Sérhver er ábyrgur gerða sinna
1 Orð Drottins kom til mín: 2 Hvernig dettur ykkur í hug að taka ykkur þetta orðtak í munn í landi Ísraels:
„Feðurnir eta súr vínber og synirnir fá sljóar tennur?“
3 Svo sannarlega sem ég lifi, segir Drottinn Guð, skal enginn ykkar taka sér þetta orðtak í munn framar í Ísrael. 4 Líf allra manna er mín eign, líf föður jafnt og líf sonar er mín eign. Aðeins sá sem syndgar skal deyja.
5 Sé einhver réttlátur iðkar hann rétt og réttlæti. 6 Hann heldur ekki fórnarmáltíð á fjöllum og hefur ekki upp augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, hann svívirðir ekki eiginkonu náunga síns og leggst ekki með konu sem hefur á klæðum, 7 hann beitir engan ofríki, skilar skuldunauti veði sínu, hann fremur ekki rán, hann gefur hungruðum mat sinn, hann skýlir nöktum með klæðum, 8 hann lánar ekki gegn vöxtum, stundar ekki okur, hann heldur hendi sinni frá illum verkum, hann fellir óvilhallan úrskurð í deilum manna, 9 hann fer að lögum mínum og breytir í öllu eftir reglum mínum og fylgir þeim. Hann er réttlátur. Þess vegna mun hann lifa, segir Drottinn Guð.
10 Eignist þessi maður ofbeldishneigðan son sem úthellir blóði og fremur eitthvað af því 11 sem faðir hans lét ógert, heldur fórnarmáltíð á fjöllum og svívirðir eiginkonu náunga síns, 12 beitir fátæka og hjálparvana ofríki, fremur rán, skilar skuldunauti ekki veði sínu, hefur augu sín upp til skurðgoða, fremur viðurstyggilegt athæfi, 13 veitir lán gegn vöxtum og stundar okur, á hann að halda lífi? Nei, hann á ekki að halda lífi. Þar sem hann hefur framið alla þessa svívirðu skal hann deyja. Blóð hans skal koma yfir höfuð hans.
14 Nú eignast þessi maður einnig son sem sér allar þær syndir sem faðir hans drýgði, sér þær en drýgir þær ekki. 15 Hann heldur ekki fórnarmáltíð á fjöllum, hann hefur ekki upp augu sín til skurðgoða Ísraelsmanna, hann svívirðir ekki eiginkonu náunga síns, 16 hann beitir engan ofríki, hann krefst ekki veðs, hann fremur ekki rán, hann gefur hungruðum mat sinn, hann skýlir nöktum með klæðum. 17 Hann heldur hendi sinni frá illum verkum, tekur hvorki vexti né stundar okur, framfylgir reglum mínum og fer að lögum mínum, þessi maður á ekki að deyja vegna sektar föður síns, hann á að halda lífi. 18 En faðir hans, sem beitti menn þvingun, rændi og vann illvirki meðal skyldmenna sinna, hann skal deyja fyrir sekt sína.
19 Samt spyrjið þið: „Hvers vegna tekur sonurinn ekki á sig sekt föður síns?“ Þar sem sonurinn hefur iðkað rétt og réttlæti og hefur gætt þess að halda öll ákvæði laga minna og framfylgja þeim skal hann vissulega lífi halda. 20 Sá maður sem syndgar skal deyja. Hvorki skal sonur taka á sig sekt föður síns né faðir taka á sig sekt sonar síns. Réttlæti réttláts manns skal tilreiknað honum sjálfum og ranglæti guðlauss manns skal koma niður á honum sjálfum. 21 En snúi guðlaus maður frá öllum sínum syndum, haldi hann öll mín lög og geri það sem er rétt og réttlátt, skal hann sannarlega lifa, hann skal ekki deyja. 22 Afbrotanna, sem hann framdi, verður ekki minnst honum til skaða. Hann skal lifa vegna þess réttlætis sem hann iðkar. 23 Þóknast mér dauði hins guðlausa? segir Drottinn Guð. Þóknast mér ekki miklu fremur að hann snúi frá breytni sinni og lifi?
24 En snúi réttlátur maður frá réttlæti sínu og fremji ranglæti og vinni öll þau sömu viðurstyggilegu verk og hinn guðlausi hefur unnið, á hann þá að halda lífi? Réttlætisverkanna sem hann vann verður ekki minnst. Vegna sviksemi sinnar og syndanna sem hann drýgði skal hann deyja.
25 Nú segið þið: „Drottinn breytir ekki rétt.“ En hlustið nú, Ísraelsmenn: Er það breytni mín sem ekki er rétt? Eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? 26 Þegar réttlátur maður hverfur frá réttlæti sínu og fremur ranglæti og deyr hefur hann dáið vegna þess ranglætis sem hann framdi. 27 Þegar guðlaus maður snýr frá því ranglæti sem hann hefur framið og iðkar rétt og réttlæti mun hann halda lífi. 28 Hann hefur séð að sér og snúið baki við afbrotunum sem hann framdi. Hann skal halda lífi, hann skal ekki deyja.
29 En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? 30 Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. 31 Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? 32 Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.