Spádómar gegn Góg
1 Orð Drottins kom til mín:
2 Mannssonur, snúðu þér gegn Góg í landinu Magóg, stórfursta í Mesek og Túbal. Flyt spámannlegan boðskap gegn honum 3 og seg: Svo segir Drottinn Guð: Nú held ég gegn þér, Góg, stórfursti í Mesek og Túbal. 4 Ég sný þér við, kræki krókum í kjálka þér og leiði þig burt ásamt öllum þínum her, hestum og riddurum, öllum albrynjuðum. Ég leiði þetta mikla lið burt sem búið er stórum og smáum skjöldum og með brugðin sverð. 5 Menn frá Persíu, Kús og Pút eru með þeim, allir búnir skildi og hjálmi. 6 Gómer og allar hersveitir hans, einnig Bet Tógarma frá hinum fjarlægustu byggðum í norðri og allar hersveitir hans. Þér fylgja fjölmargar þjóðir. 7 Taktu vopn þín og vígbúðu þig og allan liðsafnað þinn og verið á verði fyrir mig. 8 Eftir nokkurn tíma færð þú fyrirmæli þín. Að mörgum árum liðnum kemur þú til lands sem hefur verið unnið aftur undan valdi sverðsins. Þú kemur til þjóðar sem safnað var saman frá mörgum þjóðum á fjöllum Ísraels en þau voru lengi í eyði. Þessi þjóð var leidd frá framandi þjóðum og nú býr hún öll óhult þar. 9 Þú skalt fara þangað upp eftir eins og þrumuveður, koma eins og óveðursský til að hylja landið, þú og allar hersveitir þínar og margar þjóðir.
10 Svo segir Drottinn Guð: Á þeim degi munu hugsanir koma upp í huga þér og þú munt taka að hyggja á illt 11 og segja: Ég ætla að fara upp eftir gegn óvörðu landi, ráðast á friðsamt fólk sem býr þar áhyggjulaust. Allir búa þar án varnarmúra og hafa hvorki hlið né slagbranda. 12 Þú kemur til að ræna og taka herfang, fara ránshendi um rústirnar sem byggðar eru að nýju. Þú heldur gegn fólki sem hefur verið safnað saman frá framandi þjóðum, fólki sem hefur aflað sér eigna og auðs og býr á nafla jarðar. 13 Þá mun fólk frá Saba og Dedan og umboðsmenn frá Tarsis og allir kaupmennirnir þaðan spyrja þig: „Kemur þú til að ræna og taka herfang, safnaðir þú að þér hersveitum til að ræna og taka herfang, stela silfri og gulli, ræna eignum manna og auði og komast yfir mikinn ránsfeng?“
14 Mannssonur, spáðu og segðu við Góg: Svo segir Drottinn Guð: Heldur þú ekki af stað þegar lýður minn Ísrael hefur komið sér fyrir óhultur? 15 Kemur þú ekki frá landi þínu lengst í norðri, þú og margar þjóðir með þér, allir ríðandi á hestum, mikill liðsafnaður og voldugur her? 16 Þá munt þú halda upp eftir gegn lýð mínum, Ísrael, eins og óveðursský til að hylja landið. Á hinum síðustu dögum sendi ég þig gegn landi mínu svo að þjóðirnar þekki mig þegar ég birti heilagleika minn vegna þín, Góg, fyrir augum þeirra.
17 Svo segir Drottinn Guð: Þú ert sá sem ég talaði um fyrir munn þjóna minna, spámanna Ísraels, á fyrri tímum. Þeir boðuðu á þeim dögum að ég myndi leiða þig gegn þeim. 18 En þann dag, daginn sem Góg heldur gegn landi Ísraels, mun heiftin ólga í mér segir Drottinn Guð. 19 Ég sagði í ákafa mínum, í brennandi heift minni: Á þeim degi verður gífurlegur jarðskjálfti í landi Ísraels. 20 Þá munu fiskar sjávarins og fuglar himinsins og dýr merkurinnar og öll kvikindin sem skríða á jörðinni og allir menn á jörðinni skjálfa frammi fyrir augliti mínu. Fjöllin munu klofna og hamrarnir hrynja og allir múrveggir jafnast við jörðu. 21 Ég mun bjóða út hvers kyns ógnum gegn Góg, segir Drottinn Guð, hver maður mun beita sverði mínu gegn náunga sínum. 22 Ég fullnægi refsidómi mínum yfir honum með drepsótt og blóði og steypiregni, hagli og eldi og ég helli brennisteini yfir hann og liðssveitir hans og hinar fjölmörgu þjóðir sem fylgja honum. 23 Þannig mun ég sýna að ég er mikill og heilagur og gera mig kunnan í augsýn margra þjóða. Þá munu þeir skilja að ég er Drottinn.