Daníel í ljónagryfjunni
1 Daríus frá Medíu settist að völdum í ríkinu og var hann þá sextíu og tveggja ára að aldri. 2 Daríusi þótti henta að setja yfir ríkið hundrað og tuttugu héraðshöfðingja, sem skipað var niður víðs vegar um ríkið, 3 og þrjá yfirhöfðingja yfir þá og var Daníel einn þeirra. Gagnvart þeim ábyrgðust héraðshöfðingjarnir að hlutur konungs væri í engu skertur. 4 Daníel bar svo af yfirhöfðingjunum og héraðshöfðingjunum vegna frábærrar andagiftar sinnar að Daríus hugðist setja hann yfir allt ríkið. 5 Yfirhöfðingjarnir og héraðshöfðingjarnir tóku því að huga að því hvort finna mætti einhverja misfellu í stjórnsýslu Daníels en ekki tókst þeim að finna neitt sem gæti orðið honum til ámælis eða sakargifta enda var hann svo trúr í starfi að engin ávirðing eða vanræksla varð þar fundin.
6 Þá sögðu mennirnir: „Ekki tekst okkur að finna neitt saknæmt um Daníel þennan nema vera kynni að einhver sök leyndist í átrúnaði hans.“
7 Þessir yfirhöfðingjar og héraðshöfðingjar skunduðu nú á konungs fund og sögðu: „Daríus konungur, megir þú lifa að eilífu. 8 Allir yfirhöfðingjar ríkisins, landstjórar, héraðshöfðingjar, ráðgjafar og landshöfðingjar hafa komið sér saman um að gefin skuli út konungsskipun til staðfestingar því að hverjum þeim skuli varpað í ljónagryfju sem í þrjátíu daga snýr bænum sínum til nokkurs guðs eða manns annars en þín, konungur. 9 Nú skaltu, konungur, gefa þetta bannákvæði út og láta skrá það og birta svo að því verði ekki breytt fremur en öðrum órjúfanlegum lögum Meda og Persa.“ 10 Eftir þessu fór konungur og staðfesti bannskjalið.
11 Daníel frétti að þessi tilskipun hefði verið gefin út. Gekk hann þá inn í hús sitt. Á efri hæð hafði hann opna glugga sem vissu að Jerúsalem og þrisvar á dag kraup hann á kné, bað til Guðs síns og vegsamaði hann eins og vandi hans hafði verið. 12 Nú skunduðu þessir menn til og komu að Daníel þar sem hann var að biðja og ákalla Guð sinn.
13 Þeir gengu því næst fyrir konung og færðu konungsbannið í tal við hann: „Hefur þú ekki staðfest það bannákvæði að hverjum þeim sem í þrjátíu daga snýr bænum sínum til nokkurs guðs eða manns annars en þín, konungur, skuli varpað í ljónagryfju?“ Konungur svaraði: „Það er föst ákvörðun eftir órjúfanlegu lögmáli Meda og Persa.“ 14 Þeir sögðu þá við konung: „Daníel, einn af Gyðingunum herleiddu, skeytir hvorki um þig, konungur, né bannið sem þú hefur gefið út, heldur gerir hann bæn sína þrisvar á dag.“ 15 Konungi var brugðið er hann heyrði þetta og hugleiddi hann nú hvernig bjarga mætti Daníel. Allt til sólarlags leitaði hann ráða honum til hjálpar. 16 Þessir sömu menn hröðuðu sér til konungs og sögðu: „Þú veist, konungur, að lög Meda og Persa mæla svo fyrir að hvorki megi raska boði né banni sem konungur hefur staðfest.“
17 Konungur skipaði þá að Daníel skyldi sóttur og honum varpað í ljónagryfjuna. Og konungur sagði við Daníel: „Megi nú Guð þinn frelsa þig, sá sem þú vegsamar án afláts.“ 18 Sóttu menn nú stein og lögðu yfir gryfjuopið en konungur innsiglaði hann með innsiglishring sínum og innsiglishringum yfirhöfðingja sinna svo að engu yrði breytt um þá ráðstöfun sem gerð hafði verið vegna Daníels.
19 Gekk konungur síðan heim í höll sína og var þar um nóttina og fastaði. Hann lét ekki færa frillur inn til sín og var andvaka um nóttina.
20 Konungur reis úr rekkju strax er lýsa tók af degi og skundaði til ljónagryfjunnar. 21 Hann kom að ljónagryfjunni og kallaði þá á Daníel dapurri röddu. Konungur tók til máls og sagði: „Daníel, þjónn hins lifandi Guðs, hefur Guð þinn, sá sem þú vegsamar án afláts, megnað að frelsa þig undan ljónunum?“ 22 Þá sagði Daníel við konung: „Konungur, megir þú lifa að eilífu. 23 Guð sendi engil sinn og hann lokaði gini ljónanna svo að þau unnu mér ekkert mein. Gagnvart honum hef ég reynst saklaus og í engu hef ég brotið gegn þér, konungur.“ 24 Varð nú konungur harla glaður og skipaði mönnum að draga Daníel upp úr gryfjunni. Og Daníel var dreginn upp úr gryfjunni og var ekki að sjá að honum hefði orðið neitt að meini enda hafði hann treyst Guði sínum.
25 En konungur bauð að mennirnir, sem höfðu rægt Daníel, yrðu sóttir og þeim, börnum þeirra og konum kastað í ljónagryfjuna. Og áður en þau kenndu botns í gryfjunni hremmdu ljónin þau og bruddu öll bein þeirra.
26 Daríus konungur ritaði nú öllum mönnum sem búa á jörðinni, af öllum þjóðum og öllum tungum: „Megi ykkur vel farnast.
27 Þá skipun birti ég að í öllu ríki mínu skulu menn óttast og virða Guð Daníels.
Hann er hinn lifandi Guð
og varir að eilífu.
Ríki hans hrynur ekki
og vald hans mun engan enda taka.
28 Hann frelsar og bjargar,
hann gerir tákn og undur á himni og jörð,
hann sem bjargaði Daníel úr klóm ljónanna.“
29 Og vegur Daníels var mikill bæði á stjórnartímum Daríusar og á stjórnarárum Kýrusar hins persneska.