Demetríus I tekur við konungdómi
1 Árið eitt hundrað fimmtíu og eitt fór Demetríus Selevkusson frá Róm og sté á land með nokkrum lagsmanna sinna í borg einni við hafið. Þar tók hann sér konungstign. 2 Þegar hann svo var á leiðinni til konungshallar feðra sinna tóku liðssveitir hans þá Antíokkus og Lýsías höndum til að fara með þá til Demetríusar. 3 Þegar honum var skýrt frá þessu sagði hann: „Ég kæri mig ekki um að sjá þá.“ 4 Þá tóku hermennirnir þá af lífi en Demetríus settist í hásæti ríkis síns.
5 Til hans komu allir lögmálslausir og guðlausir Ísraelsmenn. Fyrir þeim fór Alkímus sem stefndi að því að verða æðsti prestur. 6 Þeir kærðu þjóð sína fyrir konunginum og sögðu: „Júdas og bræður hans hafa drepið alla vini þína og hrakið okkur úr landi okkar. 7 Sendu nú einhvern sem þú treystir til að fara og sjá allt það tjón sem Júdas hefur bakað okkur og landi konungs. Lát þú hann refsa Júdasi og öllum sem veita honum lið.“
Bakkídes og Alkímus herja á Júdeu
8 Konungur tilnefndi Bakkídes, sem var einn af vinum hans, mikils metinn maður í ríkinu og trúr konungi og landstjóri handan fljótsins. 9 Sendi hann þennan mann ásamt hinum guðlausa Alkímusi, sem hann veitti æðstaprestsembættið, og gaf honum fyrirmæli um að refsa Ísraelsmönnum. 10 Fóru þeir af stað og komu með mikinn her til Júdeu. Bakkídes sendi boðbera til Júdasar og bræðra hans með friðmæli en svik bjuggu undir. 11 Þeim þóttu orð hans lítt traustvekjandi enda sáu þeir að Bakkídes var kominn með mikinn her.
12 Hópur fræðimanna sameinaðist um að fara til Alkímusar og Bakkídesar og leita réttlátra skilmála. 13 Voru Hasídear fyrstir Ísraelsmanna til að friðmælast við þá. 14 Sögðu þeir sem svo: „Með hernum er kominn prestur af Arons ætt. Ekki mun hann vinna okkur mein.“ 15 Alkímus lét líka friðarvilja í ljós við þá og lagði eið að: „Ekki munum við reyna að gera ykkur eða vinum ykkar illt,“ sagði hann.
16 Þeir treystu honum en hann tók sextíu þeirra höndum og drap þá á einum og sama degi eins og segir í ritningunni:
17 „Þeir úthelltu blóði þinna heilögu og dreifðu þeim umhverfis Jerúsalem og enginn var til að jarða þá.“
18 Öll þjóðin óttaðist þá og varð gripin skelfingu. „Þeir vanvirða sannleika og réttlæti,“ var sagt, „því að þeir rufu bæði samninginn og eiðinn sem þeir sóru.“
19 Bakkídes fór síðan frá Jerúsalem og setti herbúðir við Bet Said. Hann sendi menn til að handtaka marga af liðhlaupunum sem gengið höfðu honum á hönd og auk þess fjölda annarra landa þeirra. Slátraði hann þeim öllum og varpaði ofan í brunninn mikla. 20 Bakkídes fól Alkímusi stjórn landsins, skildi eftir herlið honum til varnar og sneri aftur til konungsins.
21 En Alkímus varð að berjast fyrir æðstaprestsembættinu. 22 Að honum söfnuðust allir þeir sem hrellt höfðu þjóð sína. Brutu þeir Júdeu undir sig og urðu hin mesta plága í Ísrael.
23 Júdas sá að öll sú ógæfa sem Alkímus og menn hans bökuðu Ísraelsmönnum tók þeirri fram sem heiðingjarnir höfðu valdið. 24 Hélt hann af stað og fór víða um byggðir Júdeu. Kom hann fram hefndum á liðhlaupum og gerði þeim ókleift að fara frjálsir ferða sinna á landsbyggðinni. 25 En þegar það rann upp fyrir Alkímusi að lið Júdasar efldist varð honum ljóst að hann gæti ekki staðist þá. Sneri hann aftur til konungs og bar menn Júdasar þungum sökum.
