeremót, Sabad og Asísa.
28 Af niðjum Bebaí þeir Jóhanan, Hananja, Sabbaí og Atlaí.
29 Af niðjum Baní þeir Mesúllam, Mallúk, Adaja, Jasúb, Seal og Jeramót.
30 Af niðjum Pahat Móabs þeir Adna, Kelal, Benaja, Maaseja, Mattanja, Besaleel, Binnúí og Manasse.
31 Niðjar Haríms, þeir Elíeser, Jisía, Malkía, Semaja, Símeon, 32 Benjamín, Mallúk og Semarja.
33 Af niðjum Hasúms þeir Matnaí, Mattatta, Sabad, Elífelet, Jeremaí, Manasse og Símeí.
34 Af niðjum Baní þeir Maadaí, Amram, Úel, 35 Benaja, Bedja, Kelúhí, 36 Vanja, Meremót, Eljasíb, 37 Mattanja, Matnaí, Jaasaí, 38 Baní, Binnúí, Símeí, 39 Selemja, Natan, Adaja, 40 Maknadbaí, Sasaí, Saraí, 41 Asareel, Selemja, Semarja, 42 Salúm, Amarja og Jósef.
43 Af niðjum Nebós þeir Jeíel, Mattija, Sabad, Sebína, Jaddaí, Jóel og Benaja.
44 Allir sem hér voru taldir höfðu tekið sér útlendar konur. Þeir sendu nú konur sínar ásamt börnum frá sér.