Kýrus veitir útlögunum heimfararleyfi
1 Á fyrsta stjórnarári Kýrusar Persakonungs blés Drottinn honum því í brjóst að láta boð út ganga um allt ríki sitt. Það var til þess að rættist orð Drottins fyrir munn Jeremía. Svohljóðandi fyrirmæli voru gefin bæði munnlega og í konungsbréfi:
2 „Svo segir Kýrus Persakonungur: Drottinn, Guð himinsins, hefur gefið mér öll konungsríki jarðar. Hann hefur sjálfur falið mér að reisa sér hús í Jerúsalem í Júda. 3 Sérhver ykkar sem hér er af öllum lýð hans skal halda upp til Jerúsalem í Júda og vinna að byggingu húss Drottins, Guðs Ísraels. Guð hans sé með honum. Hann er sá Guð sem er í Jerúsalem. 4 Og hvarvetna, þar sem einhver er enn aðkomumaður, eiga heimamenn að sjá honum fyrir silfri, gulli, lausafé og kvikfénaði og auk þess sjálfviljagjöfum til húss Guðs í Jerúsalem.“
5 Þá lögðu ættarhöfðingjar frá Júda og Benjamín af stað ásamt prestunum og Levítunum. Allir, sem Guð hafði blásið því í brjóst að reisa hús Drottins í Jerúsalem, héldu upp eftir. 6 Allir nágrannar þeirra studdu þá með silfurgripum, gulli og öðru lausafé, búfénaði og dýrgripum auk alls þess sem gefið var af frjálsum vilja. 7 Auk þess lét Kýrus konungur af hendi áhöld úr húsi Drottins sem Nebúkadnesar hafði flutt frá Jerúsalem og komið fyrir í húsi guða sinna. 8 Kýrus Persakonungur fékk þau Mítredat féhirði í hendur sem taldi þau frammi fyrir Sesbasar, höfðingja Júda. 9 Þessi var tala þeirra: þrjátíu fórnarskálar úr gulli, þúsund silfurskálar, tuttugu og níu reykelsisker, 10 þrjátíu gullbikarar, fjögur hundruð og tíu silfurbikarar og þúsund önnur áhöld. 11 Alls voru þetta fimm þúsund og fjögur hundruð gull- og silfuráhöld. Sesbasar tók þau öll með sér þegar farið var með útlagana frá Babýlon til Jerúsalem.