Níkanor í Jerúsalem
26 Konungur sendi þá Níkanor, einn dáðasta herforingja sinn og hatramman fjandmann Ísraels, og fól honum að afmá þjóðina.
27 Níkanor kom til Jerúsalem með mikið lið og sendi boð til Júdasar og bræðra hans og bauð frið þvert um hug sér. 28 „Milli mín og ykkar skal enginn ófriður vera,“ sagði hann. „Þess vegna skal ég koma fáliðaður til fundar við ykkur svo að við getum ræðst við friðsamlega og augliti til auglitis.“ 29 Kom hann til Júdasar og skiptust þeir vinsamlega á kveðjum en óvinirnir biðu tilbúnir að grípa Júdas. 30 Júdas komst að því að Níkanor var kominn með sviksamlegum ásetningi. Varð hann óttasleginn og fékkst ekki framar til að hitta hann. 31 Níkanor varð þá ljóst að komist hafði upp um ráðagerð hans og fór til að mæta Júdasi í bardaga við Kafar Salama. 32 Féllu um fimm hundruð manns af liði Níkanors en hinir flýðu til borgar Davíðs.
33 Eftir þessa atburði fór Níkanor upp á Síonfjall. Komu nokkrir af prestunum til móts við hann út úr helgidóminum og nokkrir öldunganna. Ætluðu þeir að heilsa Níkanor vinsamlega og sýna honum brennifórnina sem færð var konungi til heilla. 34 En hann gerði gys að þeim, hæddi þá og saurgaði, talaði drambsamlega 35 og sór í bræði: „Ef Júdas og her hans verður ekki seldur mér í hendur nú þegar, þá mun ég brenna þetta hús þegar ég kem aftur heill á húfi.“ Fór hann síðan hamslaus af bræði.
36 Prestarnir gengu inn, tóku sér stöðu frammi fyrir fórnaraltarinu og musterinu og sögðu grátandi: 37 „Þú útvaldir hús þetta til að bera nafn þitt og vera hús bæna og ákalls fyrir lýð þinn. 38 Refsa þú manni þessum og her hans. Lát þá falla fyrir sverði. Minnstu guðlasts þeirra og gefðu þeim engin grið.“
Ósigur Níkanors
39 En Níkanor fór frá Jerúsalem og setti herbúðir í Bet Horon þar sem sýrlenskur her kom til liðs við hann. 40 Júdas setti herbúðir í Asada ásamt þrjú þúsund manna liði. Og Júdas bað þessarar bænar: 41 „Einu sinni, þegar konungsmenn guðlöstuðu, fór engill þinn og deyddi hundrað áttatíu og fimm þúsund í her þeirra. 42 Eyð þú her þessum á sama hátt í árás okkar í dag. Lát þá sem af komast skilja að það var óhæfa af Níkanor að smána helgidóm þinn með orðum og refsa honum eins og hann á skilið.“
43 Herjunum laust saman þrettánda dag adarmánaðar og beið her Níkanors ósigur. Sjálfur féll hann fyrstur í orrustunni. 44 Þegar liðsmenn hans sáu að Níkanor var fallinn fleygðu þeir vopnum sínum og flýðu. 45 Menn Júdasar eltu þá eina dagleið frá Asada alla leið að Geser og þeyttu herlúðra á eftirförinni. 46 Menn þustu þá út úr öllum þorpum Júdeu þar umhverfis og umkringdu flóttaliðið og hröktu það aftur í fangið á þeim sem veittu eftirför. Féll liðið allt fyrir sverði og enginn komst af.
47 Ísraelsmenn tóku vopn og vistir óvinanna. Þeir hjuggu höfuðið af Níkanor og hægri höndina sem hann hafði lyft í ofurdrambi og fóru með hvort tveggja og hengdu upp fyrir utan Jerúsalem. 48 Þjóðin gladdist stórum og hélt daginn hátíðlegan með miklum fögnuði. 49 Var ákveðið að halda þennan dag hátíðlegan árlega þrettánda dag adarmánaðar.
50 Ríkti nú friður í Júdeu skamma hríð.