Beinin í dalnum
1 Hönd Drottins kom yfir mig. Hann leiddi mig burt í anda sínum og lét mig nema staðar í dalbotninum miðjum. Hann var þakinn beinum. 2 Hann leiddi mig umhverfis þau á alla vegu og ég sá að þau voru fjölmörg, skinin bein, dreifð um dalbotninn.
3 Þá spurði hann mig: „Mannssonur, geta þessi bein lifnað við?“ Ég svaraði: „Drottinn Guð. Þú einn veist það.“ 4 Þá sagði hann við mig: „Flyt þessum beinum spádóm og segðu við þau: Þið, skinin bein, heyrið orð Drottins. 5 Svo segir Drottinn Guð við þessi bein: Ég sendi anda í ykkur svo að þið lifnið við. 6 Ég festi á ykkur sinar, þek ykkur með holdi, dreg þar hörund yfir og gef ykkur anda svo að þið lifnið við. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn.“
7 Því næst boðaði ég það sem fyrir mig var lagt. Á meðan ég talaði heyrðist allt í einu hár hvinur og beinin færðust saman, hvert beinið að öðru. 8 Ég horfði á þetta og sá að hold og hörund þakti þau en enginn lífsandi var í þeim.
9 Þá sagði hann við mig: „Flyt andanum spádóm, mannssonur, flyt spádóm og seg við andann: Svo segir Drottinn Guð: Kom, andi, úr áttunum fjórum og blás á þessa vegnu menn svo að þeir lifni við.“
10 Þá talaði ég eins og hann bauð mér og lífsandinn kom í þá svo að þeir lifnuðu við. Þeir risu á fætur og var það geysifjölmennur her.
11 Þá sagði hann við mig: „Mannssonur, þessi bein eru allir Ísraelsmenn. Þeir segja: Bein okkar eru skinin, von okkar brostin, það er úti um okkur. 12 Spá því og seg við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ég opna grafir ykkar og leiði ykkur, þjóð mína, úr gröfum ykkar og flyt ykkur til lands Ísraels. 13 Þið munuð skilja að ég er Drottinn þegar ég opna grafir ykkar og leiði ykkur, þjóð mín, upp úr gröfum ykkar. 14 Ég sendi anda minn í ykkur svo að þið lifnið við og bý ykkur hvíld í ykkar eigin landi. Þá munuð þið skilja að ég er Drottinn. Ég hef talað og ég geri eins og ég segi, segir Drottinn.“
Sameining Ísraels og Júda
15 Orð Drottins kom til mín: 16 En þú, mannssonur, tak tréstaf og skrifa á hann: Júda og Ísraelsmenn, bandamenn hans. Taktu síðan annan tréstaf og skrifaðu á hann: Jósef og allir Ísraelsmenn, bandamenn hans. 17 Skeyttu þá síðan saman svo að þeir verði einn stafur í hendi þér. 18 En ef landar þínir segja við þig: „Viltu ekki skýra fyrir okkur hvað þetta á að þýða?“ 19 svaraðu þeim þá: Svo segir Drottinn Guð: Hér með tek ég staf Jósefs og ættbálka Ísraels og bandamanna hans, sem er í hendi Efraíms, og bæti staf Júda við hann. Ég geri þá að einum tréstaf svo að ég hafi aðeins einn staf í hendi mér. 20 Stafina, sem þú hefur skrifað á, skaltu hafa í hendi þér fyrir augum þeirra. 21 Segðu síðan við þá: Svo segir Drottinn Guð: Ég sæki Ísraelsmenn til þjóðanna sem þeir fóru til og safna þeim úr öllum áttum og flyt þá til þeirra eigin lands. 22 Ég geri þá að einni þjóð í landinu, í fjalllendi Ísraels, og einn konungur skal vera konungur þeirra allra. Þeir skulu aldrei framar verða tvær þjóðir né heldur skiptast í tvö konungsríki. 23 Þeir munu aldrei framar saurga sig á skurðgoðum, andstyggilegum guðamyndum eða afbrotum sínum. Ég mun bjarga þeim frá fráhvarfi þeirra sem leiddi þá til syndar. Ég mun hreinsa þá og þeir verða minn lýður og ég verð Guð þeirra. 24 Davíð, þjónn minn, verður konungur yfir þeim og þeir munu allir hafa einn hirði. Þeir munu breyta eftir reglum mínum og halda lög mín og framfylgja þeim. 25 Þeir munu búa í landinu sem ég gaf Jakobi, þjóni mínum, og forfeður þeirra bjuggu í. Þar munu þeir ævinlega búa, börn þeirra og barnabörn, og Davíð, þjónn minn, verður höfðingi þeirra um allan aldur. 26 Ég mun gera við þá sáttmála þeim til heilla og það skal verða ævarandi sáttmáli við þá. Ég mun fjölga þeim og setja helgidóm minn mitt á meðal þeirra um alla framtíð. 27 Bústaður minn verður hjá þeim og ég verð Guð þeirra og þeir verða þjóð mín. 28 Þjóðirnar munu skilja að ég er Drottinn sem helgar Ísrael þegar helgidómur minn verður ævinlega á meðal þeirra.