Andinn flytur spámanninn til Jerúsalem
1 Á sjötta árinu, á fimmta degi sjötta mánaðar, þegar ég sat í húsi mínu og öldungar Júda sátu frammi fyrir mér, féll hönd Drottins Guðs á mig. 2 Ég leit upp og sá veru sem líktist manni. Það sem virtust vera lendar hans og niður úr var eldur en frá lendum hans og upp á við var skær ljómi, líkur gljáandi hvítagulli. 3 Hann rétti það fram sem líktist hendi og greip í hárbrúsk minn. Þá hóf andinn mig upp milli himins og jarðar og flutti mig til Jerúsalem í guðlegum sýnum, að innganginum að innra hliðinu, sem snýr í norður, þar sem mynd afbrýðinnar er, sem vekur brennandi afbrýði. 4 Þar var dýrð Guðs Ísraels og var alveg eins og sýnin sem ég hafði séð á sléttunni.
Vanhelgun musterisins
5 Hann sagði við mig: „Mannssonur, líttu upp og til norðurs.“ Þá leit ég til norðurs og sá að altari stóð norðan við hliðið og var þessi mynd afbrýðinnar í innganginum. 6 Hann sagði við mig: „Mannssonur, sérðu hvað þeir hafast að? Ísraelsmenn fremja hér þá miklu svívirðu að fjarlægjast helgidóm minn.[ En þú munt sjá enn meiri svívirðu.“
7 Hann leiddi mig að inngangi forgarðsins og þegar ég gætti að sá ég að gat var á múrveggnum. 8 Hann sagði við mig: „Mannssonur, brjóttu þér leið gegnum múrinn.“ Þegar ég braust gegnum múrinn voru þar dyr fyrir. 9 Hann sagði við mig: „Farðu inn og líttu á hinar hryllilegu svívirðingar sem hér eru framdar.“ 10 Ég fór inn og litaðist um og sá að þar voru alls konar myndir af skriðkvikindum og skepnum og öllum skurðgoðum Ísraelsmanna ristar á allan múrvegginn. 11 Frammi fyrir þeim stóðu sjötíu af öldungum Ísraels og á meðal þeirra Jaasanja Safansson. Hver þeirra hélt á reykelsiskeri í hendi sér og stóð ilmandi reykelsismökkur upp af þeim.
12 Hann sagði við mig: „Sérðu, mannssonur, hvað öldungar Ísraels hafast að í myrkrinu, hver í sinni myndastúku? Því að þeir hugsa: Drottinn sér okkur ekki, Drottinn hefur yfirgefið landið.“ 13 Þá sagði hann við mig: „Þú munt sjá þá fremja enn meiri svívirðingar.“
14 Því næst leiddi hann mig að inngangi norðurhliðsins að húsi Drottins. Þar sátu konur og grétu Tammús.[ 15 Og hann sagði við mig: „Sérðu þetta, mannssonur? En þú munt sjá enn meiri svívirðingar en þessar.“
16 Því næst leiddi hann mig í innri forgarð húss Drottins. Þar við innganginn í musteri Drottins voru um það bil tuttugu og fimm menn á milli forsalarins og altarisins. Þeir sneru bakinu í musteri Drottins en andlitinu í austur og létu fallast til jarðar og tilbáðu sólina í austri. 17 Hann sagði við mig: „Sérðu þetta, mannssonur? Nægir Júdamönnum ekki að hafa þær svívirðingar í frammi sem þeir fremja hér, fylla landið ofbeldi og vekja reiði mína hvað eftir annað? Auk þessa halda þeir svo vínviðargrein að vörum sér. 18 Ég mun bregðast við þessu af heift, ég mun ekki líta þá vægðarauga og ekki sýna þeim miskunn. Þó að þeir hrópi hástöfum í eyru mér mun ég ekki hlusta á þá.“